Myndirnar sem undanfarnar vikur hafa borist frá hinum nýja James Webb stjörnusjónauka hafa vart farið framhjá mörgum. Þessar myndir af innviðum og óravíddum alheimsins, fjarlægum stjörnuþokum, og öðrum fyrirbærum geimsins, eru vægast sagt stórkostlegar og óhjákvæmilegt annað en að fyllast lotningu og finna til smæðar sinnar frammi fyrir þeim undrum sem þar birtast.
Myndirnar bárust í tal nú um daginn í spjalli við vin. Honum fannst myndirnar jafn magnaðar og mér þó þær vöktu afar ólíkar tilfinningar hjá okkur.
Fyrir mér eru James Webb-myndirnar árétting þess hve stórfenglegur og máttugur Guð er, Guð sem skapað hefur allt sem til er og eins og listamaður sem mótar í huganum og dregur svo upp meistaraverk sitt af alúð og natni hefur leitt fram þennan stórkostlega alheim þar sem hann í kærleika sínum hefur tileinkað okkur sérstakan sess.
Orð 8. Davíðssálms koma til hugar í þessu samhengi:
„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“
Fyrir vini mínum guðleysingjanum er James Webb stjörnusjónaukinn hins vegar nýjasti nagli vísindanna í kistu guðstrúar, og voru þeir ófáir fyrir að hans mati.
Þegar hann horfir á myndirnar sér hann engin merki um guðlega smíði eða fingraför heldur enn eina sönnun þess að enginn Guð sé til og að í óravíddum þessa tröllaukna og tilviljanakennda veruleika tíma og rúms, sem einn fylli út í það sem til er, séum við lítilfjörleg og vita merkingarlaus arða sem bíður þess, eins og allt annað, að verða að engu.
„Hann er svo gígantískur og meira eða minna tómur“, sagði hann. „Þvílík sóun á plássi. Pældu bara í þessari stærð, öllum þessum tíma. Þú getur ekki trúað því að við mannfólkið eigum okkur einhvern sérstakan stað í þessu öllu eða leikum eitthvert hlutverk gagnvart einhverjum skapara. Við erum ekki neitt í þessu kosmíska samhengi. Við erum nánast minna en ekkert. Í samanburði við aldur alheimsins höfum við verið til í sekúndubrot. Við hverfum af sviðinu nánast áður en við birtumst.“
* * * * *
Já, margir horfa agndofa á alheiminn, á stærð hans og umfang, og sjá engan stað fyrir Guð, finna hvergi smugu eða horn er gæti rúmað hann. Í huga guðleysingjans er mun líklegra að við séum lítið annað en tilviljunarkennd auka afurð tíma og efnis.
Þessi stærðarrök, ef svo má kalla, virðast höfða til sumra.
Ógnarstærð alheimins og tómlætið sem hann virðist anda frá sér, að ekki sé talað um ógnina sem mannlegu lífi kann að stafa af honum, virðist hreyfa við fólki á þann hátt að eftir því sem alheimurinn stækkar hlýtur plássið (þ.e. þýðingin eða mikilvægið) sem við getum ætlað okkur í tilverunni að dragast saman.
Hvað stærð alheimsins varðar er svo sem ekki um nýjar upplýsingar eða þekkingu að ræða. Ptólemý vissi til forna jafnvel og Einstein á 20. Öldinni að jörðin bliknaði að stærð í samanburði við stærð geimsins (þótt Einstein vissi vitanlega margt annað að auki og meira um umfangið á stærð alheimsins). En í hugum margra er alheimurinn orðinn það stór að vægi mannsins, sem tekur varla meira pláss en sandkorn, hlytur að í öfugu hlutfalli við hana. Við höldum að við séum merkileg og þýðingarmikil og að líf okkar hér og athafnir í hundraðþúsund eða plús ár hafi eitthvað segja, en raunin er önnur. Við erum svo að segja ekkert og höfum enga þýðingu eða merkingu. Eða svo segir guðleysinginn.
Er það víst?
Eigi stærð alheimsins að mæla gegn kristinni trú, eins og vinur minn guðleysinginn vildi meina, hver eru þá hin eiginlegu rök? Ég get ekki séð þau. Hér er miklu fremur um tilfinningaleg viðbrögð að ræða en eiginleg rök sem leiði óhjákvæmilega til þeirrar niðurstöðu sem guðleysinginn vill draga. Mér sýnist staðhæfing hans byggja aðallega á þeirri hugmynd að það sem er stórt hljóti í einhverjum skilningi að vera mikilvægara eða dýrmætara eða þýðingarmeira en það sem er smærra, þ.e. að stærðarmuni fylgi munur á þýðingu eða gildi.
