Þegar líða tekur að jólum fjölgar mannamótum. Á slíkum fer oft fram kurteisishjal um dægurmál. Eitt slíkt dægurmál hjá bókaþjóðinni okkur er að spyrja hvort fólk hafi lesið eitthvað af bókunum sem koma út í jólabókarflóðinu þetta árið. Ég hef fengið þessa spurningu nokkrum sinnum undanfarnar vikur, og hef alltaf svarað henni samviskulega í samræmi við sannleikann: „Já, ég er búinn að lesa bókina hans Björgólfs Thors“.
Viðbrögðin hafa öll verið á einn veg. Viðkomandi hefur samstundis lýst því yfir að hann ætli nú ekki að lesa þessa bók. Það sé enginn áhugi á því að lesa um gljálífi þessa misindismanns á meðan við hin séum enn að eiga við afleiðingar gjörða hans.
Í þessari afstöðu kristallast að mörgu leyti sú afgreiðsluákvörðun sem stór hluti íslensku þjóðarinnar virðist hafa tekið gagnvart hruninu. Að hópur manna beri einn ábyrgð á því og að þeir eigi ekkert erindi aftur upp á dekk. Nokkru sinni aftur.
Nauðsynlegt innlegg
Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að skrif á borð við bókina „Billions to Bust-and Back“, sem Björgólfur Thor Björgólfsson skrifaði með dyggri aðstoð breska blaðamannsins Andrew Cave, séu mjög nauðsynlegt innlegg. Þar er sett fram þaulhugsuð hlið á atburðum sem mótuðu okkar samfélag líklega meira en nokkrir aðrir síðan við yfirgáfum torfkofanna, af manni sem var lykilleikari í þeim. Nokkrar bækur af þessum toga hafa þegar verið gefnar út eftir hrun, sem hafa reyndar verið afar misjafnar af gæðum.
Ármann Þorvaldsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í London, gaf til að mynda út stórskemmtilega bók sem veitti góða innsýn ínn í margt sem átti sér stað, þótt manni hafi þótt ýmislegt teygt og togað til að komast að réttri söguskýringu þegar kom að verkum hópsins sem Ármann tilheyrði. Árni Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra, skrifaði sömuleiðis mjög áhugaverða bók sem var full af nýjum upplýsingum um tímann þegar íslenska hagkerfið hrundi á hans vakt, en líka full af réttlætingu fyrir því sem hann gerði.
Stílfærð og pússuð útgáfa af manni
Björgólfur Thor var metinn á fjóra milljarði dala, um 500 milljarða króna, þegar best lét. Hann missti síðan yfirráð yfir nánast öllu sínu, samdi um að láta eignir sínar frá sér til að fá möguleikann á því að hagnast á þeim aftur ef vel gengi og er nú metinn á um 175 milljarða króna.
Sjálfsævisaga hans er um margt stórfróðleg. Hún er afar vel skrifuð af Andrew Cave og mjög skemmtileg aflestrar. Ég fékk reyndar aldrei á tilfinninguna að ég væri í frasögn sem Björgólfur Thor væri að segja, heldur einhver stílfærðari og pússaðri útgáfa af þeim manni sem hann vill að aðrir haldi að hann sé.
Á meðal þeirra söngtexta sem Björgólfur Thor velur að nota sem inngang í kafla bókarinnar er lag eftir myrta rapparann Notorious B.I.G.
Hver kafli byrjar til dæmis á tilvitnun í dægurlag. Þau eru allt frá því að vera eftir Frank Sinatra til Notorious B.I.G. með viðkomu í Danger Zone eftir Kenny Loggins. Ég fékk á tilfinninguna að þessi leið, að tengja tímabil í lífi Björgólfs Thors, við ákveðnar línur í allskyns lögum væri að hluta til að sýna hversu mikil tónlistarleg tilfinningavera hann sé. En kannski er það tómt rugl hjá mér.
