Sænskættaður auglýsandi komst í fréttirnar á dögunum fyrir það að hafa vogað sér að veggfóðra auglýsingapláss íslenskra fréttamiðla með auglýsingu á ensku. Lesendur miðlanna brugðust við. Milk skyldi kölluð mjólk og made for humans átti að snara yfir í gerð fyrir fólk.
Íslenskan er okkur afskaplega hugleikin í svona tilvikum. Fólk gat þarna sameinast um að býsnast yfir þessu vonlausa auglýsingafólki sem lét hafa sig út í birtingar á ensku. Enga útlensku hér takk! Mörgum létti þegar auglýsandinn bjargaði málinu og hið ástkæra ylhýra fékk að umvefja haframjólkurfernuna með fögrum orðum. Og allt rímaði meira að segja. Eins og mjólk, en gerð fyrir fólk.
Fjölmiðlar, líkt og haframjólk, eru gerðir fyrir fólk. Þeir þjóna þeim mikilvæga tilgangi að upplýsa fólk um það sem er að gerast í veröldinni, segja sögur af fólki, veita stjórnvöldum aðhald og varpa ljósi á mál sem ráðamenn eða aðrir valdhafar í samfélaginu vilja helst að fái að leynast í skugganum. Við á Kjarnanum reynum í það minnsta að hafa það að leiðarljósi að vera fyrir fólk, þótt við höfum lítið velt okkur uppúr mögulegum líkindum við haframjólk.
Fréttir á íslensku viðhalda tungumálinu
Eflaust er hægt að skjóta á hversu mikinn texta íslenskir fjölmiðlar framleiða á hinu ástkæra ylhýra dag hvern, en þær tölur liggja ekki á lausu. Hver og einn verður að gera eigin tilraunir með að reikna út magnið og meta gæðin. Fréttamiðlar sinna daglegri útgáfu á greinum, viðtölum, fréttum, fréttaskýringum, pistlum og öðru efni sem á erindi við almenning. Þessi viðamikla útgáfa fréttatengds efnis á íslensku er einn anginn af nauðsynlegu viðhaldi íslenskrar tungu.
Fréttatengt efni er hluti af því að setja veruleikann fram og miðla upplýsingum og það verður auðvitað best gert með því að miðla á því tungumáli sem lesendur, hlustendur eða áhorfendur tala og skilja. Enskar og pólskar fréttasíður hafa líka skotið upp kollinum, enda þurfa fleiri en íslenskumælandi að hafa aðgang að innlendu fréttaefni.
Endurgreitt vegna framleiðslu á íslensku
Stjórnvöld hafa sem betur fer áttað sig að nokkru leyti á mikilvægi íslenskunnar í ýmsum birtingarmyndum, mikilvægi þess að viðhalda málinu og efla það. Þetta kemur fram til að mynda í endurgreiðslum á kostnaði vegna ýmissar útgáfustarfsemi.
Helsta markmið laga um endurgreiðslu vegna útgáfu bóka á íslensku er til dæmis að vernda íslenska tungu, enda eigi hún verulega undir högg að sækja eins og það er orðað í greinargerð. Við samningu frumvarpsins um endurgreiðslur til þeirra sem gefa út bækur á íslensku var tekið mið af lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi auk þess sem litið var til tímabundinna endurgreiðslna vegna hljóðritunar á tónlist.
Stjórnvöld semsagt vilja greiða fyrir framleiðslu á rituðu, hljóðrituðu og kvikmynduðu efni á íslensku, enda hafi það þýðingu fyrir þessa litlu þjóð að geta notið þess að lesa, hlusta og horfa á efni á íslensku.
Íslenskan ætti að vera rökstuðningur fyrir stuðningi við fjölmiðla
Reyndar eru þessar endurgreiðslur allar tímabundnar. Lög um endurgreiðslur vegna hljóðritunar á íslenskri tónlist þarf að endurnýja fyrir lok ársins í ár, lög um endurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku þarf að endurnýja fyrir lok næsta árs og innan þriggja ára þarf að endurskoða lög um endurgreiðslur vegna kvikmynda.
Þegar lög voru sett um styrki í formi endurgreiðslu rekstrarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla í fyrra var það líka tímabundið, og reyndar eru þau lög komin framyfir síðasta söludag. Aðeins er eftir að greiða út styrki vegna ársins 2021 og eiga fjölmiðlar von á niðurstöðu um þær endurgreiðslur á næstunni, svo tekur óvissa við. Fjölmiðlastyrkirnir voru fyrst og fremst settir á vegna erfiðra rekstrarskilyrða fjölmiðla og ósanngjarnrar samkeppni um auglýsingafé við erlenda miðla. Ekkert minnst á veigamikið hlutverk þeirra í að viðhalda íslenskri tungu.
