Það eru fimm milljónir verslunarfyrirtækja starfandi í Evrópu. Þessi stóri hópur er u.þ.b. 20% allra fyrirtækja sem starfandi eru í álfunni og veita þau 26 milljónum fólks atvinnu. Þetta gera um 13% alls vinnuafls í Evrópu og er verslunin sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu þar. Verslun á Íslandi er hér engin undantekning en mikilvægi hennar sem atvinnugreinar er mikið í öllu tilliti. Samkvæmt Hagstofu Íslands er framlag verslunar til landsframleiðslunnar 9,6% og um 12,5% þeirra sem eru á vinnumarkaði starfa við verslun. Það er holt að hafa þessar staðreyndir í huga ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem oft sprettur upp um mikilvægi einstakra atvinnugreina sem er ekki alveg dæmalaust úr íslenskri þjóðfélagsumræðu. Verslunin sem atvinnugrein getur því verið stolt af þeirri mikilvægu stöðu sem hún hefur í íslensku samfélagi.
Þær breytingar sem greinin stendur nú frammi fyrir eru stærri og ganga hraðar yfir en nokkru sinni fyrr. Kröfur neytenda, samhliða neyslu- og innkaupamynstri sem tekur sífelldum breytingum, leggja auknar kröfur á verslunina ætli hún að gegna því hlutverki í samfélaginu sem hún er búin að gera alla tíð. Þú þarft nefnilega að vera „á tánum“ í verslunarrekstri bæði hér eftir sem hingað til. Landamæri í hefðbundinni merkingu hafa æ minna gildi þegar kemur að verslun, þar sem sífellt fleiri kjósa að gera öll sín viðskipti á netinu og staðsetning þess sem þú gerir viðskipti við virðist skipta sífellt minna máli. Spár helstu greiningaraðila gera ráð fyrir að um 30% af veltu smásöluverslunar í Evrópulöndum verði í formi netverslunar eftir 5 – 7 ár og engin ástæða er til að ætla að annað muni gilda fyrir Ísland.
Stafræn þróun er alls ráðandi í þeirri umbreytingu sem verslunin er að ganga í gegn um. Sú umbreyting mun halda áfram og á meiri hraða á komandi árum. Aukin krafa er gerð til verslunarinnar um að hún leggi sitt af mörkum til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Baráttan gegn hlýnun jarðar harðnar stöðugt og versluninni ber að leggja sitt af mörkum. Versl nin, þ.e. bæði smásala og heildsala, bera með beinum eða óbeinum hætti ábyrgð á um 40% af losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu, en hins vegar er einungis um 5% af heildarlosun í greininni sem rekkja má beint til starfsemi verslana. Stærstur hluti losunarinnar á sér stað annað hvort í framleiðsluferli vörunnar eða á meðan á neyslu eða notkun hinna seldu vara stendur. M.ö.o. langstærstur hluti þessarar losunarinnar á sér stað í virðiskeðjunni. Samhliða því sem verslunin mun leggja sitt að mörkum verða allir þættir virðiskeðjunnar að gera hið sama og víst er að sjónum verður í auknum mæli beint í þá átt á næstunni. Fyrirtækin sem framleiða þær vörur sem verslunin selur verða að leggja sitt af mörkum eins og aðrir.
Samhliða þeirri hröðu umbreytingu sem er að verða í umhverfi verslunar þessi árin, eykst þörfin fyrir sí- og endurmenntun starfsfólks í greininni. Það er enginn ágreiningur um að hefðbundnum störfum í verslun mun fækka héðan í frá. Það er hins vegar ekki þar með sagt að störfum tengdum verslun muni fækka, en þau munu óhjákvæmilega breytast mikið. Að mati þeirra greiningaraðila sem best fylgjast með þróun verslunar í Evrópu verður nauðsynlegt að endurmennta u.þ.b. helming þess starfsfólks sem vinnur í greininni árlega. Það eru því um 13 milljón manns sem vinna við verslun í Evrópu sem þurfa að fara í einhvers konar endurmenntun árlega. Það eitt sýnir hversu hröð þróun er að verða i öllu umhverfi verslunar.
Íslensk verslun hefur alla burði til að halda stöðu sinni í því umhverfi sem við blasir. Greinin þarf að fylgjast náið með öllum þeim öru breytingum sem verða í verslun á komandi árum. Fyrirtæki í verslun hafa sýnt það í gegnum árin að þau eru fljót að laga sig að breyttu umhverfi og þau munu halda áfram að gera það. Samtök verslunar og þjónustu munu áfram að veita aðildarfyrirtækjum sínum alla þá aðstoð sem þau geta veitt, en náið samstarf hagsmunasamtakanna og fyrirtækja í greininni geta skipt sköpum við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.