Hnotasteinn á Hólaheiði á Melrakkasléttu er eitt þeirra mörgu svæða á íslensku landi sem erlent orkufyrirtæki hefur óskað eftir að reisa vindorkuver á. Samkvæmt tillögum að matsáætlun á umhverfisáhrifum framkvæmdanna á Melrakkasléttu er markmiðið „að auka framboð endurnýjanlegrar raforku á Íslandi með sjálfbærum hætti.“ Óljóst er hverjum raforkan er ætluð en gera má því skóna að hún sé ekki ætluð til heimabrúks heldur miklu frekar til útflutnings fyrir orkuþurfandi þjóðir á meginlandi Evrópu, þaðan sem orkufyrirtækið á rætur að rekja.
Áætlað er að reisa orkuverið á 33,3 km2 landi við þjóðveg nr. 85 þar sem hann liggur þvert yfir sunnanverða Melrakkasléttu í 6,5 km fjarlægð frá Kópaskeri og 3 km frá næsta bóndabýli. Mývatn er 37 km2. Uppsett afl orkuversins verður 200 MW. Hrauneyjafossvirkjun, þriðja stærsta raforkuver landsins, er 210 MW. Svæðið á Hólaheiði verður ígildi miðlunarlóns og verður ekki framar notað til landbúnaðar þótt annað sé gefið í skyn í gögnum sveitarfélagins Norðurþings, hvað þá til náttúruupplifunar. Til stendur að reisa um 40 vindmyllur sem í hæstu stöðu eru um 200 metra háar eða á við þrefaldan Hallgrímskirkjuturn í Reykjavík. Áréttað skal að snemma árs 2021, þegar tillagan að matsáætlun á umhverfisáhrifum var send Skipulagsstofnun, var áætlað að þær yrðu 34 en í júní 2021 voru þær orðnar um 40 án þess að afli virkjunarinnar hafi verið breytt í samræmi við það í fylgigögnum. Verður raforkuver á Melrakkasléttu þriðja aflmesta raforkuverið á landinu innan fárra ára og það án þess að þjóðin hafi nokkuð um það að segja?
Hallgrímskirkja og vindmyllurnar sem mögulega verða reistar á Hólaheiði eiga það sameiginlegt að standa hátt í landinu. Kirkjan blasir við horfi maður frá norðurmynni Hvalfjarðarganga suður til borgarinnar, þar á milli eru um það bil 20 km. Sjónlína þvert yfir Öxarfjörð frá Tjörnesi austur til Hólaheiðar er um 30 km. Í áliti Skipulagsstofnunar, frá desember 2016, um mat á umhverfisáhrifum 150 metra hárra vindmylla í Búrfellslundi kemur fram að vindmyllurnar verði sýnilegar í allt að 40 km fjarlægð. Ef við hugsum okkur að á öllum möstrum og spaðaendum á Hólaheiði verði viðvörunarljós í myrkri eða að sólargeislar speglist í spöðunum að sumri þarf ekki sterkt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér sjónræn áhrif vindmyllanna í héraðinu. Melrakkaslétta er flatlend, víðsýni mikið og samkvæmt sýnileikamynd sem lögð var fram á fyrsta og eina kynningarfundi um virkjanahugmyndirnar sjást þær nánast af allri Sléttunni. Rannsóknir eiga eftir að fara fram á því hvernig fuglum tekst að nota sína sjón til að forðast árekstur við vindmyllurnar, reynsla erlendis frá segir okkur að allt of mörgum tekst það ekki. Ekki má svo gleyma að einhvern veginn þarf að flytja 200 MW raforku frá Hólaheiði til kaupenda svo gera má ráð fyrir raflínum og rafmagnsmöstrum um allar sveitir.