Íslenskan ætti með réttu að vera mikilvægur þáttur í rökstuðningi fyrir því að fjölmiðlar hljóti endurgreiðslu kostnaðar á við aðra framleiðendur efnis á íslensku, hvort sem það er í formi bóka, tónlistar eða kvikmynda. Mikilvægi fjölmiðla fyrir hið ástkæra ylhýra er augljóst.
Við sem þjóð verðum að geta haldið úti fjölbreyttum fjölmiðlum sem sinna því til dæmis að útskýra flókin fréttamál, setja fram áhugaverð viðtöl við fólk sem býr yfir einstakri reynslu, greina frá spillingu, varpa ljósi á vafasöm viðskipti sem við annars myndum aldrei heyra af, veita okkur innsýn í heima sem okkur væru annars huldir og svo mætti lengi telja. Það er mikilvægt fyrir fólk, hvort sem við köllum fólkið lesendur, hlustendur eða áhorfendur, að heyra sögur af öðru fólki, vita hvað annað fólk er að ganga í gegnum og hafa tækifæri til að taka þátt í lifandi samfélagsumræðu gegnum fjölmiðla. Íslenskan væri fátækari ef fjölmiðlar væru ekki að nýta hana dag hvern.
Af hverju tölum við um greiðsluveggi á netinu?
Eins og haframjólkin, sem rennur ljúflega niður í morgunkornsskálina, þá renna fréttir af fólki í stríðum straumum niður fréttasíður fjölmiðla alla daga, allt árið. Fréttamiðlar eiga þó sífellt erfiðara með að fóta sig enda gildir ekki alltaf sami greiðsluvilji um fréttir og mjólk. Hugtökin sem við notum um greiðslur fyrir þessi fyrirbæri eru meira að segja ekki þau sömu, enda er tungumálið okkar sem betur fer afar lifandi.
Mjólkina tökum við úr búðarhillunni en áður en við förum með fernuna heim er ekki annað hægt en að stoppa á kassanum og greiða fyrir hana. Fyrr komumst við ekki heim, nema lenda illa í því. Fréttir, greinar og viðtöl finnst þó mörgum sjálfsagt að fá frítt. Ef þarf að borga fyrir fjölmiðla eða fréttatengt efni á netinu þá er orðið öllu neikvæðara, ekki talað um að fara á kassann heldur að lenda á greiðsluvegg (e. paywall).
Aldrei kallar neinn kassann í Bónus greiðsluvegg og býsnast yfir því að lenda á honum áður en gengið er út með haframjólkina. Við borgum einfaldlega fyrir þær vörur sem við setjum í körfuna. En einhverra hluta vegna andvörpum við gjarnan við tölvuskjáinn yfir því að þurfa að greiða fyrir fréttirnar sem við lesum, fréttaskýringar, viðtöl, pistla og annað sem oft er búið að leggja mikinn tíma og peninga í.
Kjarninn hefur alltaf verið opinn fjölmiðill, af þeirri einföldu ástæðu að við trúum því að vandað fréttaefni og skýringar af því tagi sem Kjarninn vinnur eigi erindi við allan almenning og það sé því ákveðin þjónusta að hafa vefinn opinn. Í staðinn óskum við eftir því við lesendur að þeir greiði hóflegt mánaðargjald til Kjarnans, sem þó er valfrjálst, í anda þess að fólk hefur mismikið milli handanna.
Var sænska haframjólkin svona mikið hneyksli?
Fjölmiðlar eru íslenskunni nauðsynlegir, þeir rækta hana og styðja við hana á hverjum degi, hvort sem fjallað er um haframjólk, Samherja eða eitthvað allt annað. En það eru ekki bara stjórnvöld og auglýsendur sem geta styrkt fjölmiðla og stutt þannig við það að tungumálið haldist lifandi gegnum fréttir, viðtöl og greinar.
Þau sem náðu ekki upp í nef sér af hneykslan yfir því að enskuskotin sænskættuð haframjólk fengi auglýsingapláss á íslenskum fréttamiðlum og fundu fyrir létti, jafnvel sigurtilfinningu, við að sjá þessa einu setningu þýdda yfir á íslensku ættu að nýta þetta uppnám í að stíga stærri skref í þágu tungumálsins. Til dæmis með því að styðja íslenskan fjölmiðil. Tungumálið skiptir máli alla daga og fjölmiðlar sem segja fréttir á íslensku hjálpa til við að minna okkur á það. Við þurfum íslenskt mál og til að halda því við þurfum við fjölmiðla sem skrifa á íslensku.
Höfundur er blaðamaður og framkvæmdastjóri Kjarnans