1 – Íslenska ríkið hefur rekið einkasölu áfengis hérlendis frá árinu 1922, en þá hét fyrirtækið ÁVR. Tóbakseinkasala ríkisins tók til starfa 1932 og fyrirtækin voru sameinuð árið 1961 undir nafninu Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR).
2 - ÁTVR er risastórt fyrirtæki. Ársverk hjá því voru 684 talsins á árinu 2014, en stór hluti þess starfsfólks er í hlutastarfi. Þorri starfsfólks ÁTVR vinnur í Vínbúðum fyrirtækisins eða við umsýslu áfengis. Heildarlaunakostnaður fyrirtækisins á ári (2014) er 1,7 milljarðar króna. Mest munaði um laun forstjórans Ívars J. Arndal, en árslaun hans námu 16,5 milljónum króna.
3 – Árið 2011 voru sett ný lög um verslun með áfengi á Íslandi. Lögin hafa þrjú markmið: að skilgreina umgjörð um smásölu og heildsölu áfengis og tóbaks sem „byggist á bætri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð“, að stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum af neyslu þeirra og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og „takmarka framboð á óæskilegum vörum“.
4 – ÁTVR er einn stærsti smásali á Íslandi. Fyrirtækið rekur 50 verslanir um land allt, þar af þrettán á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1986 rak fyrirtækið 13 verslanir. Fjöldi þeirra hefur því tæplega fjórfaldast á 30 árum. Til samanburðar rekur Bónus, sem er með 39 prósent markaðshlutdeild á dagvörumarkaði, 31 verslanir um land allt.
5 – Á undanförnum árum hefur þjónusta ÁTVR við neytendur aukist mjög umfram fjölgun verslanna. Nafni verslanna fyrirtækisins var breytt í Vínbúðin og þær eru nú opnar mun lengur en áður var. Auk þess hefur vöruframboð margfaldast á undanförnum árum. Í lok árs 2014 voru í boði 2.617 vörutegundir. Margar Vínbúðir eru nú opnar til 20:00 á virkum dögum og til klukkan 18:00 á laugardögum. Aðgengi almennings að áfengi hefur því aukist gríðarlega á undanförnum árum og áratugum og vöruframboð stóraukist sömuleiðis.
6 – Áfengisauglýsingar eru bannaðar með lögum. Vínbúðin má hins vegar auglýsa sig svo lengi sem að áhersla sé lögð á samfélagslega ábyrgð í auglýsingunum. Á undanförnum árum hafa slíkar auglýsingar, þar sem fólk er minnt á að muna eftir skilríkjum sínum(bannað er samkvæmt lögum að selja fólki undir 20 ára áfengi), birst ítrekað í völdum fjölmiðlum.
7 – Rekstrartekjur ÁTVR voru 28,6 milljarðar króna á árinu 2014 og jukust um 1,2 milljarða króna á milli ára. Af þeim runnu 23,7 milljarðar króna til ríkissjóðs vegna tóbaksgjalds (5,7 milljarðar króna), áfengisgjalds (9,2 milljarðar króna), virðisaukaskatts (7,3 milljarðar króna) og arðgreiðslu (1,4 milljarðar króna). Það þýðir að um 83 prósent allra tekna ÁTVR renna í ríkissjóð. Allar þessar tekjur myndu skila sér þangað óháð því hver það væri sem seldi áfengi og tóbak, utan arðgreiðslunnar, enda eru álögur á áfengi á Íslandi þær hæstu í Evrópu að Noregi undanskildum.
8 – Tveir þriðju hlutar allra rekstrartekna ÁTVR, alls 19,1 milljarðar króna (2014), koma til vegna sölu áfengis. Tekjur vegna tóbakssölu voru 9,5 milljarðar króna. Vörunotkun tóbaks var átta milljarðar króna árið 2014 og af henni var 5,7 milljarðar króna tóbaksgjald sem greiðist til ríkisins. Þegar vörugjöld hafa verið dregin frá tekjum ÁTVR af tóbakssölu stendur eftir 1,5 milljarður króna. Tóbakssalan fer fram í gegnum mjög hagkvæma miðlæga tóbakssölu þar sem vörur eru að mestu pantaðar rafrænt og sóttar á sama stað. Engin tóbakssmásöluverslun er rekin heldur er einungis um heildssölu að ræða. Því sýnir einfaldur hugarreikningur að miklar líkur séu á því að arðgreiðslan sem greidd er til ríkisins árlega (1,4 milljarðar króna árið 2014) sé greidd af hagnaði vegna tóbakssölu. Sé það rétt er ljóst að áfengissala ÁTVR er niðurgreidd af tóbakssölunni. Þetta var m.a. niðurstaða greiningar fyrirtækisins Clever Data á rekstri ÁTVR sem birt var í maí 2015.
9 – ÁTVR hefur aldrei viljað upplýsa um hver aðskilin kostnaður á tóbaks- og áfengissölu sé. Rekstrarkostnaður hvors fyrir sig er einfaldlega ekki skilgreindur sérstaklega í bókhaldi fyrirtækisins og stjórnendur ÁTVR hafa ekki viljað svara fyrirspurnum Kjarnans um hver kostnaður fyrirtækisins vegna sölu á tóbaki væri.
10 – Engin stjórn er yfir ÁTVR, sem skilgreind er sem stofnun samkvæmt lögum.
Slík hefur ekki verið til staðar í nokkur ár heldur heyrir stofnunin beint undir fjármála- og efnahagsráðherra. Yfirstjórn fyrirtækisins, sem samanstendur af Ívari J. Arndal forstjóra og framkvæmdastjórum, tekur þess í stað ákvarðanir tengdar rekstri ÁTVR. Fyrirtækið sker sig þannig frá öðrum stórum fyrirtækjum í opinberri eigu, eins og til dæmis orkufyrirtækjum, þar sem eigandinn kemur ekki að beinni stjórn þess.