„Þessar greinar eru allar skrifaðar af einhverjum sem rak tána í,“ sagði pabbi vinkonu minnar eftir lestur nokkurra áramótagreina í fyrra. Honum fannst sem sagt sjónarhornið heldur þröngt og að horfa mætti meira á árið í alþjóðlegu samhengi. Síðustu tvö árin voru reyndar því markinu brennd að það var ekki hægt að tala um neitt í neinu samhengi án þess að minnast á heimsfaraldur og allt sem honum fylgdi og hann var vissulega alþjóðlegt vandamál.
En það er blessunarlega óþarfi að skrifa mikið um þennan faraldur nú, eða er það ekki? Þegar hefur mikið verið rætt og ritað um ýmsar hliðarafurðir hans, eins og verðbólgu og vaxtahækkanir í kjölfar allrar þeirrar efnahagslegu örvunar sem ríkisstjórnir víða um heim gripu til. Sums staðar hafa afleiðingarnar þó verið sértækari – og pólitískari – en það, eins og í Bretlandi, sem lýkur þessu ári með metfjölda forsætisráðherra. Boris Johnson hrökklaðist frá völdum, ekki síst eftir endalausan vandræðagang vegna brota á eigin COVID-reglum. Við tók Liz Truss, í krafti loforða um efnahagslegt kraftaverk, eftir að hafa unnið Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem þótti ekki eins spennandi kostur. Truss setti met þegar hún sagði af sér, hafandi setið einungis 45 daga í embætti, enda kom í ljós að markaðurinn hafði enga trú á loforðum hennar, pundið féll, áhlaup var gert á breska lífeyrissjóði og um stund hrikti verulega í stoðum breska hagkerfisins. Hún varð líka síðasti forsætisráðherrann til að hitta Elísabetu drottningu, sem lést skömmu síðar. Atburðirnir teljast þó ótengdir. Rishi Sunak varð svo fimmti forsætisráðherra Breta á einungis sex árum, frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit, og þess má geta að Liz Truss var sá fjórði til að segja af sér. Kötturinn Larry er í raun orðinn eina tákn stöðugleika í breskum stjórnmálum, enda hefur hann staðið vaktina í Downingsstræti síðan 2011.
Boris Johnson, sem kvaddi breska þingið í sumar með orðunum, hasta la vista, baby, eða sjáumst aftur, heillin, velti alvarlega fyrir sér endurkomu þegar stóllinn losnaði í haust. Hann flaug úr fríi á suðrænni eyju, úfinn á almennu farrými, en áttaði sig sennilega á því þegar heim var komið að af honum væri meira framboð en eftirspurn.
Það ljós virðist ekki enn hafa runnið upp fyrir ellilífeyrisþega í Flórída, sem tilkynnti forsetaframboð sitt í nóvember, engum til mikillar undrunar. Það þótti svo lítil frétt að hún endaði sem stuttur eindálkur á blaðsíðu 26 í New York Post. Sú niðurlæging þótti aftur á móti víða fréttnæm, enda var Rupert Murdoch, eigandi blaðsins, lengi meðal helstu stuðningsmanna Trumps. Svo bregðast krosstré og allt það.
Áhrifa Trumps gætir þó enn. Birtingarmynd þeirra varð ljós þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna, sem eftir forsetatíð Trumps er að meirihluta skipaður íhaldssömum dómurum, sneri í sumar við Roe gegn Wade, fordæmisgefandi dómi sem hafði í um hálfa öld tryggt konum rétt til þungunarrofs, óháð afstöðu einstakra ríkja. Niðurstaðan er reiðarslag í baráttu kvenna fyrir frelsi og sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama og bitnar verst á þeim sem hafa minnst milli handanna, búa í afturhaldssamari hlutum Bandaríkjanna og eiga ekki kost á að ferðast til frjálslyndari ríkja. En íhaldssamir Repúblikanar fögnuðu. Þeir sáu þó ekki fyrir að þetta myndi stöðva rauðu bylgjuna sem búist var við að myndi ríða yfir í þingkosningum nú í nóvember. Almennt er gert ráð fyrir að flokkur forseta tapi fylgi í kosningum á miðju kjörtímabili, og útlitið var ekki bjart í haust, í miðju verðbólgubáli og vaxtahækkunum. Úrslitin urðu samt sem áður þau að Repúblikanar náðu ekki meirihluta í öldungadeildinni heldur töpuðu manni og rétt mörðu meirihluta í fulltrúadeildinni.
