Við vitum ekki enn hvernig stríðið fer. Þó er orðið ljóst að Rússland mun ekki ná Úkraínu undir sig og ekki sigra í stríðinu í neinum skilningi. Hótanir Pútíns um enn meiri óskapnað segja fyrst og fremst sögu um þá þröngu stöðu sem hann er kominn í bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Möguleikar hans til að semja sig frá ósigri fara minnkandi og því fylgja hættur. Stríðið mun því halda áfram, líklega um nokkra hríð.
Framtíð Rússlands í húfi
Heima fyrir er framtíð valdakerfis Rússlands í húfi. Í alþjóðakerfinu hefur staða Rússlands laskast verulega eftir pólitískan uppgang síðustu ára. Þetta er ekki fyrst og fremst vegna stríðsglæpa rússneska hersins, þótt þeir hafi vakið viðbjóð víða um heim, heldur vegna þess að ekkert stórveldi er sterkara en það sýnist vera. Því er stórveldum fátt hættulegra en að vanmáttur þeirra verði öðrum sýnilegur.
Afleiðingar hrakfara rússneska hersins eru víðtækar og gætu orði langvinnar. Stríðið hefur nú þegar vegið alvarlega að framtíð efnahagslífs Rússa með því að lama möguleika til vaxtar í nútímalegri greinum atvinnulífsins. Um leið hafa verðmætustu markaðir Rússa fyrir bæði hrávöru og flóknari framleiðslu lokast. Viðskiptin við Vesturlönd voru mun verðmætari en viðskipti við Kína geta orðið.
Tveir tapaðir lyklar
Draumur Pútíns var um hnattrænt stórveldi sem gæti gert hagsmunabandalög við önnur stórveldi eftir hentugleikum. Í þessum draumi átti Rússland ekki aðeins að ráða mestu á öllum sínum nærsvæðum heldur átti það einnig að vera öflugt stórveldi á fjarlægari svæðum eins og vel sést af íhlutun Rússa í stríðin í Sýrland og Líbýu og nýlegum tilraunum til áhrifa í Afríku og Asíu.
Heimurinn
Hinn lykillinn var hagsmunabandalög Rússa við Kína, Indland, Tyrkland, Íran og smærri ríki innan ESB í þeim tilgangi að reisa skorður við áhrifum Vesturlanda og sundra Evrópu sem mest. Kína, Indland og Tyrkland hafa nú öll brugðist vonum Pútíns og reynst óviljug til að hjálpa Rússum nema að kaupa af þeim olíu með miklum afslætti. Niðurstaðan er sú að Rússland er nú þegar orðið mun háðara Kína en áður, bæði pólitískt og efnahagslega. Hættan fyrir Rússa, og raunar líka Vesturlönd, er sú að Rússland verði nær algerlega háð Kína.
Þetta er vegna þess að viðskiptaþvinganir Vesturlanda hafa virkað mun betur en margir reiknuðu með, þótt þær séu í leiðinni enn meira íþyngjandi fyrir Evrópu en margir vonuðu. Til lengri tíma eru þær hættulegar því þær geta ekki aðeins gert Rússland fátækara og vanþróaðra heldur einnig afhent Kína lykilstöðu í rússnesku efnahagslífi.
Sigur eða tap Kína?
Kína gæti annað hvort orðið það ríki sem hagnast mest af stríðinu í Úkraínu eða land sem tapar stórt á átökunum. Kínverjar eru yfirleitt ekki ævintýramenn í alþjóðamálum og eru því mjög pirraðir á Pútín fyrir að trufla gang heimsmála með stríði sem veldur ekki aðeins tvísýnu pólitísku uppgjöri heldur líka alþjóðlegri efnahagskreppu. Kína myndi hagnast mjög til lengri tíma, bæði efnahagslega og pólitíst, ef veikt Rússland félli því í fang. Fall Pútínstjórnarinnar og einhvers konar lýðræði í Rússlandi væri hins vegar mikið áfall fyrir Kínverja því þeir deila með Pútín draumum um veikari og sundraðri Vesturlönd þótt Rússland sé þar í öllu minna hlutverki en í draumi Pútíns. Þeir vilja því verja Pútín falli þótt þeir telji framgöngu hans í Úkraínu vera óðs manns æði.
Hættuleg skref
Með herútboði og innlimun hluta Úkraínu í Rússland hefur Pútín gert almenning í Rússland að beinni aðila að stríðinu en áður var. Þetta skref hafði hann forðast í sjö mánuði. Um leið hefur hann með innlimun hertekinna svæða snúið stríðinu upp í varnarstríð Rússlands gegn Vesturlöndum. Hvort tveggja felur í sér svo miklar hættur að ljóst má vera að örvænting hefur gripið um sig í valdaklíku Pútíns. Ljóst er að Pútín vanmat stórkostlega afl Vesturlanda og þá sérstaklega Evrópuríkja til að standa saman og ekki síður vilja úkraínsku þjóðarinnar til að verja sjálfstæði sitt. Nú mun reyna á það hvort mat hans á rússnesku þjóðinni er eins rangt.
