Gefum okkur manneskju frá Bandaríkjunum. Hún hefur sérstakan áhuga á íslenskri tungu, sögu og menningu. Hún kemur hingað til lands, lærir fyrrgreinda hluti af mikilli áfergju og eignast hér við tilefnið marga vini. Hún er dugleg, viljug til að vinna við hvað sem er, borgar sína skatta og sem fyrr greinir lærir tungumálið af áhuga og eljusemi. Hún kemst aldrei í kast við lögin. Hún forðast allar syndir og uppfyllir allar sínar skyldur sem ábyrgur meðlimur samfélagsins.
Helgi Hrafn Gunnarsson
Þessi manneskja hefur enga löglega leið til atvinnu á Íslandi eða dvalar lengur en þrjá mánuði.
Þá segir einhver: „Já, en hún er hluti af íslensku samfélagi, hún kann íslensku, við eigum marga sameiginlega vini, hún vinnur fyrir sér, vissulega hlýtur að vera einhver leið...“ - en svarið er nei. Það er engin leið. Þessi manneskja er ekki velkomin á Íslandi samkvæmt íslenskum lögum, hún mun annaðhvort fara af landi brott eða vera hér í leyfisleysi með tilheyrandi vandkvæðum og þannig er það.
Hvað sem þeir heita, hvað sem þeir gera og hvað sem þeir eru, þá kallast þeir útlendingar og þeim skal samfélagið verjast, með löggjöf. Þessi löggjöf heitir „Lög um útlendinga“ og er nr. 96/2002.
Mörg ljón í veginum
Það er algengur misskilningur að hingað geti fólk að jafnaði flutt ef það stendur sig. Kannski er það vegna þess að núorðið kemur hingað árlega ansi mikið af ferðamönnum og því enginn hissa á því að hitta útlendinga hvar sem er á landinu. Það er reyndar blessunarlega auðvelt fyrir EES-borgara að setjast hér að, sem betur fer. En staðreyndin er sú að ef einhver utan EES-svæðisins vill vera hér í meira en þrjá mánuði, þá eru ansi mörg ljón í veginum. Oft og tíðum er tilfellið reyndar hreinlega að viðkomandi fær ekki að vera hér, sama hvað tautar og raular. Jafnvel ef við gerum ráð fyrir hinni fullkomnu manneskju sem vinnur fulla vinnu og gott betur, borgar sína skatta, heldur sig innan ramma laganna og er reiprennandi á íslenska tungu, þá er hinn einfaldi sannleikur sá að ekkert af þessu er nóg. Þetta er ekki framtíðaráætlun einhverra íhaldssamra þjóðrembuafla, heldur raunveruleikinn eins og hann er í dag.
Útlendingur má reyndar setjast hér að, ef við, Íslendingar, höfum sérstaka hagsmuni af honum, svosem ef hann hefur sérfræðiþekkingu sem okkur Íslendingum hefur mistekist að afla eða halda, en þá bara ef það er skortur á henni. Nú, eða ef hann hefur sérstök fjölskyldutengsl hérlendis, en þá bara ef þau eru mjög náin og hann getur sannað þau með óyggjandi hætti. En jafnvel þessar leiðir eru í reynd hugsaðar fyrir Íslendinga en ekki útlendinga, því Íslendingur gæti jú þurft erlendan sérfræðing eða viljað hafa náskyldan ættingja nálægt sér.
Útlendingalöggjöf til að halda Íslandi fyrir Íslendinga
Útlendingalöggjöfin er nefnilega í grundvallaratriðum hugsuð til þess að halda Íslandi fyrir Íslendinga. Andi hennar er ekki sá að vernda land og þjóð gegn einhverjum glæpamönnum og aumingjum frá Íslandi, heldur til þess að halda öllum frá Íslandi, með einungis örfáum undantekningum sem eru skýrt afmarkaðar, undantekningalítið út frá meintum hagsmunum Íslendinga sjálfra.
