Við erum enn jafn furðulostin yfir þessu málverki eins og þegar fólk sá það fyrst í París 1863. Hvað er eiginlega að gerast á þessari mynd? Af hverju er konan nakin? Ef þú átt leið um París skaltu gera þér ferð á Orsay-safnið og upplifa undrið, eitthvert áhrifamesta og umdeildasta listaverk sögunnar: Le Déjeuner sur l´herbe eftir Manet. Málverk sem markar upphaf nútímalistarinnar.
Édouard Manet
Édourad Manet (1832-1883) vildi róta upp og ögra samtíma sínum með þessu verki og tókst það. Forsvarsmenn Paris Salon sýningarinnar, sem þá réðu öllu listalífi borgarinnar, höfnuðu myndinni. Gagnrýnendum fannst hún ruddaleg, skrítin, óskiljanleg, jafnvel klunnaleg, illa máluð og ókláruð. Fjarvíddinn gengur alls ekki upp, konan í bakgrunni er of stór og virðist svífa um í lausu lofti, skógurinn og skuggar er óraunverulegir og pensilstrokurnar grófar. En hún er heillandi og hún fékk fólk til að hugsa, sem var einmitt megintilgangurinn. Málverk sem veldur heilabrotum og örvar ímyndunaraflið. Manet vildi fá fólk til að hugsa – ekki bara horfa.
Þrátt fyrir að vera broddborgari var Manet uppreisnarseggur sem sagði sig frá hinu prúðbúna yfirstéttarlífi og gerðist leiðtogi, lærifaðir og stofnandi hinnar róttæku impressjónista-hreyfingar sem skorði samtíma sinn á hólm með nýjum og framúrstefnulegum verkum. Manet fór samt alltaf sínar eigin leiðir og fór því á skjön við sína eigin hreyfingu; vildi aldrei tilheyra einum eða neinum.
Heillandi , fagur, mælskur. Hann átti sviðið þegar hann gekk inn á Café Guerbois við Clichy breiðgötuna í París, þar sem ungt og róttækt fólk safnaðist saman í kringum hann og hlustaði á hvatningaræður hans um að kollvarpa þyrfti öllu í listalífinu og fara nýjar leiðir.
Nektin
Tveir fullklæddir og nakin kona sem horfir á okkur dularfullum augum. Fötin hennar liggja í grasinu. Var hún synda, baða sig eða er hún nýbúin að njóta ásta? Nestiskarfan er dottin um koll, ávextir og brauð hafa dreifst um jörðina. Og þessi dularfulla kona í bakgrunninum – er hún raunveruleg? Engill? Hlutföllin og litirnir stangast á við heildamyndina. Það er eins og þetta sé alls engin skógur, miklu frekar leikmynd eða þá einhvers konar draumur. Annar maðurinn er með vefjahött sem fólk gekk með innandyra á þessum árum, en aldrei úti.
Þetta er stór mynd – 208 x 264 sm – og hún er tilkomumikil, með miklar sögulegar, goðsögulegar og trúarlegar tilvísanir.
Og af hverju er konan nakin?
Margir voru hneykslaðir en rithöfundurinn Émile Zola kom vini sínum til bjargar og benti á að Louvre safnið væri uppfullt af slíkum myndum, þar sem fólk væri ýmist klætt eða nakið. Nekt væri ekki eitthvað nýtt í listasögunni. En hér var samt eitthvað nýtt á ferð – samhengið var annarskonar. Eitthvað dásamlegt blygðunarleysi í gangi; myndin fyndin og ögrandi, uppfull af frelsi og fjöri.
Impressjónistarnir vildi mála og lofsama lífið. Í stað þessa að mála guði og kónga máluðu þeir venjulegt fólk að skemmta sér, á barnum, að dansa. Verkin áttu að gera eitthvað annað og meira en varpa fram mynd – þau áttu að miðla hughrifum, stemningu, veðri, lykt, hljóðum, birtu. Listin átti að hrista upp í kollinum. Og þess vegna er konan nakin. Manet gaf aldrei neitt upp varðandi þessa mynd. Hún er skilin eftir handa áhofandanum.
