Um 1,8 milljarður manna á heimsvísu tilheyrir ungu kynslóðinni (15 til 30 ára), sem fyrirtæki eiga í mestu vandræðum með að skilja hvernig hugsar í stórum dráttum, og í stjórnmálunum virðist margt benda til þess að unga fólkið geti valdið straumhvörfum. Hefðbundin stjórnmál eru ekki ofarlega í huga þeirra en þeim mun meiri áhugi er á því að ýta undir samfélagsbreytingar.
Snjalltæki og fjárhagslegar hörmungar
Þetta er meðal þess sem kemur fram í sérútgáfu The Economist um stöðu ungs fólks og hvernig það horfir á áskoranir samtímans. Fram kemur í ítarlegri umfjöllun ritsins að fólk á þessum aldri eigi ekki allt sameiginlegt, einkum þegar kemur að tækifærum og félagslegri stöðu, sem sé breytileg eftir löndum og ríkjum, en eitt sameini þennan hóp fólks. Það er alið upp á öld snjalltækja og í skugga alþjóðlegra fjármálahörmunga (Global financial disaster).
Undir smásjánni
Út frá þessu sameiginlega einkenni sé hópurinn undir smásjánni hjá ráðgjöfum, sem reyni allt til að greina hvernig sé best að virkja þennan hóp til þátttöku í hinum ýmsum markaðsaðgerðum. Þetta hafi mörgum reynst erfitt, enda þessi mikla samfélagslega breyting, sem kalla má upplýsingabyltingu, í reynd rétt að festa rætur. Ýmsir halda því síðan fram, sú mikla fjárhagslega rússíbanareið sem heimurinn hefur verið að ganga í gegnum á undanförnum árum, sé rétt að byrja.
Kúguð af þeim eldri
Í leiðara sérritsins er sérstaklega tekið fram, að einblínt sé á þennan aldurshóp í þróuðum ríkjum, þar sem 85 prósent af honum er búsettur. „Við munum rökstyðja, að þessi hópur sé um margt kúgaður af þeim eldri, sem reyni að halda aftur af honum,“ segir í leiðaranum. Ólíkt mörgum öðrum „kúguðum“ minnihlutahópum þá vilji enginn valda hópnum skaða, en með stefnumörkun sé verið að gera hópnum erfitt fyrir.
Erfið staða en mikil þekking
Til dæmis hafi innkoma á vinnumarkað sjaldan verið erfiðari, meðal annars vegna þess að fyrri kynslóðir hafi lagt mikið upp úr því að hinir eldri gangi fyrir í störf, óháð hæfi til þess að gegna þeim. Víða séu umtalsverðar líkur á því að fólk á þessum aldri verið atvinnulaust og sitji uppi með miklar skuldir. Samt búi þau yfir hæfileikum til að ná leiftursnöggt í allar heimsins upplýsingar í gegnum snjallsíma sína, og þá sýni greining á skólaprófum að þessu aldurshópur standi fyrri kynslóðum framar þegar kemur að almennri þekkingu og hæfni til að takast á við ýmis vandamál.
Áhyggjuefni í Evrópu
Sérstaklega er vikið að því í sérritinu að atvinnuleysi víða í þróuðum ríkjum Evrópu sé ískyggilega hátt hjá fyrrnefndum aldurshópi, eða á milli 25 og 50 prósent. Minnst norðarlega í álfunni en mest í ríkjunum sunnar í álfunni. Á Spáni og Portúgal hefur atvinnuleysi hjá þessum hópi lengi verið yfir 40 prósent, og eru þegar komin fram merki um að ungt fólk sæki kerfisbundið út fyrir landamærin til að freista gæfunnar, þar sem fyrirsjáanlegt er að tækifæri séu af skornum skammti heima fyrir. En í Evrópu er víða mikil samkeppni um störf hjá þessum aldurshópi, og því er oft stóra spurningin hvert skuli haldið.
Ísland að upplifa svipuð áhrif?
Þó ekki sé sérstaklega vikið að stöðu mála á Íslandi hjá þessum aldurshópi, þá má greina miklar breytingar hjá þessum hópi miðað við fyrri kynslóðir. Ekki síst þegar kemur að viðhorfum til stjórnmála. Nýjustu kannanir á fylgi stjórnmálaflokkanna benda til þess að yngsti aldurshópur kjósenda, 18 til 29 ára, forðist gömlu hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og fylki sér að baki Pírötum, sem boða helst þann boðskap að „breyta kerfinu“, eins og Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður flokksins, sagði í áramótaþætti Vikunnar á RÚV, og að færa valdið til fólksins með beinu lýðræði. Yfir helmingur ungs fólks styður Pírata, samkvæmt nýjustu könnun MMR, og Píratar mælast með ríflega 37 prósent fylgi.
Þessi viðhorf virðast tóna vel við þá mynd sem The Economist fjallar um, þar sem unga kynslóðin tengir síður við íhaldssamar skoðanir til mannlífsins, heldur leitar nýjustu upplýsinga – nánast alveg um leið – og mótar sér sýn á málin út frá því, alveg óháð stefnum stjórnmálaflokkanna.
Spekilekinn
En Ísland sker sig verulega frá mörgum öðrum ríkjum, þar sem atvinnuleysi hjá þessum aldurshópi er mun hærra í nær öllum öðrum ríkjum, enda atvinnuleysi hér á landi með allra lægsta móti, í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysi mældist tvö prósent í desembermánuði en meðaltalið í Evrópu er yfir 10 prósent, og mun hærra í yngsta aldurshópnum.
Líkindi eru þó með öðrum þáttum sem til umfjöllunar eru, eins og spekileka (braindrain) ungs menntaðs fólks sem mörg ríki Evrópu eru nú farin að finna fyrir. Til þess að Ísland geti haldið vel í þennan hóp fólks, til framtíðar litið, þarf atvinnulífið að framþróast í takt við þarfir hans og menntun. Annars verður tækifæra leitað annars staðar, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum heima fyrir.