Fyrsta desember minnumst við fullveldis Íslendinga, en þann dag árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Kallað hefur verið eftir því að þessum áfanga sem þá náðist verði gert hærra undir höfði. Sigurinn sem fólst í fullveldi Íslands hafi verið árangur af baráttu Íslendinga fyrir auknum réttindum og sjálfsstjórn og því beri að fagna á afgerandi hátt.
Þetta er að nokkru leyti rétt, því fullveldið var Íslendingum vissulega mikilvægur áfangi. Sé hins vegar rýnt í söguna þá er málið ekki alveg svo einfalt að alfarið megi skrifa fullveldið á hetjulega baráttu Íslendinga. Á þessum tíma var laga- og þjóðréttarleg staða ríkja í mikilli mótun og var almennt að verða til kerfi nútíma fullvalda ríkja – þó formlega megi rekja söguna aftur til ársins 1648.
Bent hefur verið á að Íslendingar hafi ætíð nálgast fullveldið eins og einhver muni koma og hrifsa það af þeim þegar minnst varir. Eftir ákafa baráttu fyrir fullveldinu við erlend ríki beri yngri kynslóðum því að verja það fullu. Ástæðan er kannski sú að þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 var talað um að Íslendingar væru að endurheimta það fullveldi sem misvitrir menn hefðu glatað eftir gullöld þjóðveldistímans, þar sem við hafi tekið margra alda niðurlæging. Fullveldi Íslands er þó eitthvað sem við höfum í hendi okkar – „fullfær um að glutra niður sjálf“ – fremur en að einhver komi og taki það af okkur.
Fullveldi er mjög víðfeðmt hugtak en hin hefðbundna skilgreining er í grófum dráttum fullt og óskorað vald ríkis á eigin landsvæði. Fullveldishugtakið hefur tvær víddir, þá innri sem snýr að lagasetningu og lögmæti ríkisvaldsins innanlands – og þá ytri sem snýr að viðurkenningu umheimsins á lögsögu ríkisins. Jafnframt hefur fullveldið tvö megin sjónarhorn, lagalegt sem er hin formlega skilgreining – og pólitískt sem gefur hugsanlega raunsannari mynd af hugtakinu, þó um leið geti það orðið að pólitísku slagorði.
Fullveldið er þannig í grunninn lögfræðileg skilgreining á fyrirkomulagi stjórnskipunar þjóðríkisins, sem nauðsynlegt er að skoða í sögulegu samhengi við samskipti viðkomandi ríkis við önnur ríki. Síðan koma til ýmis óljós hugtök eins og þjóðarsál eða þjóðareining, sem geta gefið fullveldinu tilfinningalegt gildi. Vandamálið við fullveldisumræður á Íslandi er einmitt að hugtakið er svo samofið sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að umræður um framsal eða deilingu fullveldis geta hljómað nánast eins og föðurlandssvik í eyrum margra.
Því er mikilvægt að árétta að fullveldi er ekki einhliða fyrirbæri og snýst ekki um að haga sér eftir eigin geðþótta. „Viðurkenning á fullveldi fæst með samstarfi, ekki með því að steyta hnefann framan í heiminn“. Gagnlegt gæti verið að hafa orðið „fullgildi“ á bak við eyrað til að fá gleggri mynd af merkingu hugtaksins, því í fullveldi felst meðal annars réttur ríkis til þátttöku á alþjóðavettvangi og ákveðnar skyldur því samfara.
Ógnar alþjóðasamstarf fullveldinu?
Margir finna alþjóðlegum skuldbindingum allt til foráttu þar sem þær vegi stórlega að sjálfsákvörðunarrétti ríkja og þar með að fullveldinu. Að sama skapi skerði alþjóðavæðing réttindi borgaranna þegar ríkin þurfi að laga sig að og beygja undir þær hömlur sem hún skapar. Hitt sjónarmiðið er að ríki styrki einmitt raunverulegt fullveldi sitt með deilingu hins formlega fullveldis. Jafnframt færi alþjóðavæðingin borgurunum lýðræðisumbætur því ríkin séu knúin til að standa sig í stykkinu með ýmislegt sem til dæmis varðar borgaraleg réttindi.
En hvernig má það vera að með því að skerða rétt ríkisins til að ráða sínum málum megi styrkja sjálfstæði þess? Af hverju kjósa ríki til dæmis að gerast aðilar að alþjóðastofnunum og samningum þar sem þau augljóslega framselja hluta fullveldisins? Í raun hafa flest ríki, Ísland er þar fremst í flokki, framselt eða deilt hluta fullveldisins. Spurningin er því hvar við viljum draga mörkin frekar en hvort við framseljum eða deilum því yfirhöfuð.
