Skörp lækkun hefur verið á hlutabréfamörkuðum að undanförnu, bæði erlendis og hér á landi. Eftir mikla ávöxtun í fyrra, þegar 43 prósent varð á hlutabréfamarkaði hér á landi, gætu aðrir tímar verið framundan á árinu sem nú er nýhafið.
Félögin sextán sem skráð eru í Kauphöll Íslands lækkuðu í verði í gær. Mest lækkaði Icelandair, alls um 4,10 prósent, í 1.250 milljón króna viðskiptum. Skammt á eftir kom Marel, en bréf í félaginu lækkuðu um 4,04 prósent.
Áhyggjur af Kína og minnkandi eftirspurn
Alls lækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 3,33 prósent á þessum eina degi. Frá áramótum hefur ávöxtun á markaðnum verið neikvæð um fimm prósent, sem allt annað og verra en árið í fyrra. Erlendis hafa rauðar tölur lækkunar verið áberandi víðast hvar, og má nefna að DAX vísitalan þýska, sem sögulega sveiflast náið með útflutningsiðnaðinum í Þýskalandi, hefur lækkað um nærri fjórtán prósent það sem af er ári. Í Kína og fleiri Asíuríkjum hafa lækkanir einnig verið áberandi, en að mati flestra þeirra sérfræðinga, sem vísað hefur verið til í fagfjölmiðlum á sviði viðskipta og efnahagsmála, þá fara áhyggjur fjárfesta af stöðu mála í Kína vaxandi. Minnkandi umsvif þar draga úr eftirspurn í heimsbúskapnum, sem grefur undan hagkerfum margra ríkja sem háð eru útflutningi til Kína.
Haftamarkaðurinn Ísland
En Ísland hefur ekki fylgt stöðu mála á erlendum mörkuð náið á undanförnum misserum, og munar þar meðal annars um að á Íslandi eru fáir erlendir fjárfestar inn á íslenskum hlutabréfamarkaði, enda markast aðstæður af fjármagnshöftum og hafa gert frá því þeim var komið á í nóvember 2008.
Langsamlega umsvifamestu fjárfestar á íslenska markaðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir, en fjárfestingaþörf þeirra nemur um 12 til 13 milljörðum króna á hverjum mánuði.
Nýlegar tilslakanir Seðlabanka Íslands, á höftunum til handa lífeyrissjóðunum, gefur þeim möguleika á því að fjárfesta erlendis í meira mæli. Hinn 8. janúar síðastliðinn tilkynnti Seðlabankinn um að lífeyrissjóðirnir gætu fjárfest erlendis fyrir 20 milljarða á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Í júlí í fyrra var lífeyrissjóðunum veitt undanþága til erlendrar fjárfestingar upp á tíu milljarða á sex mánuðum og dreifðist það yfir síðari helming ársins.
Landssamband lífeyrissjóða fagnaði þessu sérstaklega, og sagði þetta jákvætt skref í átt að því að losa um höftin enn frekar.
Sé miðað við heildarfjárfestingar lífeyrssjóðanna á mánuði, þá eru 20 milljarðar umtalsvert stór hluti af fjárfestingum þeirra til fjögurra mánaða, eða um 40 prósent. Ekki er ólíklegt að þessi tilslökun á höftunum geti valdið því til skemmri tíma að verulega dragi úr eftirspurn eftir hlutabréfum á Íslandi, með þá tilheyrandi lækkunaráhrifum. Sé horft sérstaklega til vikunnar sem liðin er frá því Seðlabankinn tilkynnti um tilslakanirnar frá höftunum, fyrir lífeyrissjóðina, þá hefur verð á hlutabréfum á Íslandi lækkað nokkuð skarpt. Erfitt er að segja til um hvort tilslökunin á höftunum hafi þessi áhrif beint, en ekki er hægt að útiloka það, enda hefur tilkynning bankans ein og sér áhrif á fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða.
Aðlögun framundan
Áformað er á þessu ári að losa um höftin enn meira, í samræmi við áætlun stjórnvalda og Seðlabanka Íslands þar um. Það mun taka tíma fyrir íslenskan fjármálamarkað að laga sig að breyttum og frjálsari aðstæðum, þegar losað verður um höftin. Lífeyrissjóðirnir, sem eru meðal stærstu hluthafa í nær öllum skráðum félögum á Íslandi, standa þá frammi fyrir krefjandi verkefnum um hvernig þeir stýra fjárfestingum sínum.
Í ljósi þess hversu stórt lífeyrissjóðakerfið er
á Íslandi, í samhengi við þjóðarbúið, mun miklu skipta hvernig ákveðið verður
að stýra fjárfestingum þeirra á komandi krefjandi tímum. Heildeignir
lífeyrissjóðanna í lok ársins námu 3.200 milljörðum króna, og jukust þær um
tæplega tíu prósent í fyrra, ekki síst vegna mikillar hækkunar á virði
innlendra hlutabréfa.