Að sumu leyti get ég tekið undir það að sú hugsun að Guð láti sér mig og þig (og manninn almennt) meiru varða en allar stjörnuþokur alheimsins virki býsna fráleit. Ég er ekki ónæmur fyrir þeirri tilfinningu og finn fyrir henni rétt eins og allir aðrir. Hún vaknar að einhverju leyti, held ég, hjá flestum sem horfa upp í óravíddir himingeimsins og velta fyrir sér eigin stöðu í tilverunni. En ég finn ekki það sama þegar um fólk, segjum af ólíkri stærð, er að ræða. Ég horfi ekki á hávaxinn einstakling og hugsa að hann hljóti að vera þýðingarmeiri eða mikilvægari en sá sem er lágvaxinn. Ég get ekki heldur séð að klettur sé þýðingarmeiri í sjálfum sér en lítill steinn.
Ég held að þessi tilfinning um að eitthvað sé fráleitt láti nefnilega eingöngu á sér kræla þegar stærðin er orðin mjög, mjög mikil og að þá sé um tilfinningaleg viðbrögð að ræða fremur en annað. Og frammi fyrir alheimi sem að stærð spannar tugi milljarða ljósára teljast það varla óeðlileg viðbrögð.
En ef það væru einhver rökleg og raunveruleg tengsl á milli stærðar og þýðingar (eða mikilvægis eða gildis), þá myndu þau eiga við almennt. Þá mundi mjög litlum mun á stærð fylgja mjög lítill munur í þýðingu eða gildi, og mjög miklum mun á stærð mundi fylgja mjög mikill munur á þýðingu eða gildi. En fáir ef nokkrir mundu halda slíku fram. Barn er ekki smæðar sinnar vegna þýðingarminna en fullvaxta einstaklingur. Vitanlega er maður þýðingarmeiri en hátt tré, en það er ekki vegna stærðarmunarins. Ef valið stæði á milli þess að höggva niður manninn eða tréð þá myndu fæstir þurfa að hugsa sig lengi um. Sú þýðing sem við leggjum í mikinn stærðarmun er því leidd af skynsamlegum og óhjákvæmilegum rökum heldur tilfinningarlegri upplifun umfram annað.
* * * * *
En burtséð frá þessu þarf stærð eða aldur alheimsins alls ekki að koma þeim sem trúir á Guð á óvart. Í raun er alheimurinn einmitt eins og við er að búast.
Kolefnið sem líkamar okkar samanstanda af var framleitt í iðrum stjarnanna og því næst miðlað um alheiminn í gegnum sprengistjörnur. Það tekur óheyrilega langan tíma fyrir stjörnuþoku að myndast og enn lengri tíma fyrir kolefnið, sem er nauðsynlegur undanfari lífs og grundvöllur fyrir tilkomu lífvera, að dreifa sér um tímarúmið. Alheimurinn, sem hefur verið að þenjast út allt frá tilkomu sinni fyrir 13,7 milljörðum ára eða um það bil svo, verður því að vera jafn stór og gamall og raun ber vitni til að líf geti verið til. Stærð hans og aldur eru því síður en svo viðkvæmt mál í huga hins trúaða.
Svo er það líka hitt að vísindalega séð er ljóst að tilkoma lífs er langt, langt í frá jafn sjálfsagður hlutur og eitt sinn var talið. Í raun er það ótrúlega ólíklegt.
Allt bendir nefnilega til þess að hinar gríðarlega ströngu forsendur fyrir tilkomu lífs hafi með haganlegum og ótrúlega nákvæmum hætti verið komið fyrir strax í upphafi, eða í Miklahvelli sjálfum. Það hefur verið nefnt „fínstilling“ alheimsins. Hún er fólgin í því að gildi hinna margvíslegu fasta náttúrunnar (t.d. heimsfastans, sterka og veika kjarnakraftsins, rafsegulkraftsins o.s.frv.), sem og sjálft upphafsástand alheimsins í Miklahvelli (t.d. upphaflegt óreiðumagn og útþennsluhraði alheimsins), falla í hið ótrúlega og óskiljanlega smáa og þrönga bil sem gerir lífi kleift að koma fram og dafna. Með öðrum orðum mundi hin örminnsta breyting á þessum gildum og lögmálum raska hinu lífvænlega jafnvægi og gera tilkomu lífs óhugsandi.
