Verkakonur Íslands eru ómissandi manneskjur. Vinnuafl þeirra heldur leikskólunum okkar gangandi sem og allri þjónustu við gamalt fólk. Vinnuafl þeirra er einnig undirstaðan í verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins, á hótelunum, í fiskvinnslunni o.s.frv. Vinnuafl kvenna sem fæddar eru hér og kvenna sem hingað hafa flutt, kvenna með eins fjölbreyttan uppruna og bakgrunn og hægt er að hugsa sér er bókstaflega grundvallarforsenda þess nútímasamfélags sem við byggjum. Þær eru hinir raunverulegu lykilstarfsmenn samfélagsins okkar, án vinnuframlags þeirra stoppar allt samstundis.
En tilvera verkakvenna Íslands er þrátt fyrir þessar óumdeilanlegu staðreyndir, ekki tilvera full af glæstum sigrum kvennabaráttunnar, full af sigurtilfinningunni um að búa í jafnréttisparadísinni Íslandi. Sannarlega ekki. Verkakonur Íslands tilheyra hinum risastóra alþjóðlega hópi kven-vinnuaflsins sem kapítalisminn hefur sent út á vinnumarkað arðránsins til að halda maskínum samfélaga okkar gangandi dag og nótt, fyrir skítalaun útreiknuð af reiknimeisturum stéttskiptingar og kvenfyrirlitningar. Þar eru verkakonur dæmdar til að dvelja á botninum, vegna samræmdrar grimmdar efnahagslegrar og pólitískrar valdastéttar og aldalangrar kvennakúgunnar, jafnt hér sem og annarsstaðar í veröldinni.
Á kvenréttindaeyjunni Íslandi eiga verkakonur að láta sér duga persónulega sigra ókunnugra kvenna útí bæ. Þegar ekkert er eftir í heimabankanum og langt í mánaðamót, þegar að skólaferðalag barns er í vændum og kostnaðurinn við það étur upp matarpening heimilisins, þegar að valið stendur á milli þess að borga reikninga eða fara til sálfræðings, þegar leigusalinn hækkar leiguna einfaldlega vegna þess að hann getur það og allir draumar um „fjárhagslegan stöðugleika“ hverfa útum gluggann, þegar hin nístandi sára tilfinning sem fæðist eftir að þurfa ávallt að setja eigin þarfir og langanir aftast á forgangsröðunar-listann hefur tekið sér endanlega bólfestu í brjóstinu sem ástlaus lífsförunautur, þegar að peningaleysið fer að fæða af sér heilsuleysið; þá á verkakonan að muna að ýmsar ókunnungar konur hafa komist í ýmsar merkilegar valdastöður. Hún á að hugsa um Vigdísi Finnbogadóttur eða Katrínu Jakobsdóttur, hún á að hugsa um Áslaugu Örnu eða Þorgerði Katrínu, Birnu Einarsdóttur eða Guðrúnu Hafsteinsdóttur, allar „flottu konur“ fréttatímanna.
Verkakonan á að horfa í spegilinn og viðurkenna að hún er svo lítils virði, þrátt fyrir að vera mest ómissandi af öllum, að undirsett staða hennar skiptir engu máli í hinu stóra þjóðfélagslega samhengi, að það eina sem skiptir máli er gleyma því aldrei að á Íslandi geta konur líka orðið stærstu stjórarnir. Verkakonan á að muna að skýrsla er á döfinni, starfshópur er að funda, gögn eru í greiningu, að Þorsteinn Víglundsson fann upp jafnlaunavottunina, að vinna á heildstætt mat á því af hverju hún er svona andskoti blönk alla daga og halda svo heildstæða kynningu á því heildstæða mati í Hörpu 8. mars næstkomandi þangað sem henni verður ekki boðið en þá er nú mikilvægt að muna að þar verða samankomnar margar af flottustu konum landsins og hvað meira getur verkakona Íslands eiginlega beðið um?
Verkakona Íslands á að skilja að nýfrjálshyggjan hefur vissulega ákveðið að skynsamlegt sé að bregðast við sjálfsögðum mannréttindakröfum kvenna um lagalegt jafnrétti og viðurkenningu. En það skal nægja; þau sem láta sér detta til hugar að krafan um efnahagslegt réttlæti sé einnig mannréttindakrafa og að hana skuli einnig uppfylla samstundis eru niðurrifsseggir og hyski, hættulegt glæpafólk. Hversvegna mætir heiftin þeim sem krefjast efnahagslegs réttlætir? Jú, vegna þess að ekki má hrófla við efnahagslegu einræðisvaldi þeirra sem telja sig eigendur alls, ekki síst og einna helst verkakvennanna.
Eftir að verkakonan hefur gefið íslensku samfélagi því sem næst allt sem hún hefur að gefa, líkamlega og andlega heilsu, þrek og þrótt á þeim vinnumarkaði samræmdrar láglaunastefnu sem hún hefur verið dæmd til að dvelja á, alla sína miklu „framleiðni“, hefur hún samt ekki gefið nóg; af fórnfýsi sinni, þeirri fórnfýsi sem hátt settar konur hafa verið „frelsaðar“ undan vegna þess að engum dettur lengur til hugar að láta sem að fórnfýsi sé dyggð hjá konum sem komist hafa langt (hvaða framakona fetar framabrautina hönd í hönd með kvenlegri fórnfýsi?) á hún, innblásin og innrætt af gildum feðraveldisins, að gefa sína eigin sjálfsvirðingu og sætta sig við þá undirsettu stöðu sem hún er föst í vegna þess að konur sem hafa aldrei sýnt henni nokkurn minnsta áhuga og vita ekkert um hennar tilveru, eru komnar svo afskaplega langt inn í því grimmilega stigveldi sem skapar og endurframleiðir stöðugt hina undirsettu stöðu verkakonunnar sjálfrar!
Hvergi birtast hinar grátlegu og skammarlegu þversagnir borgaralegs femínisma með skýrari hætti en í hinni svívirðilegu kröfu um að verkakonan taki þátt í að viðhalda eigin kúgun með því að gleðjast yfir stjóra-sigrum kvenna innan þess stéttskipta kúgunarkerfis sem nærir sjálft sig með ofur-arðráni á verkakonum viðstöðulaust, ár eftir ár eftir ár.
Verkakonur Íslands, ég hvet ykkur til að hafna þeim borgaralega femínisma sem upp á okkur hefur verið þröngvað. Ég hvet ykkur til að setja ykkur sjálfar efst á forgangsröðunarlista hinnar samfélagslegu baráttu. Ég hvet ykkur til að gera ykkar djúpu og miklu sjálfsvirðingu að ykkar beittasta vopni. Ég hvet ykkur til að hafna þeim barnaskap að sigrar einstakra valdakvenna komi í staðinn fyrir efnahagslegt réttlæti ykkur til handa. Það er komið svo miklu meira en nóg af þeirri þvælu.
Verkakonur Íslands, þið hafið engu að tapa og allt að vinna. Í krafti samstöðunnar getum við sjálfar sótt það réttlæti og þá virðingu sem okkur hefur neitað um. Nú er tækifærið: „Lýður bíð ei lausnarans“, leys þig sjálf!
Höfundur er sósíalískur femínisti og skipar 4. sæti á lista Sósíalista í Reykjavíkurkjördæmi norður.