Hvert sem fólk fer að lokinni langferð um Indland er líklegt að því þyki vistin í fyrstu frekar daufleg og fréttir í heimahögum heldur fátæklegar. Indland er ein samfelld árás á öll skilningarvit þess sem þangað fer. Ekki þarf langa dvöl í landinu til að finna þá tilfinningu að á Indlandi sjáist veruleiki mannkynsins skýrar en á nokkrum öðrum stað.
En tíðindaleysi og fábreytni hafa sína kosti eins og við sjáum nú á tímum Covid. Á Indlandi hafa fyrirsjáanleg og margspáð ósköp nú dunið yfir. Og því má treysta að þetta er allt meira og skelfilegra en opinberar heimildir gefa til kynna. Opinberum upplýsingum er ekki lengur treystandi.
Indlandi er nú stýrt af einörðum þjóðernispopúlistum sem hafa síðustu árin haldið uppi stanslausum áróðri gegn vísindum, almennri þekkingu, frjálslyndi, jafnrétti og svo auðvitað sviksemi vondra útlendinga. Orðræðan er sumpart sérstök og oft með miklum ólíkindum en skyldleikinn við fyrirbæri á borð við Trump, Bolsenaro og fleiri af því sauðahúsi er augljós. Þarna höfða klókir menn til heimskunnar í samfélaginu.
Indland er lykilríki
Fleira fólk býr á Indlandi en í gjörvallri Ameríku frá norðurskauti til suðurpóls. Tvöfalt fleira fólk er þar en í allri Evrópu að Rússlandi meðtöldu. Og talsvert fleira en til samans í öllum 55 ríkjum Afríku. Þótt mjög hafi dregið úr mannfjölgun bætist eins og ein íslensk þjóð við íbúatölu Indlands á hverjum níu dögum. Fyrir fáum árum tók þetta sex daga. Núna er fjölgunin svona eins og ein Danmörk á liðlega fjögurra mánaða fresti.
Fjórar meginspurningar um Indland snerta heiminn öðrum fremur. Sú fyrsta verður ekki rædd hér að sinni en hún er um heimspólitíkina. Spurningin um hvort Kína verður hnattrænt risaveldi eða svæðisbundið stórveldi hverfist öðru fremur um áhrif ríkja á Indlandshafi en við það haf búa nú öllu fleiri en við Atlantshaf. Afstaða Indverja til samstarfs við Vesturlönd til að sporna við Kína mun skera úr í því máli.
Þriðja spurningin um Indland er um lýðræði og mannréttindi. Auk þess að vera heimkynni nærri fimmta hvers manns á jörðinni mun Indland gefa sterkan tón hvað þetta varðar um víða veröld. Í þessum efnum er Indland hreinlega á krossgötum og horfurnar sumpart ískyggilegar. Fjórða spurningin snýr síðan að því hvort Indland, sem mengar orðið meira en öll önnur ríki að Kína og Bandaríkjunum frátöldum, nær tökum á umhverfismálum. Lítum aðeins fyrst til aðstæðna á Indlandi.
Ótrúlegt samfélag
Indland er á alla lund lygilegasta samfélag jarðar. Þær línur sem skera það eru fleiri og fjölþættari en gerist í nokkru öðru ríki heims. Þeim hlutum sem skipta fólki í aðgreindar þjóðir í Evrópu ægir saman í þessu óraflókna ríki. Stórar „þjóðir" innan ríkisins skipta að minnsta kosti tugum á venjulegustu mælikvarða. Tungumálin eru talin í hundruðum, þau eru á milli 400 og 780 eftir því hvernig menn flokka tungumál. Sum þeirra eru að uppruna skyldari íslensku en tungumálum sem eru töluðu í nálægum héruðum. Ólíkustu leturkerfi óskyldustu tungumála blasa líka við á brautarstöðvum þegar fólk ferðast frá einum landshluta til annars. Trúarbrögðin eru ævintýralega fjölbreytt og menning ekki aðeins margbrotin heldur alls staðar allt um lykjandi. Til viðbótar kemur erfðastéttakerfið með sínar tugþúsundir undirstétta. Fæstir heimamenn vilja ræða þessi kerfi við útlendinga en þau eru þó enn einn mikilvægasti þáttur samfélagsins. Evrópa með sín 40 ríki virkar stundum sem einn einsleitur staður í samanburði við Indland. Og það gerir hið fjölbreytta Kína líka.