Það virðist því sem alheimurinn hafi strax frá upphafi verið stilltur með nákvæmum hætti með það að marki að greiða fyrir tilkomu lífs.
Sem dæmi um þessa „fínstillingu“ má nefna að eðlisfræðingurinn P. C. Davies hefur reiknað út að breyting á styrk þyngdarkraftsins eða veika kjarnakraftsins um einn hluta af 10 í hundraðasta veldi hefði komið í veg fyrir lífvænlegan alheim. Heimsfastinn (sem er á bak við útþennslu alheimsins) er einnig óskiljanlega nákvæmlega „fínstilltur“ upp að einum hluta af 10 í hundraðogtuttugasta veldi.
Þá hefur eðlisfræðingurinn Roger Penrose reiknað út að líkurnar á því að hið lága óreiðumagn Miklahvells sé hrein tilviljun séu einn á móti 10 í tíunda veldi í hundraðtuttugastaogþriðja veldi (sem fyrir allt venjulegt fólk er óskiljanlega stór tala).
Francis Collins, sem leiddi kortlagninguna á genamengi mannsins, kemst vel að orði:
„Þegar þú horfir á alheiminn út frá sjónarhóli vísindamannsins virðist sem alheimurinn hafi vitað að við vorum á leiðinni... Ef einhver einn af þessum föstum skeikaði um einn milljónasta hluta, eða jafnvel milljón milljónasta í sumum tilfellum, þá gæti alheimurinn ekki hafa tekið á sig þá mynd sem hann hefur gert. Efni hefði ekki getað bundist hvert öðru, vetrarbrautir hefðu ekki orðið til, ekki stjörnur eða plánetur eða fólk.“
Hvaða ályktun drögum við af því?
Ég og vinur minn guðleysinginn túlkum lífið og tilveruna með ólíkum hætti og drögum í öllu falli ólíkar ályktanir.
En burtséð frá því má sannarlega segja að í ljósi þess hversu ótrúlega og óskiljanlega ólíkleg „fínstilling“ alheimsins er sé það fyllilega innan marka skynseminnar að álykta að hún sé alls engin tilviljun heldur beri vitni um vilja og ásetning hönnuðar eða skapara – eða listamannsins sem gæðir verk sitt lífi með löngum og vel ígrunduðum strokum (vilji maður taka þannig til orða).
Niðurstaða Arno Penzias, nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, er líka eftirtektaverð í þessu samhengi. Að hans mati „leið[a vísindi] okkur fyrir sjónir einstakan atburð: Alheim sem skapaður var úr engu og er nákvæmlega stilltur á þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir tilkomu lífs. Þegar litið er framhjá frámuna ólíklegri tilviljun má segja að athuganir nútímavísinda hreinlega beri vitni um guðlega fyrirætlun.“
Stærð og aldur alheimsins ættu í öllu falli ekki að koma nokkrum trúuðum manni úr jafnvægi, eins og ég sagði við félaga minn. Í ljósi „fínstillingar“ alheimsins, sem skynsamlegt er að útskýra á grundvelli vilja og ásetningar hönnuðar, er alheimurinn eins og við er að búast.
Auðvitað má velta vöngum yfir því hvers vegna hönnuður alheimsins ákvað að skapa og móta alheiminn með þeim hætti sem raun ber vitni, þ.e. fyrir tilstilli hægfara ferlis sem spannar milljarða ára. En þegar allt kemur til alls er það ekki stóra spurningin. Skapari sem velur að skapa alheim með innbyggðum skilyrðum og náttúrulögmálum sem tryggja hægfara og náttúrulega tilkomu efnis og lífs er engu minna skapari en sá sem skapar sama alheim í einu vetvangi.
Það má líka velta vöngum yfir sóun á plássi eða tíma andspænis hinni gríðarmiklu stærð alheimsins, eins og vinur minn gerir. Hann er ekki einn um það. Margir sjá í því einhvers konar mótbáru gegn skilvirkni skaparans (og jafnvel tilvist hans). En skilvirkni er hugtak sem einungis á við um þann sem býr yfir takmörkuðum tíma og úrræðum og hvorugt af því á við um Guð. Guð er eilíf og almáttug orsök tíma, rúms og efnis og skortir hvorki tíma né úrræði.
Að sjálfsögðu er það svo að fólk hefur ólíkan skilning á Guði. Mér er eiginlegast að hugsa um Guð sem listamann sem hefur unum af því að að draga sköpunarverk sitt upp á hinn kosmíska striga í allri þeirri litadýrð og af allri þeirri sköpunarauðgi sem alheimurinn ber vitni um.
