Í rúmlega sjö ár hefur Seðlabanki Bandaríkjanna haldið stýrivöxtum í 0,25 prósentum og líður senn að því að hann hefji stýrihækkunarferli, samkvæmt því sem tilkynnt hefur verið um af hálfu bankans, meðal annars á síðasta vaxtaákvörðunardegi, þar sem vöxtum var enn einu sinni haldið óbreyttum.
Frammi fyrir efnahagsnefnd Bandaríkjaþings, 4. nóvember síðastliðinn, sagði Janet Yellen, formaður stjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna, að hugsanlega væri góður tími til að hefja vaxtahækkunarferlið í desember. Ekkert var þó fullyrt, enda um viðkvæmar markaðsupplýsingar að ræða, ekki síst fyrir skuldabréfa- og gjaldeyrismarkað.
Merki um viðspyrnu
Sá sem nú er að stýra vinnu innan Seðlabanka Bandaríkjanna, þar sem vaxtahækkunarferlið er undirbúið og fjárfestingastefna sömuleiðis, er 55 ára gamall Breti, Simon Potter að nafni, sem þó hefur átt sinn feril að langmestu leyti í Bandaríkjunum.
Hann þykir afburða hagfræðingur, og leiðir markaðsviðskiptadeild Seðlabankans í New York, sem inniheldur 500 sérfræðinga í miðlun og markaðsviðskiptum, að því er fram kom í grein um hann í Wall Street Journal 23. nóvember síðasliðinn.
Flestir fjárfestar hér í Bandaríkjunum, reikna með því að Seðlabankinn hækki stýrivexti upp í 0,5 prósent, eða um 0,25 prósentustig, á vaxtaákvörðunarfundi sínum, dagana 15. til 16. desember. Flestar hagtölur í Bandaríkjunum þykja gefa tilefni til þess að hækkunarferlið hefjist nú, en atvinnuleysi er komið niður í fimm prósent, eftir að hafa farið í rúmlega 10 prósent árið 2010, og hagvöxtur hefur verið viðunandi, á bilinu 1,5 til 2,5 prósent, á undanförnum mánuðum. En staðan er flóknari þegar kastljósinu er beint út fyrir landamæri Bandaríkjanna.
Asía og Suður-Ameríka eru titrandi
Einn virtasti þjóðhagfræðingur heims, Argentínumaðurinn Dr. Guillermo Calvo, var einn þeirra sem flutti erindi á fundi sem Columbia Háskóli í New York stóð fyrir 10. nóvember síðastliðinn, þar sem sjónum var beint að stöðu mála í Asíu og Suður-Ameríku, meðal annars í samhengi við vaxtahækkunarferli Seðlabanka Bandaríkjanna.
Í máli hans, og annarra sem tóku til máls á fundinum, kom fram að hækkun vaxta gæti komið sér illa fyrir ríki sem nú væru að ganga í gegnum mikla erfiðleika vegna lágs olíuverðs og minnkandi eftirspurnar í Kína. Olíuverð hefur fallið um meira en 60 prósent á fjórtán mánuðum, með tilheyrandi vanda fyrir olíuframleiðsluríki og önnur sem ættu mikla hagsmuni undir þjónstu og iðnaði sem tengdist olíugeiranum með einhverjum hætti.
Á fundinum kom meðal annars fram að ekki væri útilokað að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi brátt til Brasilíu, stærsta lands Suður-Ameríku ef vaxtahækkunin - sem myndi leiða til hærri fjármagnskostnaðar og þar með þrenginga fyrir ríki með mikla hagsmuni í Bandaríkjadölum - kæmi á slæmum tíma. Brasilía, sem er stór hrávöruútflytjandi, ekki síst til Kína, er nú að ganga í gegnum mikla niðursveiflu eftir margra ára tímabil hagvaxtar og uppgang. Skipbrot hagkerfisins, í þessu 200 milljóna íbúa landi, væri ekki útilokað.
Þetta sýndi þá miklu hagsmuni sem væru undir í alþjóðabúskapnum, þegar Seðlabanki Bandaríkjanna myndi taka ákvörðun um að hækka vexti, eftir meira að sjö ára tímabil þar sem örvunaraðgerðir hafi einkennt þróun mála á mörkuðum. Alvara lífsins tekur við þegar því tímabili lýkur, og hagkerfi heimsins eru í misjafnri stöðu til þess að takast á við hærri vexti, en Bandaríkjadalur er stærsta gjaldeyrisforðamynt heimsins og þar með sú útbreiddasta í heiminum.
Stríðsátök og pressa
Stríðsátök í Írak, Afganistan og Sýrlandi geta líka haft áhrif á ákvörðun Seðlabankans nú, að því er fram hefur komið í máli sérfræðinga undanfarin misseri. Vaxandi ólga í Evrópu og hryðjuverkaógn gæti frestað hækkunarferli. Þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talað fyrir því að Seðlabanki Bandaríkjanna fari sér hægt í því að hækka vexti, og horfi til þróunar á heimsmörkuðum.
Þegar vaxtahækkunarferlið hefst þá lýkur einu lengsta örvunaraðgerðatímabili sem Seðlabanki Bandaríkjanna hefur nokkru sinni staðið fyrir. Ísland er örríki í samanburði við flest lönd heimsins, en þróun mála á alþjóðamörkuðum er oft fljót að hafa áhrif, enda útflutningur á vöru á þjónustu, til hinna ýmsu landa, hryggjarstykkið í hagkerfinu.