Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) hefur á undanförnum árum minnkað efnahaginn umtalsvert með eignasölu, en sé miðað við stöðu mála hjá félaginu eins og hún var um mitt ár í fyrra, þá átti félagið 200,8 milljarða króna eignir.
Síðan þá hefur eignasala haldið áfram og minnkun efnahagsins samhliða, að því er fram kemur í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurnum Kjarnans um stöðu ESÍ og eignasamsetningu þess. „Frá stofnun hefur eitt af meginhlutverkum ESÍ hefur verið að lýsa kröfum, fullnusta veð og ná utan um og viðhalda eignasafninu. Undanfarin ár hefur jafnframt markvisst verið unnið að því að draga saman efnahag ESÍ. Að stórum hluta hefur það gerst með sölu eigna en stærsta einstaka skrefið var sala á sértryggðum skuldabréfum í eigu ESÍ til ÍLS síðastliðið haust. Aðrar eignir sem seldar hafa verið á undanförnum árum voru eignarhlutir í FIH og Sjóvá. Aðrar eignasölur hafa verið mun minni, þar með talið skráð skuldabréf sem seld hafa verið á markaði og oftast nær í frekar litlum skömmtum til að hafa sem minnst áhrif á markaðinn. Frá stofnun félagsins í upphafi árs 2010 hefur efnahagur þess dregist saman um 290 milljarða króna að miðju ári 2015. Síðan þá hefur salan til ÍLS bæst við auk þess sem hluti fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem ESÍ á kröfur á hafa lokið slitameðferð með nauðasamningum eða gjaldþroti, og byrjað að greiða út til kröfuhafa í kjölfarið,“ segir í svari Seðlabanka Íslands.
Seðlabankinn vonast til þess ESÍ verði lagt niður á þessu ári, og má þá segja að lokapunktur verði settur við umfangsmikla eignaumsýslu Seðlabanka Íslands, sem rekja má til hruns fjármálakerfisins, og neyðarlagasetningar Alþingis, haustið 2008.
Hætt við sölu
Hætt hefur verið við sölu á öllum eignum Hildu, dótturfélags Eignasafn Seðlabanka Íslands, þar sem ekkert ásættanlegt tilboð þótti berast í eignirnar, eins og fram kom á vef Kjarnans 27. janúar síðastliðinn.
Fjórir fjárfestahópar gengu til viðræðna um kaup á öllum eignum Hildu, dótturfélags Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ). Hóparnir fjórir voru settir saman af fjármálafyrirtækjunum Arctica Finance, Virðingu, Kviku fjárfestingarbanka (sameinaður banki Straums og MP banka) og ALM Verðbréfum, að því er greint var frá í DV 4. desember.
Hilda er hluti af stóru eignasafni ESÍ, og á 364 fasteignir sem bókfærðar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna.
Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 manns, samkvæmt ársreikningi. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu. Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra.
Mest í skuldabréfum og langtímakröfum
Af um 200,8 milljarðaheildareignasafni, miðað við stöðu mála um mitt ár í fyrra, voru 106 milljarðar í skuldabréfum og langtímakröfum, eða ríflega helmingur af heildareignum. Kröfur á fjármálafyrirtæki voru metnar á 67,7 milljarða króna, innstæður námu 9,6 milljörðum og hlutabréfaeign var metin á 610 milljónir. Þá nam tekjuskattsinneign félagsins 1,4 milljarði, að því er fram kemur í svari Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans.
Sérstaklega er tekið fram að minnkun efnahagsins hafi ekki eingöngu farið fram með eignasölu, heldur hafi skuldir einnig verið greiddar upp. „Efnahagur ESÍ hefur ekki eingöngu dregist saman vegna eignasölu.
Hluti eigna félagsins hafa verið skuldabréf og langtímakröfur á starfandi
fyrirtæki og af þeim hafa verið greiddar afborganir og einhverjum tilfellum
verið greitt inn á þessar skuldir eða þær greiddar upp, ýmist með samkomulagi
eða samkvæmt skilmálum,“ segir í svarinu.
Kjarninn óskaði eftir því í fyrirspurnum til Seðlabankans, að fá nákvæmlega útlistað hvaða eignir ESÍ ætti, væri með til sölu og hefði selt, þar á meðal nákvæma útlistun á fasteignasafni sínu og eftir atvikum öðrum eignum. Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um hvaða aðilar hefðu keypt eignir félagsins þegar þær voru seldar. Upplýsingarnar sem hér fylgja, voru þær sem Seðlabankinn veitti.