En frelsið er í hættu víðar. Konur í Afganistan sjá nú á eftir öllum þeim réttindum sem þær höfðu endurheimt eftir að talibönum var komið frá völdum fyrir um tveimur áratugum. Þær mega nú hvergi vinna nema hjá hinu opinbera (og hver af talibönunum er að fara að ráða þær þar?) og er meinað að stunda háskólanám, auk allra annarra, mögulegra takmarkana og banna sem þessari illu og heimsku stjórn lítilla karla hefur dottið í hug að koma á til að halda konum niðri.
Í september lést ung írönsk kona, Mahsa Amini eftir að hafa verið misþyrmt af siðferðislögreglunni í Íran fyrir að brjóta strangar reglur um klæðaburð kvenna. Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli, ein þau mestu í rúmlega fjörutíu ára valdatíð klerkastjórnarinnar, og hafa þau nú staðið í meira en hundrað daga. Tugþúsundir hafa mótmælt ofbeldi íranskra stjórnvalda, konur og stúlkur hafa brennt höfuðslæður og klippt hár sitt undir slagorðinu Kona, líf, frelsi, íranska landsliðið í knattspyrnu neitaði að syngja þjóðsöng sinn í Katar og íranskar kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur og áhrifavaldar hafa opinberlega lýst yfir stuðningi við mótmælendur. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið ofsafengin, mótmælendur hafa verið teknir af lífi opinberlega og þúsundir verið fangelsaðar, mörg hundruð manns látist í átökum við lögreglu, þar á meðal börn, og enn fleiri slasast.
Í Úkraínu er líka barist fyrir frelsi. Úkraínumenn hafa fært miklar fórnir um leið og þeir hafa sýnt ótrúlegan styrk og baráttuvilja gegn Pútín, sem nýlega lofaði (eða hótaði) takmarkalausum fjárútlátum til stríðsrekstrarins. Fáir bjuggust við jafnskipulegri og árangursríkri andstöðu og Úkraína hefur sýnt, og sennilega síst Pútín sjálfur, sem í mikilmennskubrjálæði sínu átti von á að það yrði létt verk að brjóta þessa nágranna Rússlands á bak aftur, rétt eins og Stalín hafði gert með því að svelta sjálfstæðistilburði þjóðarinnar til bana fyrir tæpri öld. Þjóðir bandamanna hafa stutt myndarlega við Úkraínu, en Selenskí forseti sagði í ræðu í bandaríska þinginu, nú rétt fyrir jól, að sá stuðningur væri engin ölmusa, heldur fjárfesting í lýðræði og öryggi á alþjóðavísu. Innrás Rússa hefur enda breytt heimsmynd okkar á stuttum tíma og varpað ljósi á hversu brothætt hún er í raun og veru. Fyrir þau sem búa á meginlandinu er þetta mun áþreifanlegra en fyrir okkur, því að þótt við séum engan veginn ónæm fyrir efnahagslegum áhrifum af innrásinni, höfum við til dæmis ekki þurft að velja hvort við borðum heitan kvöldmat eða förum í sturtu sama daginn. Síðasti orkureikningur vinafólks míns í Svíþjóð, fjögurra manna fjölskyldu, var upp á 140 þúsund íslenskar krónur. Það er eftir að þau hafa gripið til ýmissa sparnaðaraðgerða, eins og að lækka hitann í 16-18 gráður í húsinu, þvo minna og á eins stuttu prógrammi og hægt er og fara sjaldnar í sturtu. Þetta er auðvitað lúxus miðað við það að hafa þurft að flýja heimili sitt undan sprengjuregni óvinahers, en samt áþreifanleg áhrif og ekki allir hafa bolmagn til að standa undir slíkum greiðslum mánuðum saman.
Svo ég vísi aftur í pabba vinkonu minnar, þá held ég að það megi fullyrða að út frá þessu víðara sjónarhorni höfum við margt til að vera þakklát fyrir. Þótt við getum rifist um bankasölu og borgarmál, snjómokstur og vinnutímastyttingu, haft áhyggjur af verðbólgu, vaxtahækkunum og of mörgum tásum á Tene og viljum gjarnan geta gert betur í ýmsum málum, er svo margt sem fellur með okkur. Við búum við pólitískan stöðugleika, í réttarríki sem ber virðingu fyrir mannréttindum og frelsi, erum að mestu leyti sjálfum okkur næg um orku og erum í þeirri stöðu að geta tekið á móti fólki á flótta í stað þess að flýja sjálf. Það þýðir ekki að öll okkar vandamál séu léttvæg fundin, enda þurfum við áfram, hvert og eitt, að takast á við þau verkefni sem lífið færir okkur, óháð því sem gerist í kringum okkur. Og þar sem ég sit og horfi á uppljómað jólatréð með úkraínska jólaskrautinu sem ég keypti fyrir löngu á útimarkaði í Kyiv, er ég í það minnsta þakklát fyrir að búa í hlýju og öryggi á friðsælli eyju í Atlantshafi.
Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.