En gleymum nú efnahagnum í smástund og lítum aðeins á útlendinga sem fólk. Þannig er það með fólk að einhvers staðar þarf það að vera.
Þá má gjarnan undirstrika orðið „meintum“. Fólk er nefnilega fjársjóður, ekki bara menningarlega og samfélagslega, heldur efnahagslega. Hér komum við að einu af því allra vitlausasta við lög um útlendinga, en það er hugtakið „atvinnuleyfi“. Firran í þessu hugtaki er mikil og hún er tvíþætt.
Fyrst og fremst felst hún í því að án atvinnu getur útlendingur hvorki tekið þátt í að byggja upp innviði samfélagsins né ýtt undir verslun og þjónustu að neinu ráði.
Hin er sú ranghugmynd að atvinna sé tæmandi auðlind. Sú hugmynd hlýtur reyndar að spretta úr einhvers konar fordómum vegna þess að enginn virðist hafa sérstakar áhyggjur af því að fólksfjölgun valdi atvinnuleysi. Ástæðan er einföld; hugmyndin er út í hött. Atvinna skapast við mannlegar þarfir og því fleira fólk sem er til staðar, því meiri er atvinnan. En án atvinnuleyfis er fólk hinsvegar útundan í hringrás efnahagsins og það er fyrst og fremst undir þeim kringumstæðum sem útlendingur, eða reyndar Íslendingur ef út í það er farið, verður nokkurs konar efnahagsleg byrði. Ef maður ímyndar sér í eitt augnablik að Íslendingar þyrftu sjálfir sérstakt leyfi til að stunda atvinnu, þá ætti firran við þetta fyrirkomulag að verða augljós. Það er fullkomin sóun að meina fólki að vinna og engra hagsmuna er gætt með því, allra síst Íslendinga sjálfra.
En gleymum nú efnahagnum í smástund og lítum aðeins á útlendinga sem fólk. Þannig er það með fólk að einhvers staðar þarf það að vera.
Illska að meina fólki tilveru
Við Íslendingar erum eðlilega ekki vanir því að þurfa að réttlæta tilveru okkar, enda ekki krafa sem fólk á almennt að búa við. Sú hugmynd að einstaklingur hafi ekki tilverurétt er blessunarlega svo fjarlæg að við kunnum ekki að spyrja okkur að því hvað við myndum gera eða hvert við færum ef við misstum þann rétt. En við ættum í það minnsta að spyrja okkur og reyndar helst svara þeirri spurningu. Ellegar horfast í augu við að það sé af illsku en ekki heimsku, að við meinum fólki tilveru sína hér.
Það er nefnilega þýðingarlaust að tala um tilverurétt án réttarins til að dvelja og vinna. Að dvelja og vinna er það sem fólk gerir, og ef við, Íslendingar, bönnum fólki það sjálfkrafa nema við höfum sérstaka ástæðu til annars, þá skulum við ekki klappa okkur á öxlina fyrir að leyfa fólki að vera í friði. Það felst nákvæmlega engin dyggð í því að góðfúslega leyfa fólki að vera í friði annars staðar. Útlendingar mega næstum því alls staðar lifa í friði annars staðar.
Það er kominn tími til að endurskoða með gagnrýnum augum þá meginreglu að sérstaka ástæðu þurfi til að samþykkja einfalda tilveru fólks hérlendis. Ef áhyggjan er sú að hingað komi of mikið af fólki í einu, þá má setja fjöldatakmarkanir í samræmi við það, en þá skulu slíkar takmarkanir settar á þeim forsendum og endurskoðaðar reglulega. Fyrirkomulagið eins og það er í dag er að útlendingum er sjálfkrafa og af ástæðulausu höfnuð tilvera hérlendis, nema sérstök ástæða finnist fyrir því að heimila hana. Sú meginregla ætti að vera nákvæmlega í hina áttina.
Höfundur er þingflokksformaður Pírata.