Fyrri hluti bókarinnar fjallar um uppvöxt Björgólfs Thors, Hafskipsmálið, Rússlandsárin og öll fjárfestingaævintýrin sem hann lagði í á meðan að verið var að einkavæða ríkisfyrirtæki í Austur-Evrópu. Þessi hluti er mjög skemmtilegur aflestrar og nær að fanga andrúmsloft villta vestursins sem ríkti í alþjóðlegu fjárfestingarumhverfi á síðustu árum tíunda áratugarins og fyrstu árum 21. aldarinnar. Það er reyndar skautað ansi létt yfir Rússlands árin og eftir lesturinn skil ég ekki enn hvernig honum og félögum hans tókst að fóta sig og mokgræða í lögleysunni sem þarna ríkti. Það er eins og það vanti stórt púsl í þessa sögu, án þess að ég geti sagt nákvæmlega hvaða.
Tvö leiðarstef
Sjálfsævisögur eru venjulega sjálfsréttlætingarsögur umdeildra manna og kvenna. Það nennir enda enginn að kaupa eða lesa sögu um ævi Jóa á bolnum sem fór einu sinni til útlanda og vann á sömu bensínstöðinni alla ævi. Umdeilanleikinn og dramatíkin þarf að vera til staðar. Og það skortir ekkert á hann hjá Björgólfi Thor.
Tvö leiðarstef eru mjög einkennandi í gegnum bókina. Annað er að Björgólfur Thor vill ekki láta setja sig í hóp með hinum svokölluðu útrásarvíkingunum. Hann leggur mikla áherslu á, og ítrekar mjög oft, að hann hafi búið til auð erlendis og komið með hann heim, en ekki bara fengið lánað hjá íslensku bönkunum eins og hinir. Þess utan hafi Björgólfur Thor búið þorra ævi sinnar erlendis og hafi því eiginlega verið eins konar aðkomumaður í íslenska fjármálaævintýrinu. „Ég snéri aldrei líkamlega aftur til Íslands, en ég gerði það fjárhagslega. Kannski voru það stærstu mistökin mín,“ segir hann á einum stað í bókinni. Hann hafi því engan áhuga á að festa rætur aftur á Íslandi.
Þrátt fyrir allt púðrið sem Björgólfur Thor eyðir í þetta í bókinni, og þótt hún sé skrifuð á ensku, þá virðist megintilgangur hennar að vera að réttlæta sig og sínar gjörðir fyrir Íslendingum. Eftirfylgni bókarinnar bendir líka til þess. Hann hefur komið í þrjú viðhafnarviðtöl í þremur mismunandi prentmiðlum hérlendis, birtir hafa verið heilu kaflarnir úr bókinni í öðrum og Facebook- og Google-auglýsingar um hana virðast elta mig á röndum, en ef smellt er á þær þá endar þú inni á btb.is, sem er bloggsíða Björgólfs Thors á íslensku. Þeirri bloggsíðu hefur verið haldið úti árum saman til að „leiðrétta misskilning“ í umræðu um málefni Björgólfs Thors.
Höfundur hefur verið hundeltur af þessari auglýsingu fyrir bókina í netheimum.
Stuttur gúggl-hringur leiddi líka í ljós að eina sjáanlega umfjöllun um bókina í erlendum fjölmiðlum er á heimasíðu Forbes þann 9. desember síðastliðinn. Þess ber að geta að Björgólfur Thor nefnir það oft, raunar mjög oft, í bókinni að hann hafi komist á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.
Hitt leiðarstefið er að alþjóðlegi fjárfestirinn Björgólfur Thor sé tilbúinn í bátanna reynslunni ríkari. Hann hafi lært af uppsveiflunni og enn meira af niðursveiflunni. Bókin er þar af leiðandi yfirlýsing um endurkomu hans á stóra sviðið.
Gagnrýnir föður sinn harkalega
Bókin er heiðarleg að mörgu leyti. Það varð alræmt þegar fyrsta upplag af sögu Thorsaranna eftir Guðmund Magnússon var fargað vegna þess að Björgólfur Guðmundsson, faðir Björgólfs Thors, átti að hafa verið ósáttur með að minnst væri á hjónaband Þóru konu sinnar við George Lincoln Rockwell, stofnanda Nasistaflokksins í Bandaríkjunum. Björgólfur Thor er ekkert að reyna að fela þá fortíð móður sinnar, heldur rekur hana snemma í bókinni og birtir meira að segja mynd af Rockwell með nasistaband á upphandleggnum.
