Eftir miklar lækkanir á mörkuðum í gær, þar sem tölur sáust sem sjaldan sjást þegar þróun mála á einum degi er annars vegar, þá er annað uppi á teningnum í dag. Framan af degi voru flestar tölur rauðar, og áframhaldandi lækkun á hlutabréfum og olíu í kortunum. Hlutabréf á helstu þróuðu mörkuðum heimsins féllu um að meðaltali 3,3 prósent í gær, samkvæmt fréttum Wall Street Journal, og verð á hráolíu féll um sext prósent.
Draghi til bjargar
Um miðjan dag í dag, skömmu fyrir 14:00, birtist yfirlýsing frá Maro Draghi, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, þar sem opnað var á þann möguleika að bankinn myndi grípa til örvunaraðgerða í mars næstkomandi, með fjárinnspýtingu á mörkuðum og útfærðum aðgerðum til að bæta verðbólguskilyrði og örva hagvöxt í Evrópu.
Þessar fréttir fóru eins og eldur í sinu um markði, og unnu augljóslega gegn frekari lækkunum. Svo virðist markaðir hafi verið í mikilli þörf fyrir „róandi“ skilaboð frá seðlabönkum, og því var þessum annars óljósu tíðindum frá Draghi vel tekið. Áhrifin á markaði eru lík þeim sem áttu sér stað á árunum 2010 og 2012, þegar Seðlabanki Evrópu tilkynnti um örvunaraðgerðir til að ýta undir aukinn hagvöxt.
Dagslækkunin á olíu gengið til baka
Olíuverð þaut upp, og hefur lækkunin frá því í gær, um sex prósent, að mestu gengið til baka í dag. Verðið er nú rúmlega 29 Bandaríkjadalir á tunnuna. Fyrir fimmtán mánuðum var það í 115 Bandaríkjadölum, svo lækkunin hefur verið hröð og mikil, rúmlega 70 prósent. Spár gera jafnvel ráð fyrir því, að tunnan geti fari í 20 dali á þessu ári.
Undirliggjandi ótti
Þrátt fyrir miklar sveiflur á verðbréfa- og eignamörkuðum í byrjun ársins, hálfgerða rússíbanareið, þá er ekki víst að yfirlýsingar seðlabanka um að gripið verði til örvunaraðgerða muni stuðla að tiltrú hjá fjárfestum til lengdar.
Sérstaklega eru það veikar hagvaxtartölur í Kína sem valda áhyggjum, en þar er nú minnsti hagvöxtur sem mælst hefur í aldarfjórðung, um sjö prósent í fyrra. Þá eru einstakir geirar í hagkerfinu, sem skipta mörg viðskiptalönd í Evrópu miklu máli, einnig með dökkar horfur. Bílasala er minni en spár gerðu ráð fyrir, miklar sveiflur hafa einkennt verðbréfamarkaði og fasteignamarkaðurinn er að ganga í gegnum mikla dýfu, frá því sem áður var. Mörgum kann að finnast það einkennilegt, að sjö prósent hagvöxtur sé merki um að eitthvað sé að í Kína, en þannig er það nú samt, þar sem þetta fjölmennasta ríki heimsins, með 1,4 milljarða íbúa, er að ganga í gegnum miklar innviðabreytingar sem kalla á mikinn hagvöxt. Og það sama má segja um aukningu á alþjóðlegum viðskiptum, sem hefur verið nær stanslaus í aldarfjórðung.
Vandamál hrannast upp
Ríki sem eiga mikið undir olíuviðskiptum, eins og Brasilía, Noregur, Rússland og Nígería, eru nú að ganga í gegnum misjafnlega djúpar efnahagslægðir. Í Noregi hefur dregið úr eftirspurn og samdráttur í olíuiðnaði í landinu er þegar orðinn töluverður. Í ljósi þess hve þjónusta við olíuframleiðslu er stór atvinnuvegur í Noregi, með meira en 30 þúsund starfsmenn, þá má gera ráð fyrir að þetta ár muni einkennast af hagræðingu og samdrætti í þeim anga hagkerfisins. Það kemur ekki síst við Rogaland, þar sem Stavanger er stærsta borgin. Statoil er með höfuðstöðvar sínar þar, og mörg fyrirtæki í olíuiðnaði sömuleiðis. Rúmlega fimm þúsund Íslendingar búa á því svæði, af um tíu þúsund Íslendingum sem búa í Noregi.Flestar spár gera ráð fyrir að þrengingar séu framundan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á þessu ári, en eins og ávallt þá er erfitt að sjá fyrir hvernig skammtímasveiflurnar verða á næstunni.