Því er haldið fram í áðurnefndum tillögum að Hólaheiði hafi þótt uppfylla skilyrði um fjarlægðir frá náttúru- og menningarminjum, íbúabyggð og ferðamannastöðum. Melrakkaslétta, þar með talið svæðið að Hnotasteini á Hólaheiði, er á náttúruminjaskrá og hún er skilgreind sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Um Hólaheiðina liggur hraun frá nútíma, sem nýtur sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum. Hraunið er gljúpt og sprungið, það er á jarðskjálftasvæði og vatnsverndarsvæði Kópaskers og nágrennis liggur fast upp að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Víðerni Melrakkasléttu eru einstök og fágæt í æ þéttari heimsbyggð. Náttúrufar ber einkenni norðurslóða, sem felur í sér tækifæri til rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi á heimsvísu. Tækifæri til ferðamennsku og uppbyggingar á náttúrutengdri ferðaþjónustu eru langt í frá fullnýtt í sveitunum við Öxarfjörð, á Melrakkasléttu og í Þistilfirði. Því fer fjarri að Hnotasteinn á Hólaheiði á Melrakkasléttu uppfylli skilyrði um fullnægjandi fjarska frá náttúru- og menningarminjum og ferðamannastöðum.
Forsendur framkvæmda við vindorkuver eru að sveitarfélagið Norðurþing breyti aðalskiplulagi sínu. Í byrjun desember 2020 birtist frétt á vef sveitarfélagsins um að sveitarstjórnin samþykkti að kynna skipulags- og matsskýrslu um breytingar á aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar vindorkuvers á Hólaheiði. Orðrétt segir: „Fyrirhugað er að breyta landnotkun á Hólaheiði þar sem gert verður ráð fyrir vindorkuveri og felur breytingin í megindráttum í sér að landbúnaðarlandi verður breytt í iðnaðarsvæði til orkunýtingar þar sem landbúnaður verður einnig heimill.“ Af orðalagi fréttarinnar virðist sem að ákvörðun hafi þá þegar verið tekin um að verða við óskum Qair Iceland um breytingu á landnotkun. Ekki verður velt vöngum um það hér hver vill kaupa kjöt af lömbum sem alin eru á iðnaðarsvæði og hvaða áhrif það hefur á orðspor héraðsins til matvælaframleiðslu. Hefur stóriðjan á Bakka styrkt byggð á Húsavík eða eru afleidd störf sem skapast af sjóböðunum ef til vill ákjósanlegri? Viljum við risastórt orkuver í fallega sveit sem enn hefur ekki fengið tíma til að spila úr nýjum tækifærum sem t.d. skapast af nýlega opnuðum Demantshring?
Í skipulagsreglugerð er kveðið á um að við gerð aðalskipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og að það skuli gert með virkri samvinnu frá upphafi skipulagsferilsins. Ljóst er að sveitarstjórnin sinnti ekki þessum skyldum sínum. Fyrir utan fréttina á vef Norðurþings frá desember 2020 var fyrirhuguð breyting einungis auglýst í áskriftardagblaðinu Morgunblaðinu og í Skránni, sem ekki er send austur í sveitir í nágrenni Hólaheiðar. Framkvæmdirnar voru fyrst kynntar íbúum sveitanna við Öxarfjörð 14. júní 2021. Fáum dögum síðar var þeim boðið að senda inn athugasemdir um fyrirhugaða breytingu á aðalskipulaginu, með fresti til 27. júní. Virða má það við sveitarstjórn að fresturinn var framlengdur þegar eftir því var leitað. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu að matskýrslu á umhverfisáhrifum er dagsett nokkru síðar, eða 2. júlí 2021.
Er eftirspurn eftir raforku svo brýn og knýjandi nú um stundir að ástæða þyki til að fórna svo dýrmætu og viðkvæmu svæði áður en þjóð, stjórnvöld og Alþingi hafa komist að niðurstöðu um hvort og þá hvar á landinu verði minnstur skaði af vindorkuvikjunum? Sættir þjóðin sig við að erlendir auðmenn ásælist auðlindir Íslands enn og aftur, í þessu tilviki þá þjóðareign sem felst í vindi og víðernum? Viðkvæm og fámenn byggð þolir illa sundrung sem þessi vinnubrögð skapa. Á sveitarfélaginu og kjörnum fulltrúum þess hvílir rík skylda til að tryggja sátt í sveitarfélaginu milli fólks og við náttúru.
Höfundur er lyfjafræðingur, með meistarapróf í myndlist og er frá Kópaskeri.