Goðsögur og raunveruleikinn
Það er ýmislegt við þessa mynd sem bendir til þess að hún hafi skipt höfundinn verulegu máli. Landslagið minni á Ile Saint-Oeuen við Gennevillier, æskustöðvar Manet. Persónurnar á myndinni eiga sér augljósar fyrirmyndir. Manet notaði gjarnan módel þegar hann gerði myndir sínar og nakta konan er greinilega Victorine Meurent sem var í sérlegu uppáhaldi hjá honum og bregður líka fyrir í Olympíu, sem varð ekki síður umdeilt og frægt málverk. Maðurinn sem situr hægra meginn er Eguéne Manet, bróðir málarans og vinstra meginn situr síðan mágur hans, Ferdinand Leenhoff. Þetta er því fjölskyldumynd.
En hún sýnir ýmislegt fleira. Konuna gagnvart manninum, nekt og klæðnað, hið ljósa og bjarta gangvart hinu dökka og svarta (svarti liturinn var eftirlætis litur Manet, þótt hann hefði verið á bannlista impressjónistanna), staða konunna er ekki hin sama og mannanna. Ásjóna hennar og augntillit er óljóst: er hún að horfa á okkur, framhjá okkur eða í gegnum okkur?
Hádegisverðurinn í grasinu ruddi nýjar brautir, spengdi upp gömul viðmið. Myndin er uppslátturinn að nútímalistinni. Listin var farin að slíta sig frá yfirvaldinu, kirkjunni, ríkinu, yfirstéttinni og hætt að þjóna neinum, nema þá listinni sjálfri. Art pour la art. Verkið er samt með miklar rætur í fortíðinni. Manet sótti mikið í gömlu meistarana og var heillaðiur af ítölsku endurreisninni. Á þeim tíma öðluðust málarar frelsi til þess að mála eitthvað annað og meira en bara eintómar biblíumyndir og sóttu mikið í gríska goðsagnaheiminn. Þeir fóru að mála náttúruna, nektina, grófleikann og fegurðina, dauðann og lífið, fylltu málverkin sín af dularfullum tilvísunum.
Manet tileinkaði sér tækni og hugmyndir gömlu, ítölsku meistarana, sér í lagi Raphael og Titian. Sem nemandi í École des Beaux-Arts var hann vanur að teikna og mála verk þessara málara og kunni því verk og þeirra handbragð utanbókar.
Skógurinn, nektin, hádegisverðurinn – augljósar tilvísanir í þessa meistara: Dóm Parísar eftir Raphael, Sveitakonsertinn eftir Titian og Freistinguna eftir Giorgione. Verk sem öll voru til sýnis í Louvre-safninu.
Áhrif og viðtökur
Það er enn verið að þrasa og fjasa um Hádegisverðinn. Sumum finnst það niðurlægjandi fyrir konur. Finnst nakta konan vera vændiskona, leikfang þessara drukknu sprelligosa sem sitja hjá henni og gefa sig ekkert að henni. Hádegisverðurinn gæti vel verið sóðalegur fundur í Bois de Boulogne skóginum sem liggur vestan megin við París og hefur alla tíð verið þekktur fyrir vændisstarfsemi.
Aðrir tala hins vegar um að málverkið upphefji konuna, fegurðina og frelsið. Það sé einhver gegnum gangandi gleði í þessu málverki. Gagnrýnendur voru furðu lostnir og klóruðu sér í kollinum, ýmist yfir sig hrifnir eða hneykslaðir. Allir glímdu við gátuna miklu í verkinu: Af hverju eru konan nakin?
Það er hver í sínum heimi á þessari mynd. Mönnunum virðist standa á sama um nekt konunnar. Hvert og eitt þeirra horfir í sína átt, engin tengsl eða samskipti. Engin ástæða, bara eitthvert kæruleysislegt flipp eins og málarinn vilji koma þessum einu, einföldu skilaboðum áleiðis: Það er gaman að vera til! Maðurinn að leika sér í náttúrunni. Að borða, baða sig, elskast, leika sér. Myndin á samt ekki að boða eða vísa í neitt – hún er bara það sem hún er. Og ekkert annað. Það voru boðorð Manet sem smituðu síðan næstu kynslóðir sem eftir komu.