Brasilía gengur nú í gegnum mikinn öldudal í efnahagslífinu, eftir uppgangstíma síðustu árin. Verðfall á mikilvægum útflutningsvörum, olíu þar helst, hefur leitt til þess að samdráttur er í hagkerfinu og erfiðleikar eru orðnir augljósir í fleiri geirum. Nýjustu tölur sýna 4,5 prósent samdrátt í hagkerfinu frá sama tímabili í fyrra, og það versta er, að óveðurskýin halda áfram að hrannast upp. Í skýrslu sem Wall Street Journal vitnar til í umfjöllun sinni kemur fram að botninum hafi ekki verið náð ennþá. André Perfeito, aðalhagfræðingur Gradual Investimentos, fjárfestingarfyrirtækis í Brasilíu, segir að áhyggjuefnið sé ekki endilega þessi mikli samdráttur nú, heldur að hann geti haldið áfram í nokkuð langan tíma í viðbót.
Uppgangur, HM og Ólympíuleikar
Í eitt og hálft ár hefur hagkerfið verið í samdrætti, en í rúmlega áratug þar á undan, fyrir utan þrjá ársfjórðunga, á árunum 2008 og 2009, þá hefur mikill hagvöxtur einkennt þetta risavaxna hagkerfi sem er það sjöunda stærsta í heimi og það langstærsta í Suður-Ameríku.
Í fyrra fór Heimsmeistaramótið í fótbolta fram í Brasilíu, og á næsta ári fara Ólympíuleikarnir fram í Ríó. Kostnaður við þá er þegar kominn um 520 milljónum Bandaríkjadala, eða um 67,6 milljörðum, fram úr áætlunum, samkvæmt fréttum Bloomberg í dag, og eru stjórnvöld þegar farin að huga að leiðum til að hagræða.
Brasilíumenn féllu úr keppni á HM eftir dramatískt stórtap gegn Þjóðverjum, 1-7, og má segja að það hafi verið einkennandi fyrir það sem á eftir fylgdi.
Olía hóf síð sumars í fyrra að lækka hratt, eftir að hafa farið hæst í 115 Bandaríkjadali á tunnuna, sé miðað við hráolíu. Nú stendur verðið í 40 Bandaríkjadölum. Fyrir vaxandi olíuútflutningsríki eins og Brasilíu þýðir þetta að erfiðar tímar bíða landsmanna. En þetta er ekki það eina, því verð á mörgum öðrum hrávörum hefur lækkað vegna þess að eftirspurn hefur minnkað. Þetta á ekki síst við um vörur sem seldar eru til Kína, en þar hefur minnkandi eftirspurn gert Brasilíu lífið leitt.
Fjármagnskostnaður gæti hækkað
Annað áhyggjuefni fyrir Brasilíu eru skrefin sem Seðlabanki Bandaríkjanna hyggst stíga á næstunni með hækkun stýrivaxta. Búist er við því að bankinn hækki vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem fer fram dagana 15. til 16. desember. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur haldið vöxtum í 0,25 prósentum í meira en sjö ár, og næstum við núllið í tæpan áratug. Þetta hefur þýtt að hagstætt hefur verið fyrir þjóðir eins og Brasilíu að taka lán í Bandaríkjadal. Með hækkun vaxta eykst fjármagnskostnaðurinn, og óbeinu áhrifin geta einnig verið þau að aðgangur bankakerfisins að ódýru lánsfé verður enn erfiðari, sem síðan dregur enn úr slagkraftinum í hagkerfinu.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans á dögunum, þá nefndi einn virtasti þjóðhagfræðingur heimsins, Argentínumaðurinn Dr. Guillermo Calvo, í erindi á fundi Columbia háskóla um stöðu efnahagsmála í heiminum, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti bankað upp í Brasilíu á næstunni ákveði Seðlabanki Bandaríkjanna að hækka vexti á næstunni.
Áskoranir fyrir stór olíuríki
Í Brasilíu búa um 200 milljónir manna. Til samanburðar er það mun meiri fjöldi en býr í Suður-Evrópu. Þar búa um 153 milljónir manna, og eru fjölmennustu ríkin Spánn með 47 milljónir íbúa, og Ítalía en þar búa rúmlega 60 milljónir manna.
Ljóst er að fari svo að olíuverð haldist áfram lágt, má búast við að frekari erfiðleikar geri vart við sig hjá stórum olíuríkjum. Nú þegar hafa Rússland og Nígería, sem bæði eru stórar olíuútflutningsþjóðir, gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna verðfalls á olíu og minnkandi eftirspurnar. Eftir því sem staðan dregst á langinn, því erfiðari verður fyrir þessu stóru hagkerfi að laga sig að breyttum veruleika.
Ofan á efnahagslega erfiðleika í Brasilíu, glímir landið við mikinn óróleika í stjórnmálum. Ekki aðeins á landsmálastiginu, þar sem Dilma Rouseff forseti berst nú fyrir pólitísku lífi sínu, heldur einnig í einstökum borgum og héröðum. Efnahagserfiðleikarnir hafa komið hratt að Brasilíu og svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki verið undir þessa miklu sveiflu búin. Þegar fjármálakreppan var sem dýpst, á árunum 2007 til 2009, var brasilíska hagkerfið fljótt að ná sér á strik, einkum vegna vaxandi viðskipta við Kína og hækkandi olíuverðs. En nú er öldin önnur, og óvissan er næstum áþreifanleg í þessum mesta efnahagslega öldudal sem Brasilía hefur gengið í gegnum á undanförnum 20 árum.