Björgólfur Thor tjáir sig lika um persónulega hluta tilveru sinnar og hvernig gljálífið á snekkjunum og í einkaflugvélunum hafi verið holt og innantómt. Hrunið hafi reynt mjög á samband hans við Kristínu konu hans sem hafi verið í miklu uppnámi vegna atburðanna sem riðu yfir Ísland og þeirra afleiðinga sem þeir höfðu á margt fólk í kringum hana. Sagan af því þegar Fjármálaeftirlitið er að taka yfir Straum, en þá er Björgólfur á fæðingardeildinni þar sem Kristín er að eignast annað barn þeirra, er líka sterk. Í henni sést sá dans sem hann er að stíga milli þess að vera venjuleg manneskja sem er að taka á móti barninu sínu og þess að vera einhver ofurfjárfestir og valdamaður sem þarf að hoppa fram á gang til að taka símtöl milli hríða vegna þess að bankinn hans er að falla.
Björgólfur Thor gagnrýnir fjárfestingar föðurs síns í eignum á borð við enska knattspyrnufélaginu West Ham United harkalega í bókinni. Hér sést Björgólfur eldri með Eggerti Magnússyni, sem var stjórnarformaður félagsins um tíma.
Hann gagnrýnir föður sinn nokkuð harkalega í bókinni og segir hann hafa hagað sér meira eins og stjórnmálamaður en viðskiptamaður vegna þess að hann hafi verið of sólgin í viðurkenningu heima fyrir. Björgólfur eldri hafi fengið uppreist æru með því að kaupa Landsbankann eftir Hafskipsmálið og hann hafi baðað sig í dýrðarljóma þess.
Björgólfur Thor segir að það hafi komið honum á óvart að sú upphefð hefði ekki dugað föður sínum. „Mér að óvörum þá var þetta ekki nóg fyrir hann. Hann byrjaði að spila Monopoly-leikinn sem var í gangi á Íslandi á þessum tíma og hóf að fjárfesta í því sem ég myndi kalla sigurtákns-fjárfestingar (e. trophy assets) og að taka lán til þess[...]Fjárfesting hans í enska knattspyrnuliðinu West Ham United, sem mér fannst vafasöm, staðfesti þetta fyrir mér[...]Það er sorglegt vegna þess að hann hefði örugglega lifað af ef hann hefði verið sáttur með stöðu sína í Landsbankanum. Það voru hinar fjárfestingarnar hans sem skiluðu honum í vandræði“.
Björgólfur Thor segir að faðir sinn hafi í uppvextinum verið maður sem bar það alltaf með sér að hafa verið ranglæti beittur og sem sóttist eftir að endurheimta æru sína. Það hafi hins vegar ekki verið ranglæti sem felldi föður hans í þetta skiptið, heldur dramb. „Í þetta skiptið vil ég ekki að hann falli í þá gildru að halda að það sem gerðist fyrir hann í hruninu hafi verið öllum öðrum að kenna. Það var það ekki, og ég held að hann sé í ferli við að sætta sig við það“.
Sjálfstréttlætingarreið
Seinni hluti bókarinnar er á köflum mikil réttlætingarreið þar sem allur fókus er á að „leiðrétta rangfærslur“ um viðskiptamál hans í hruninu. Á einum stað segir: „Ég tjái mig núna aðallega vegna þess að ég vil af ástríðu að sannleikurinn komi fram og að spurningum verði svarað. Ekki vegna þess að ég vilji bjarga eigin orðstír“. Samt snýst þorri seinni hluta bókarinnar um að sýna fram á hvað aðrir gerðu rangt.
Björgólfur Thor er þeirrar skoðunar að fall íslenska bankakerfisins hafi fyrst og síðast orðið vegna alþjóðlegra aðstæðna, þótt íslenskir stjórnendur bankanna geti ekki undanskilið sig einhverri ábyrgð. Þetta er í grunninn alveg rétt. Hrunið hefði verið óumflýjanlegt á Íslandi vegna þess að við vorum svo tengd alþjóðafjármálaumhverfinu.