Þjóðin
Rússneska þjóðin hefur til þessa að mestu leyti getað leitt stríðið hjá sér en stuðningur við það hefur þó verið greinilegur. Andstaða við stríðið er að mestu þögul og hefur helst birst í flótta ungs og vel menntaðs fólks frá Rússlandi. Þetta gæti breyst hratt ef hundruð þúsunda manna og kvenna verðar þvingaðar til þjónustu á blóðvöllum Úkraínu, sérstaklega ef sigrar vinnast ekki og samdráttur verður víðtækur og djúpur í efnahagslífinu. Í þessu felst lífshætta fyrir valdaklíku Pútíns.
Bjargar herútboð rússneska hernum?
Herútboðið gæti á endanum tvöfaldað liðstyrk Rússa í Úkraínu. Skortur á mannafla í innrásarhernum er hins vegar afleiðing ófara Rússa frekar en orsök þeirra. Orsakirnar eru margar. Áhugaleysi hermanna á því að hætta lífi sínu fyrir óljósan málstað er ein. Önnur er að stjórn hersins hefur verið veikburða og það af ýmsum ástæðum. Eitt er að upphaflega plön hersins byggðust á órum Pútíns sjálfs um úkraínsku þjóðina og valdamenn hennar. Annað er að tækjabúnaður hersins hefur virkað verr en menn reiknuðu með. Við þetta bætist svo úrelt herstjórnarlist byggð á mikilli miðstýringu, víðtæk spilling á meðal yfirmanna og snilli úkraínska hersins við að nýta sér veikleika rússneska hersins.
Aukið herútboð gæti styrkt varnarlínur rússneska hersins þar sem þær eru viðkvæmastar en það tekur langan tíma. Önnur vandamál hersins eru líklegri til að fara vaxandi, eins og skortur á nothæfum vopnum en framleiðsla á hátæknivopnum hefur truflast vegna viðskiptaþvingana og áhugaleysis Kína á að hjálpa Pútín. Hundruð þúsunda óviljugra og lítið þjálfaðra varaliða munu varla bæta liðsandann og baráttuviljann. Agaleysi hersins mun heldur varla minnka nú þegar þúsundir fanga með langa dóma fyrir ofbeldisglæpi eru á leið úr fangelsum Rússlands til vígvalla Úkraínu í skiptum fyrir sakaruppgjöf.
Vesturlönd og stærsta hættan
Pútín á enga góða kosti í Úkraínu. Í því felast miklar hættur. Það er fyrst og fremst tvennt sem Pútín hefur notað gegn Vesturlöndum. Annað er að loka fyrir orkuflutninga til Evrópu og hitt að hóta beitingu kjarnorkuvopna.
Evrópa virðist ætla að standa af sér fyrri ógnina þótt efnahagskreppa, versnandi lífskjör og margvísleg óþægindi blasi nú við þjóðum álfunnar. Um leið er farið að þrengja óþægilega að í efnahagslífi Rússlands og mjög alvarlegar ógnir við framtíð atvinnulífs landsins eru að verða ljósari. Hótanir um notkun kjarnorkusprengja er því smám saman að verða eina virka vopn Pútíns gegn Vesturlöndum.
Kjarnorkuárás á Vesturlönd er mjög ólíkleg enda gætu afleiðingarnar orðið ólýsanlegar fyrir Rússland. Notkun svonefndra taktískra kjarnorkuvopna á vígvöllunum sjálfum er hins vegar hugsanleg. Tvennt mælir þó sterklega gegn því. Annað er að þetta myndi einangra Rússa enn frekar. Hin er að vopn af þessu tagi gera ekki endilega mikið gagn gegn her eins og þeim úkraínska sem teflir fram tiltölulega litlum, sveigjanlegum og færanlegum hersveitum. Einkenni rússneska hersins er að tefla fram stórum miðstýrðum herdeildum í skjóli stórskotaliðs og skriðdreka. Vandræði Rússa snúast því ekki um að sprengjurnar þeirra séu ekki nógu stórar.
Skásti kostur fyrir Rússa?
Þrátefli og frysting stríðsins er líklega skásta niðurstaða sem Pútín getur vonast eftir. Þetta gæti gefið honum tvennt. Annað er að forða beinum hernaðarlegum ósigri sem gæti haft ófyrirsjáanleg áhrif innan Rússlands og á stöðu ríkisins útávið. Hitt er að þrátefli myndi veikja Úkraínu til langframa og koma í veg fyrir að þar geti þrifist blómlegt þjóðfélag en opin og frjáls Úkraína væri óþolandi fyrirmynd við hlið Rússlands. Þrátefli gæti líka gefið Pútín vonir um að samstaða Vesturlanda bresti á endanum. Í þessu ljósi er líklega best að horfa á útkvaðningu varaliðs rússneska hersins. Það gæti, ef vel gengur, hjálpað Rússum til að halda hluta þeirra svæða sem þeir hafa þegar hertekið og keypt tíma fyrir Pútín sem trúir því enn að Vesturlönd séu ört hnignandi og óguðlegt lastabæli sem skorti siðferðilegan styrk.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.