Afstaða Íslendinga til fullveldisins setur mark sitt á umræður um þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Í því samhengi er fróðlegt að skoða hvað það er sem í raun ógnar fullveldinu. Það sem heyrist gjarnan í umræðunni er að útlendingar sitji um auðlindir Íslendinga, hina óþrjótandi orku, hreina vatnið og fiskimiðin. Að sama skapi er vísað til yfirvaldsins í Brussel sem íþyngjandi reglugerðarbákns sem fullveldinu stafi bráð hætta af.
Þetta viðhorf um fullveldið sem viðkvæmt fjöregg, sem við gætum misst í hendur gírugra útlendinga, kann að vera skaðlegt. Því á meðan er sofið á verðinum á öðrum vígstöðvum þar sem raunverulega er sótt að fullveldinu. Grundvallaratriðið í þessu er að fullveldið fáum við ekki með einhliða yfirlýsingu heldur þarf að koma til viðurkenning annarra ríkja. Hún fæst með formlegu samstarfi þar sem ríki sýnir að því sé treystandi og geti að sem mestu leyti staðið á eigin fótum.
Stórlega er vegið að fullveldi ríkis sem getur ekki tryggt öryggi borgaranna gagnvart þeim ógnum sem að geta steðjað. Það geta verið árásir frá öðrum ríkjum, hópum, þeim sem ógna stöðu ríkisins innan frá eða ógn vegna náttúruhamfara og annarra hörmunga.
Þegar skoðaðir eru möguleikar Íslendinga til hefðbundinna varna verður að viðurkennast að þar erum við ekki mjög burðug. Ísland er herlaust ríki og upp á önnur ríki komið með hervarnir. Eftir brottför bandaríska hersins árið 2006 hefur Landhelgisgæslan átt í mesta basli við að halda úti lágmarks þyrlubjörgunarsveit. Jafnframt má spyrja má hvort Íslendingar geti í raun haldið uppi lágmarks borgaralegu öryggi í efnahagslögsögunni umhverfis landið. Það er svæði sem við gerum þó kröfu til – og höfum jafnframt skuldbundið okkur til sinna öryggi á enn stærra svæði.
Að sama skapi má einnig fullyrða að ef ríki er ekki efnahagslega sjálfstætt sé það ekki fullvalda. Í því samhengi má nefna stöðu Íslands í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 er Ísland varð í raun upp á önnur ríki komið efnahagslega. Þá missti Ísland trúverðugleika á alþjóðavettvangi um skeið og íslensk stjórnvöld fóru með stjórn efnahagsmála undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Óhætt er að segja að þar hafi verið vegið að fullveldinu á einhvern hátt.
Fullveldið varið
Því er farin sú leið að leita samstarfs við önnur ríki, ýmist tvíhliða eða með aðild að einhvers konar formlegum samningum eða alþjóðastofnunum. Gera má ráð fyrir því að meginástæða þess að Íslendingar undirrituðu samninginn um EES, með þeim takmörkunum á fullveldinu sem aðildin hefur í för með sér, sé komin til af sömu orsök og lá að baki inngöngunni í NATO.
Þá er það metið sem svo, að fórn á hluta fullveldisins sé nauðsynleg forsenda sjálfstæðis íslenska þjóðríkisins. Án greiðs aðgangs að evrópskum mörkuðum gæti íslenskt efnahagslíf ekki þrifist og ef efnahagslífið hryndi væri fullveldið væntanlega ekki mikils virði. Með framsali á vörnum landsins með formlegum hætti til bandalags eins og NATO og eða Bandaríkjanna, má líta svo á að hið raunverulega fullveldi ríkisins sé betur tryggt.
Þrátt fyrir að vera veikburða getur smáríki eins og Ísland með virku alþjóðasamstarfi og formlegu framsali fullveldis, varið hagsmuni sína á hlutlausari grunni en ella og styrkt sjálfstæði sitt – auk þess að skapa sér trúverðugleika á alþjóðavettvangi, sem er lykilatriði.
Fullveldið er því býsna margbrotið og mikilvægt að umgangast það af nærgætni og forðast að misnota það sem pólitíska táknmynd eða slagorð. Hætt er við að skilgreining á fullveldi sem byggist á þjóðernis-rómantískum hugmyndum hundrað ára gamallar heimsmyndar sé ekki mjög gagnleg – mun frekar skaðleg.
Fullveldi er í raun margþætt, gagnkvæmt og síbreytilegt fyrirbæri og snýst ekki eingöngu um að verja hagsmuni ríkisins á einhliða hátt eins og stundum er haldið fram. Fullveldi er einskonar gæðastaðall sem ríki ávinnur sér, en felur þá jafnframt í sér ríkar skyldur, bæði gagnvart eigin borgurum og á alþjóðavettvangi. Ef þær eru ekki uppfylltar er fyrst hætta á að fjöreggið glatist.