En umfang þess skrifast á bankanna, stjórnmálamennina og eftirlitsleysið. Sá ósjálfbæri vöxtur sem átti sér stað vegna þess að lánsfé var mokað inn í illa rekna banka, og út þaðan til vafasamra viðskiptajöfra sem spiluðu síðan skuldsettan Matador á alþjóðavettvangi þar sem eignir voru iðulega keyptar á súrrealísku yfirverði.
Björgólfur Thor er þeirra skoðunar að íslensku bankarnir hafi verið gerðir að blórabögglum kerfis sem sé sjálft helsti sökudólgur hrunsins. Það hafi hentað þeim sem séu til vinstri í pólitík að halda þessu fram, þar sem það staðfesti neikvæða skoðun þeirra á kapitalisma og færði þeim völdin í landinu, og þeim sem eru til hægri, vegna þess að þetta beindi athyglinni frá mislukkaðri efnahagsstefnu þeirra í aðdraganda hrunsins. Þetta er líka rétt að vissu leyti, en hálfsannleikur. Það er ekki bara hægt að kenna þeim sem skópu frelsið, og áttu að fylgjast með leikreglunum en gerðu það illa eða ekki, um hvernig fór. Þeir sem brutu reglurnar og fóðruðu dýrið bera líka ábyrgð. Mikla ábyrgð.
Mældir eftir stærð
Björgólfur Thor leggur mikið upp úr því að láta ekki flokka sig með hinum íslensku útrásarvíkingunum vegna þess að hann hafi búið svo lengi erlendis. Aðalröksemdarfærslan er sú að hann hafi þénað peninganna sína í útlöndum og komið með þá aftur til íslands, á meðan að „hinir“ hafi fengið allt sitt að láni á Íslandi.
Samt segist Björgólfur Thor hafa verið drifinn áfram af samkeppni við þennan sama hóp. Í bókinni segir: „Hvernig greini ég hvernig ég hugsaði og hegðaði mér í aðdraganda hrunsins? Ég verð að viðurkenna að, í miklum mæli var ég drifinn áfram af persónulegri samkeppni. Flestir lykilleikendurnir [á Íslandi] voru á svipuðum aldri, fæddir í höfuðborginni og höfðu gengið í sömu skólanna. Forstjórar stóru bankanna þriggja voru meira að segja gamlir andstæðingar úr stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands. Við vorum allir meðvitaðir um hvorn annan og að við vorum mældir eftir stærð okkar.“
Lán Deutsche Bank til Björgólfs Thors, þegar hann tók Actavis af markaði, var eitt mesta, ef ekki mesta, vandræðamál bankans eftir hrun.
Þarna virðist Björgólfur Thor vera komin í ákveðna mótsögn við sjálfan sig. Hann vill ekki setja sig í sama hóp og „hinir“ en segist samt hafa verið drifinn áfram af samkeppni við þá. Það er líka ekki alveg rétt að hann hafi ekki verið á meðal stóru lántakenda íslensku bankanna og hafi ekki átt mikið hérlendis. Actavis, stærsta eign Björgólfs Thors í dag, er til dæmis upphaflega að öllu leyti íslensk eign. Þeir peningar sem hann fékk lánaða hjá Deutsche Bank árið 2007 til að taka Actavis af markaði, og setti þann bankarisa næstum á kálið, runnu að hluta til íslenskra apótekara og lyfjafræðinga sem komið höfðu að stofnun þeirra fyrirtækja sem síðar runnu inn í Actavis. Það eru risavaxnar fjárhæðir sem gerðu margar íslenskar fjölskyldur feykilega ríkar yfir nóttu.
Björgólfur Thor tók líka fullt af peningum að láni hjá bæði fjárfestingabankanum Straumi, sem hann átti stóran hluta í, og Landsbankanum, þar sem þeir feðgar voru kjölfestufjárfestar. Skuldir hans við Landsbankann jukust til að mynda um tæpan milljarð evra, um 150 milljarða króna, á síðustu 19 mánuðum fyrir hrun.
Hann á auk þess Nova, hlut í CCP og Verne Holdings hérlendis. Björgólfur Thor hefur því fjárfest fullt á Íslandi.
