Við héldum að á árinu 2022 yrði COVID úr sögunni, en svo er alls ekki. Tæplega 200 Íslendingar hafa látist vegna COVID-19 á þessu ári, í fyrra létust átta manns. Á árinu 2020 dó 31. Þetta vitum við sem störfum innan heilbrigðisgeirans. Sjúkraliðar eins og aðrar heilbrigðisstéttir eru enn við framlínustörf að sinna veiku fólki. Það er mikilvægt að minna á viðfangsefni sjúkraliða innan heilbrigðisþjónustunnar, einkum nú þegar kjaraviðræður um starfskjör stéttarinnar eru handan við hornið.
Nýr kjarasamningur á að endurspegla raunverulegt virði starfanna sem stéttin sinnir innan heilbrigðiskerfisins. Ég legg til að næstu kjarasamningar opinberra starfsmanna taki aukið tillit til starfsstétta hjúkrunar, og það verði sérstaklega horft til vinnuframlags hinna hefðbundnu kvennastétta. Það er eðlileg krafa í velferðarsamfélaginu Íslandi.
Kynskiptur vinnumarkaður
Ein af helstu ástæðum þess að Ísland raðar sér á topp þeirra ríkja sem mestar tekjur hafa, er þessi mikla þátttaka kvenna á vinnumarkaði. Konur hafa staðið vaktina áratugum saman en á alltof lágum launum – aðeins vegna þess að þær eru konur. Umfangsmikil atvinnuþátttaka kvenna skapar ekki aðeins mikinn auð í íslensku samfélagi heldur eykur hún beinlínis framleiðni. Kynskiptur vinnumarkaðar kostar okkur öll. Þessi launamunur og ójafnrétti á vinnumarkaðinum dregur nefnilega bæði úr framleiðni og úr vexti. Í þessu samhengi má vísa í orð framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem sagði: „Þessi ójafna staða milli karla og kvenna veldur efnahagslegum kostnaði þar sem hún dregur úr framleiðni og hagvexti.“ Sömuleiðis sýndi nýleg rannsókn frá Harvard að launahækkun til kvenna eykur framleiðni meira en launahækkun til karla.
Betri velferðar- og heilbrigðisþjónusta
Árið 2023 er óhjákvæmilega óskrifað. Það væri óskandi að við sem einstaklingar og samfélag myndum hlúa betur að hverju öðru. Líta oftar inn á við. Huga að heilbrigðum lífstíl, velferð og því góða sem býr í hverjum manni. Þannig gætum við létt undir með öðrum, og jafnvel minnkað eftirspurn eftir velferðar- og heilbrigðisþjónustu.
Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Við lifum í þeirri staðreynd að samborgarar okkar munu áfram veikjast og slasast, og allflest náum við að eldast og verða gömul. Þá er eins gott að einhver standi vaktina. Við sjúkraliðar gerum það. Við sinnum fólki öllum stundum, á sama tíma og aðrir halda jól, gleðjast um áramót og njóta samfunda með fjölskyldu og vinum. Við erum reiðubúin að standa vörð um heilbrigðiskerfið og leggja okkar að mörkum til að styðja það. En við krefjumst jafnréttis á vinnumarkaði.
Við sem samfélag viljum eiga gott heilbrigðiskerfi. En heilbrigðiskerfið er fátt annað en starfsfólkið sem þar vinnur. Við þurfum að hlúa að betur því og meta vinnuframlag þeirra sem þar vinna að verðleikum. Það er óþolandi að enn sé til staðar óskýrður launamunur milli kynja á Íslandi árið 2022. Þessu þarf að breyta. Það er ekki einungis óréttlæti að störf sem eru að stærstum hluta unnin af konum séu iðulega lægra launuð en störf unninn af körlum, heldur er það einnig efnahagslega óskynsamlegt.
Munum að samfélög eru mannanna verk, og oft er það eina sem hindrar okkur í átt að betra samfélagi fyrir alla, er viljinn til að breyta.
Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.