Það er ekki bara á litla Íslandi sem fram fer menntapólitísk umræða. Um þessar mundir ræða Norðmenn um plagg sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Nefnd, Ludvigsen-utvalget, sem var skipuð breiðum hópi fólks, hefur unnið að því að ræða og gerasamantekt sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Á meðan á vinnu hópsins stóð hélt hann úti heimasíðu með kynningu á vinnunni og fréttum af framgangi hennar.
Norsku kennarasamtökin hafa nú krufið samantektina og gefið út hefti með spurningum og umræðupunktum sem félagsmenn þeirra geta nýtt sér til að ræða faglega sín á milli og við aðra um innihald, áhrif og framkvæmd vinnu Ludvigsen nefndarinnar. Í heftinu er gengið út frá því að fagmennska kennara standi á tveimur stólpum: frelsinu til að velja þá kennsluaðferð sem hentar hverju sinni (n. metodefrihet) og ábyrgð hvers kennara á vali sínu á kennsluaðferð (n. metodeansvar). Með útgáfu norsku kennarasamtakanna á heftinu sýna þau að kennarar eru tilbúnir til að ræða stefnur og strauma sem eru gefin út af menntayfirvöldum. Enda er það auðvelt þar sem vinnan hefur verið skýrt afmörkuð og upplýsingum um hana verið komið á framfæri jafnóðum og hún hefur verið unnin.
Í umræðunni undanfarið um árangur eða ekki árangur af lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi og þjóðarsáttmála menntamálaráðherra um eflingu læsis hefur margt komið fram. Í upphafi hennar þótti skólafólki vegið að fagmennsku sinni þar sem gefið var í skyn að skólar hefðu án athugunar og umræðulaust innleitt nýja kennsluaðferð og að lítt væri fylgst með því hvort settum markmiðum væri náð.
Á síðustu dögum hafa fjölmargir Byrjendalæsis-skólar og fræðsluskrifstofur sveitarfélaga tekið saman tölur og gögn um árangur nemenda sinna á samræmdum prófum og öðrum lestrarprófum og birt á heimasíðum sínum. Þar á meðal er skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að fjölbreyttar aðferðir við lestrarkennslu skili mestum árangri. Þessi viðbrögð sýna vel að skólarnir hafa aflað gagna til að fylgjast með árangri nemenda. Enda er það verkefni hvers skóla að fylgjast með því hvort og hvernig nemendur þeirra læra.
Í umræðunni hefur einnig verið talað um raunprófun kennsluaðferða og vísun í gagnreyndar aðferðir hefur einnig verið áberandi. Sé tekið mið af líkaninu hér fyrir neðan um gagnreyndar aðferðir má sjá að vinnulag skólanna og mat á árangri samræmist því líkani. Lykilatriðið í því er nemandinn og aðstæður hans. Rannsóknir einar og sér duga ekki til, þær þarf að aðlaga veruleika og aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig.
Kjarni gagnreyndra aðferða samkvæmt þessu líkani er fagmennska þess sem veluraðferðirnar og færir rök fyrir vali sínu. Hún á samhljóm með rannsóknum og skrifum Trausta Þorsteinssonar, fyrsta forstöðumanns Miðstöðvar skólaþróunar við HA um það sem hann kallaði samvirka fagmennsku kennara. Sú fagmennska einkennist meðal annars af því að líta á starf sitt sem námsferli í stöðugu samstarfi þeirra sem að skólastarfinu koma, kennara, foreldra, nemenda og stofnana og fagstétta utan skólans.
Ljóst er að lykillinn að gæðastarfi í skólum framtíðarinnar er fagmennska þeirra sem þar starfa í samstarfi við foreldra, stoðþjónustu og yfirvöld. Svo samvirk fagmennska fái áfram að þroskast og eflast, þarf þegar umræðunni slotar að byggja upp traustið sem skaddaðist á meðan á henni stóð. Í þeirri uppbyggingu ber allt skólafólk ábyrgð en mikilvægasta hlutverkið í uppbyggingunni hafa mennta- og menningarmálaráðuneytið og nýstofnuð Menntamálastofnun.
Höfundur er skólastjóri Þelamerkurskóla og varaformaður Skólastjórafélags Íslands.