Jón Ásgeir „of stór til að falla“
Það er ekki hægt að skilja Björgólf Thor öðruvísi en að íslenska ríkið hefði átt að sleppa því að reyna að bjarga Glitni (með þjóðnýtingu) og Kaupþingi (með gölnu láni Seðlabankans) og þess í stað lána Landsbankanum. Ríkið hefði semsagt átt að bjarga bankanum hans Björgólfs Thors.
Hann er líka þeirrar skoðunar að ríkið hafi fellt fjárfestingabankann hans Straum með því að lána honum ekki pening til að lifa lengur þegar hann átti ekkert lausafé.
Íslenska bankakerfið var ekki bara troðfullt af vondum lánum til vafasamra karaktera sem keyptu of dýrar eignir á verði sem þeir gátu aldrei selt þær aftur á. Krosseignartengsl gerðu það líka að verkum að félli einn þá myndu allir falla. Björgólfur Thor víkur meira að segja að þessu í bókinni þegar hann ræðir um samband Landsbankans við Baug, fjárfestingafélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en Jón Ásgeir og félög tengd honum voru einn stærsti lántakandi bankans, og reyndar allra bankanna.
„Hann ætlaði sér bara að fá lánað upp að hámarkinu og segja síðan „ég er of stór til að falla,“ segir Björgólfur Thor um Jón Ásgeir Jóhannesson, sem fór fyrir fjárfestingafélaginu Baugi og tengdum aðilum.
Í bókinni segist Björgólfur Thor hafa verið mjög skeptískur á samband Landsbankans við Baug, enda hafi Baugur alltaf verið að kaupa eignir, yfirleitt á yfirverði, en félagið hafi nánast aldrei selt neitt nema til annarra félaga innan Baugs-klíkunnar til að búa til einhvern sýndarhagnað á pappírum. Þetta er korrétt greining hjá Björgólfi Thor og hann gagnrýnir auk þess bankana fyrir að hafa fylgt Jóni Ásgeiri í blindni. Hann hafi enda ekki haft neinn áhuga á að semja niður þau gjöld sem hann greiddi bönkum fyrir lántökur og aðra fjármálaþjónustu. „Hann ætlaði sér bara að fá lánað upp að hámarkinu og segja síðan „ég er of stór til að falla““.
Vandamálið við íslenska kerfið var að það voru of margir sem voru of stórir til að falla eftir lánafyllerí uppgangsáranna og reddingarskítamix síðustu mánaðanna fyrir hrun. Það var orðið ljóst að ef einn myndi falla þá myndu allir falla. Það var ekki hægt að bjarga neinum.
Það að ætlast til þess að félaust ríki og seðlabanki í fordæmalausri kreppu bjargi fjárfestingabanka sem á ekki lausafé til að lifa af nokkrum mánuðum eftir allsherjarhrun, líkt og Björgólfur Thor hefur sagt að hefði átt að gera með Straum, hefur alltaf horft við mér eins og fásinna.
Er framþróun sjálfbær?
Í grunninn er „Billions to Bust – and Back“ því sjálfsréttlætingarsaga og bók hrópandi mótsagna. Hún er uppgjör manns sem finnst tímabært að hann snúi aftur á stóra sviðið í alþjóðlegum viðskiptum og manns sem finnst að hann eigi ekki lengur að þurfa að fela sig þegar hann gengur um í heimalandi sínu.
En Björgólfur Thor fær líka fullt af stigum fyrir að stíga fram og reyna að gera upp með þessum hætti. Hann sýnir á sér persónulega hlið og fær augljóslega mikinn fagmann til að skrásetja söguna, því frásögnin er mjög skemmtileg og vel framsett.
Á lokaspretti bókarinnar setur Björgólfur Thor sig í heimspekilegar stellingar og spáir fyrir um hver helstu úrlausnarefni framtíðar verða. Hann segir líka að síðustu kynslóðir hafi allar alist upp við það að þær muni hafa það betur en foreldrar þeirra en að nú séu blikur á lofti um hvort slík þróun geti raunverulega haldið áfram.
Það er réttmæt og alvarleg athugasemd hjá honum. Og ef það á að takast að halda áfram að búa til sífellt betri heim þá þarf að læra af mistökunum. Til þess er nauðsynlegt að fá sýn á allar hliðar þeirra. Meira að segja þær sem maður er ósammála.