Indland spannar alla skala
Indverjar smíða sína eigin gervihnetti, kjarnorkuver og kjarnorkusprengjur og hafa sent geimfar til Mars. Stór hluti þjóðarinnar hefur þó tæpast aðgang að hreinu vatni, salernum, eða lágmarksmenntun. Þriðjungur snauðustu manna í heiminum býr á Indlandi. Þar deyja þúsundir barna á hverjum einasta degi úr ýmis konar afleiðingum fátæktar.
Frumstæður búskapur eða daglaunavinna er hlutskipti meirihluta fólks. Indland framleiðir hins vegar lítið færri bíla en Þýskaland og fleiri en Frakkland og Bretland til samans. Indversk fyrirtæki eiga stærstu stálfyrirtæki Evrópu og stærsta bílaframleiðenda Bretlands sem framleiðir Jaguar og Range Rover. Indland er á bak við meira en tíunda hluta af lyfjaframleiðslu heimsins. Indversk fyrirtæki í upplýsingatækni, hugbúnaði og iðnaðarhönnun eru á meðal leiðandi fyrirtækja í hátækni á heimsvísu.
Ástand menntunar á Indlandi er með því versta utan Afríku og milljónir yfirgefa skóla á hverju ári án þess að hafa lært mikið sem að gagni gæti komið. Þar eru hins vegar einnig háskólar sem eru leiðandi á heimsvísu og hundruð þúsunda ungmenna útskrifast á hverju ári með háskólamenntun í raungreinum. Hátt í tuttugu milljónir ungmenna bætast við vinnuafl Indlands á hverju ári en aðeins fjórðungur þeirra hefur aðgang að sæmilegum störfum.
Húsið hans Mukesh
Það er ansi víða á Indlandi sem mönnum nægir að snúa sér í hálfhring til að sjá hinar ótrúlegustu gjár í samfélaginu. Í Mumbai, ríkustu borg Indlands, búa milljónir manna í hroðalegum fátækrahverfum sem blasa við augum strax við lendingu á flugvelli borgarinnar og teygja sig að því er virðist út í hið endalausa og um leið inn á gangstéttir jafnvel ríkustu hverfa borgarinnar. Í einu af þeim hverfum blasir við stærsta einbýlishús heimsins. Svo ótrúlega sem það kann að hljóma þá er þetta einbýlishús nær tvöfalt hærra en turn Hallgrímskirkju. Og þó ekki nema á 30 hæðum því hátt er til lofts. Mukesh Ambani, snjall bissnessmaður og annar tveggja bræðra sem erfðu mikla fyrirtækjasamsteypu frá föður sínum, lét fyrir fáum árum byggja þetta hús sem kostaði um tvöhundruð og fimmtíu milljarða króna. Fimm fullorðnir eru í heimili hjá Mukesh en 600 aðstoða við heimilisstörfin. Húsið stendur á lóð sem fjölskyldan sölsaði undir sig með ofríki og fyrir lítið verð en þar stóð áður munaðarleysingjahæli. Frá efri hæðum hússins má horfa yfir risastór fátækrahverfi þar sem meirihluti barna nær ekki viðunandi þroska vegna vannæringar.
Bandalag þjóðernispoplúlista og auðmanna
Þeir ríku eru hetjur þjóðernispopúlista og Mukesh Ambani er alveg sérstakur vinur og aðdáandi Modis. Hagsmunir þessara hópa tengjast líka með beinum hætti. Auður flestra ríkustu fjölskyldna landsins byggist á ríkisvarinni aðstöðu í fákeppni indverska hagkerfisins. Á meðan er örsnauðum almenningi landsins haldið hugföngnum af sögum um yfirburði alls þess sem indverskt er og af eilífri baráttu þjóðarinnar við vonda útlendinga. Þær sögur líkjast stundum meira leikhúsi fáránleikans en einföldum ævintýrum um hreinleika hindúismans, útlenda spillingu, sérstaka vonsku múslima og stórkostlega yfirburði indversku þjóðarinnar. Sumt af þeim þjóðernisþvættingi sem boðið er uppá af ráðamönnum kann að virka hlægilegur en hann gerir það áræðanlega ekki fyrir þær tæplega 300 milljónir manna sem ekki aðhyllast hindúisma á Indlandi og eru í vaxandi mæli jaðarsettir í samfélaginu. Og ekki heldur fyrir þá mörgu af hindúíska meirihlutanum sem aðhyllast frjálslyndi, virkt málfrelsi, þekkingu og almenna skynsemi.