* * * * *
En hvað um hina svokölluðu nagla vísindanna? Eru vísindin endanlega búin að jarðsetja guðstrú og reka síðasta naglann í kistu hennar? Er ferðalag James Webb stjörnusjónaukans um óravíddir geimsins enn ein áminningin um það?
Það fór ekki á milli mála að vinur minn guðleysinginn lítur svo á að með tilkomu og framþróun vísinda – sem James Webb-myndirnar bera m.a. vitni um – sé trú og trúarlegar skýringar á eðli lífsins og tilverunnar úreltar leifar frá liðnum tíma (rétt eins og ég sjálfur líka býst ég við). Og verra er það því að hans mati hafa vísindin einfaldlega afsannað tilvist Guðs.
Það er skoðun margra í dag.
En hverjar eru sannanirnar? spurði ég. Hvar eru þær? Hvað er það sem við vitum í dag en vissum ekki áður sem sýnir með óyggjandi hætti að Guð hvorki sé né geti verið til? Ég bað vin minn um að benda mér á þessar sannanir, útskýra þær fyrir mér, og spurði um leið hvort hann gæti ekki vísað mér á viðurkennda vísindalega rannsókn og/eða grein í ritrýndu vísindariti þar sem sú vísindalega niðurstaða hefði fengist svart á hvítu að Guð er ekki til.
Það var fyrirsjáanlega fátt um svör.
Raunin er nefnilega sú, eins og allir heiðarlegir vísindamenn vita og gangast við, að vísindi geta ekki afsannað tilvist Guðs. Það er alveg sama hversu djúpt og langt við náum að skima inn í alheiminn.
Af hverju?
Jú, af þeirri ástæðu að vísindi fást við hinn náttúrulega og efnislega heim. Guð er handan hans. Guð er handan þess sem vísindi geta náð til. Guð er ekki í heiminum og því ekki aðgengilegur vísindamanninum. Hann getur rannsakað og mælt hleðslu eða þyngd eða rafsegulbylgju. En Guð verður ekki mældur eða veginn eða metinn eða greindur á sama hátt. Guð er orsök alheimsins og því ekki eitthvað sem vísindi ná til eða geta sannað eða afsannað í krafti þeirra aðferða sem þeim stendur til boða.
Með öðrum orðum er spurningin um tilvist Guðs einfaldlega ekki vísindaleg spurning heldur frumspekileg spurning.
Vísindamaður sem segist hafa afsannað tilvist Guðs er ekki lengur að fást við vísindi eða hinn náttúrulega heim í vísindalegum skilningi heldur heimspeki eða guðfræði. Það er ástæða þess að engin vísindamaður hefur gert eða mun gera tilkall til nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði fyrir að hafa afsannað tilvist Guðs.
Með öðrum orðum eru vísindi takmörkuð.
Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar sagði eitt sinn þá er engin betri eða fljótlegri leið til að koma óorði á vísindi en sú að segja þau eiga svar við öllum spurningum og að þær spurningar sem vísindi geti ekki svarað séu merkingarlausar og ekki þess virði að hugsa um. Að hans mati eru vísindi augljóslega takmörkuð enda geti þau ekki svarað barnslegum grundvallarspurningum er varða uppruna tilverunnar, tilgang lífsins og örlög eða hvað sé gott, rétt og fallegt.
Vísindi spyrja einfaldlega takmarkaðra spurninga og geta ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga mannsins eða er fólgið í reynslu hans.
* * * * *
Í þessu samhengi er líka ágætt að minna sig á að það viðhorf að trú og vísindi fari ekki saman stenst ekki sögulega skoðun.
Brautryðjendur nútíma vísinda voru ekki guðleysingjar.
Nei, það voru kristnir menn á borð við Boyle, Galíleó, Newton, Kepler, Mendel, Maxwell o.fl., sem sáu enga mótsögn á milli vísinda og guðstrúar. Og það sama á við um fjölmarga vísindamenn í nútímanum, þar á meðal Francis Collins, sem minnst var á hér að ofan.
Það má líka færa góð rök fyrir því að það var engin tilviljun að vísindi komu til sögunnar í Evrópu á 16. öld, sem um langan tíma hafði mótast af hinni kristnu lífsskoðun. Það er orsakasamhengi þar á milli því eins og C.S. Lewis komst að orði urðu menn vísindalegir í hugsun af því að þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum, og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á tilvist hans sem hafði sett náttúrunni lögmál sín.
