„Á árinu 2015 var talsverður uppgangur í efnahagslífinu, sem bæði skýrist af og endurspeglast í öflugum inn- og útflutningi. Þetta eru góð tíðindi þar sem Ísland er lítið og sérhæft hagkerfi og þar af leiðandi mjög háð viðskiptum við útlönd.“
Svona hefst umfjöllun greingardeildar Arion banka, þar sem fjallað er um inn- og útflutningsviðskipti á árinu 2015.
Ekki liggja fyrir allar tölur um utanríkisviðskipti árið 2015 en greiningardeildin áætlar að heildarútflutningur hafi numið nærri 1.200 milljörðum króna, sem er ellefu prósent aukning í krónum talið frá fyrra ári, en að innflutningur hafið numið rúmlega 1.000 milljörðum, sem er um átta prósent aukning. Munar ekki síst um mikinn kraft í ferðaþjónustu.
Þetta þýðir að afgangur af utanríkisviðskiptum var líklega nálægt 160 til 170 milljarðar króna árið 2015, samanborið við 125 milljarða króna árið 2014, af því er fram kemur í umfjölluninni.
Sterkara gengi og lægri skuldir
Að meðaltali var gengið um þremur prósentum sterkara árið 2015, og því er vöxtur innflutnings og útflutnings á föstu gengi meiri sem því nemur. Samhliða þessari þróun hefur staða ríkissjóðs vænkast mikið, frá fyrra ári, en undir lok ársins greiddi ríkissjóður niður skuldir um tæplega 50 milljarða króna, eins og kunngjört var í gær.
Greiðslan var innt af hendi undir lok síðasta árs og er um að ræða eina stærstu einstöku afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Afborgunin fór þannig fram að sjóðsstaða ríkissjóðs hjá Seðlabankanum var lækkuð. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 ma.kr. til samanburðar við 1.492 ma.kr. í árslok 2014. Samsvarar það um tíu prósent lækkun skulda á milli ára. Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 milljörðum króna í lok ársins. Það er upphæð sem nemur um 50 prósent á áætlaðri landsframleiðslu þessa árs.
Aukin umsvif
Með áframhaldandi aukningu innlendrar eftirspurnar og fjölgun ferðamanna, á sama tíma og áætlun um losun hafta verður hrint í framkvæmd, eru horfur á að utanríkisviðskipti muni halda áfram að aukast á þessu ári, að því er fram kemur í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
„Aukinn afgangur af utanríkisverslun hefur, ásamt öðru, gert það að verkum að Seðlabankinn safnaði mun hraðar í gjaldeyrisforðann í fyrra heldur en árið 2014. Það ár námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans 111 milljörðum króna en í fyrra voru þau 272 milljarðar, þar af 44 milljarðar í desember. Sitthvað fleira er þarna á ferðinni heldur en einungis afgangur af utanríkisviðskiptum, eins og svarta línan á myndinni hér að neðan gefur til kynna. Ef afgangur af utanríkisviðskiptum á árinu 2015, með áætlun greiningardeildar fyrir 4. ársfjórðung, er dregin frá gjaldeyriskaupum Seðlabankans eru ríflega 100 milljarðar sem hafa bæst við í forðann og skýrast af stórum hluta af annarskonar hreinu fjármagnsinnflæði,“ segir í umfjölluninni.
Vaxtamunarviðskipti erlendra aðila
Í greiðslujafnaðartölum fyrir 3. ársfjórðung 2015 mátti sjá talsverða erlenda fjárfestingu, einkum og sér í lagi í ríkisskuldabréfum, sem útskýrir að miklu leyti þennan mismun. Á síðasta ársfjórðungi er útlit fyrir að þessi mismunur hafi verið enn meiri, en Seðlabankinn keypti erlendan gjaldeyri að andvirði 75 milljarða á fjórðungnum, sem er nærri 60 milljörðum króna meira en við áætlum að hafi verið í afgang af utanríkisviðskiptum.
Þessi þróun er mikill viðsnúningur frá því sem áður var en fram til ársins 2014 keypti seðlabankinn erlendan gjaldeyri í mun minna mæli á meðan talsverður afgangur var af utanríkisviðskiptum.
Þessi miklu gjaldeyriskaup seðlabankans hafa orðið á sama tíma og krónan hefur verið að styrkjast, og inngrip seðlabankans hafa þá verið öðru fremur til að halda krónunni veikari en hún hefði ella verið.
Verðbólgudraugurinn ekki farinn á stjá
Peningstefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur býst við því að verðbólga muni aukast nokkuð á þessu ári, ekki síst vegna áhrifa kjarasamning, en á árinu 2015 var samið um launahækkanir á almennum og opinberum vinnumarkaði upp á 20 til 30 prósent yfir þriggja ára tímabil. Þetta telur Seðlabanki Íslands að sé nokkuð umfram framleiðnivöxt og því muni hækkanirnar skila sér í aukinni verðbólgu til lengri tíma litið.
Verðbólgan, sem mælist nú um tvö prósent, hefur ekki hækkað eins hratt og búist var við, á síðari hluta ársins í fyrra, og hefur þar spilað inn í að miklar lækkanir hafa einkennt hrávörumarkaði erlendis að undanförnu. Olía hefur lækkað mikið, sé horft til síðustu tólf mánaða, eða úr tæplega 110 Bandaríkjadölum í 37, þegar horft er til hráolíutunnunar. Þessar miklu lækkanir hafa áhrif á verðlag innfluttra vara, og þá til lækkunar að undanförnu.
En þegar fram í sækir, segir seðlabankinn að verðbólga muni hækka, en eins og alltaf þegar verðbólgumælingar á Íslandi eru annars vegar, þá er vandi að spá fyrir um þær til framtíðar litið.