Þrekvirki Indverja
Ólíkt því sem var í flestu fátækum löndum tókst Indverjum að byggja upp þróttmikið lýðræði strax á fyrstu áratugunum eftir að nýlendutímanum lauk. Breska keisaradæmið á Indlandi var hryggjarstykkið í hinum evrópska nýlenduheimi sem hrundi eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Nú búa 1800 milljónir manna, nær fjórðungur íbúa heimsins, í löndunum sem áður lutu breska keisararíkinu á Indlandi. Það segir nokkra sögu um nýlendutímann og eðli hans að við upphaf þessa tíma var fimmtungur allrar iðnframleiðslu heimsins á Indlandi en um 2% við lok hans.
Ískyggileg þróun
Nú hallar hins vegar mjög undan fæti. Pólitík og samfélagsumræða hefur illilega súrnað með uppgangi og valdatöku þjóðernispopúlista. Þeir þrengja sífellt meira að minnihlutahópum sem þeir telja tæpast og jafnvel alls ekki til hinnar göfugu indversku þjóðar. Um leið draga stjórnvöld úr sjálfstæði fjölmiðla sem mest þau mega og flestir þeirra virka líka núorðið eins málgögn sitjandi stjórnar. Það sama má segja um sjálfstæði dómstóla, embættismannakerfis og háskóla. Allt þetta sætir sífellt svæsnari árásum leiðtoga ríkisins.
Varnir gegn framrás hatursorðræðu öfgafullra stjórnmálamanna hafa verið máttlitlar og miklu minni en flestir hefðu treyst fyrir aðeins fáum árum síðan. Stjórnarandstaðan er bæði sundruð og forystulaus en stærsti flokkur hennar, Congressflokkurinn sem lengi stjórnaði Indlandi hefur misst tiltrú flestra Indverja. Frjálslyndir menntamenn sem eru bæði fjölmennir og háværir á Indlandi hafa ekki náð vopnum sínum síðustu árin.
Indland stefnir nú hraðbyr í átt frá þeim gildum sem áunnu ríkinu lof og aðdáun víða um heim. Covid hefur hins vegar líklega opinberað fyrir mörgum Indverjum að einfaldar og seiðandi sögur popúlista virka ekki sem stjórnarstefna. Það er af þeirri einföldu ástæðu að þjóðernispopúlismi byggir alltaf á dekri við hugaróra en ekki viðurkenningu á veruleikanum.
Mengaðasta land í heimi
Fimmtán af tuttugu menguðustu borgum heims eru á Indlandi. Virtir vísindamenn hafa áætlað, m.a í grein í The Lancet, að meira en tvær milljónir Indverja deyi á hverju ári vegna mengunar. Ótaldar milljónir bíða að auki varanlegt heilsutjón vegna mengunar í lofti, einkum í borgum, og í vatni, sem veldur dauða mikils fjölda barna á degi hverjum. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið fumkennd. Sjálf höfuðborgin, Delhí, er talin mengaðasta stórborg veraldar. Jafnvel að því gefnu að Indland er fátækt ríki sem verður að knýja fram efnahagslegan vöxt til að vinna sig úr almennri örbirgð hefur stefna stjórnvalda í umhverfismálum á síðustu árum verið fordæmanleg. Kenningar Modi og hans manna um óskorað fullveldi og algert sjálfstæði alveg einstakrar þjóðar með ríka sérstöðu eru ekki góður grunnur fyrir stefnu í umhverfismálum sem snerta alla menn alls staðar. Bandalag þjóðernissinna við auðmenn landsins er það enn síður.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.