Með öðrum orðum var ekki litið svo á að hinn ytri efnislegi veruleiki væri einhvers konar andsetið eða kyngi magnað fyrirbæri sem bæri að forðast eða tilbiðja heldur Guðs góða sköpun sem væri opin fyrir þekkingarleit og uppgötvunum mannsins. Hin kristna lífsskoðun nærði þessháttar tengsl við hinn náttúrulega heim.
Nú vil ég ekki að gera vini mínum upp skoðanir, en þeir sem almennt halda því fram að vísindi og trú séu í mótsögn - sem er sannarlega skoðun hans - ganga oft út frá býsna bjagaðri guðsmynd eða skilningi á Guði. Þeir líta svo á að Guð sé lítið annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins. Með öðrum orðum finnum við Guði stað þar sem vísindaleg útskýring sé ekki fyrir hendi. Eftir því sem vísindi útskýra meira verður því minna pláss fyrir Guð.
En slíkur skilningur ber ekki Guði kristinnar trúar vitni og á ekkert skylt við hann. Guð kristinnar trúar er sá sem er á bak við tjöldin. Hann er orsakavaldurinn. Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem leiddi fram alheiminn og viðheldur tilvist hans.
* * * * *
Vísindin rannsaka heiminn. Þau skoða úr hverju hann er gerður, hvers eðlis hann er og hvernig hann virkar. Ferðalag James Webb stjörnusjónaukans er hluti af þeirri vegferð. En þegar vísað er til Guðs annars vegar (eins og ég geri) og vísinda hins vegar (eins og vinur minn guðleysinginn gerir) til að útskýra alheiminnn er um að ræða útskýringar af ólíkum toga – sem gjarnan er ruglað saman.
Vinur minn horfir á þetta tvennt, Guð og vísindi, og segir mér að ég verði að velja annað og hafna hinu.
En af hverju þarf ég þess? Fyrir mér er þetta ekki spurning um annað hvort eða.
Að stilla fólki upp við vegg og biðja það að velja á milli vísinda og Guðs er eins og að sýna manni Ford T bíl og biðja hann að velja á milli tveggja mögulegra útskýringa á honum. Önnur útskýringin eru náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, vélfræðinnar, aflfræðinnar o.s.frv. Hin útskýringin er Henry Ford sjálfur. (Til að færa okkur nær okkar tíma mætti tala um iPad-inn og Steve Jobs.)
Það sjá allir að slíkir afarkostir eru fráleitir því hér er um tvær jafngildar útskýringar að ræða þótt ólíkar séu. Báðar eru nauðsynlegar og réttar!
Við þurfum hvort tveggja í senn, vísindalega útskýringu á bílnum með tilliti til eðlisfræðilegra og vélfræðilegra lögmála og líka persónulega útskýringu með tilliti til orsakavalds.
Og það sama á við um alheiminn!
Þegar alheimurinn er útskýrður með vísan til Guðs sem orsakavalds er einfaldlega um að ræða úskýringu af öðrum toga en hina vísindalegu útskýringu.
En þessar útskýringar eru ekki í mótsögn hvor við aðra og rekast ekki saman.
Henry Ford keppir ekki við lögmál eðlisfræðinnar sem útskýring á Ford T bíl frekar en Guð keppir við vísindi þegar kemur að því að útskýra alheiminn. Það væri ennfremur fráleitt að halda því fram að í ljósi þess að við getum útskýrt með vísindalegum hætti hvernig Ford T bíll virkar þá megi draga af því þá ályktun að Henry Ford hafi aldrei verið til.
Í raun er það svo – fyrir mitt leyti að minnsta kosti – að eftir því sem við skiljum alheiminn betur verður auðveldara að dásama hugvitssemi Guðs sem á bak við hann er.
Þannig minnti ég vin minn á það að þegar Newton uppgötvaði þyngdarlögmálið leit hann ekki svo á að hann þyrfti aldrei framar að velta Guði fyrir sér. Þvert á móti. Í meistaraverki sínu Principia Mathematica lýsir Newton þeirri von sinni að uppgötvun sín sannfæri hugsandi fólk um tilvist og mikilfengleika Guðs. Með öðrum orðum, eftir því sem hann skildi eðli alheimsins betur þeim mun meira dáðist hann að snilli og mikilfengleika Guðs.
Sá er einnig, og hefur alltaf verið, skilningur Biblíunnar:
„Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ (Sálm. 19.1)
Sem er einmitt það sem blasir við mér í myndunum sem nú streyma frá James Webb stjörnusjónaukanum.
En vinur minn lét þá skoðun mína ekki hafa mikil áhrif á sig eða sína guðlausu trú.
Höfundur er prestur