1 - Listamannalaun eru laun, eða styrkur, sem Alþingi veitir af fjárlögum til sjálfstætt starfandi listamanna. Tilgangurinn er að efla listssköpun í landinu og launa listamenn í samræmi við lög. Launin eru veitt úr sex sjóðum: launasjóðum hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda.
2 - Alþingi veitti fyrstu skáldalaunin árið 1891 og lagði þannig grunninn að reglulegum styrkveitingum til listamanna. Næstu áratugina á eftir myndaðist ákveðin hefð um úthlutun listamannalauna en ákvarðanir Alþingis og úthlutunarnefnda voru ætíð umdeildar, er fram kemur í ritgerð Óskars Völundarsonar frá 2013. Mikil umræða skapast iðulega ár hvert þegar launþegar eru gerðir opinberir og er árið í ár engin undantekning.
3 - Listamannalaun eru greidd mánaðarlega. Þau sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur skulu ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur.
4 - Í ár fengu 378 listamenn listamannalaun (þar af 78 í 14 sviðslistahópum) og er það aukning um 20 prósent frá því í fyrra. Þá bárust 769 umsóknir frá einstaklingum og hópum um laun eða ferðastyrki og 267 fengu.
5 - Starfslaun listamanna eru 351.400 krónur á mánuði.
6 - Ákvarðanir úthlutunarnefnda byggja á umsóknum. Varða þær listrænt gildi þeirrar vinnu sem sótt er um laun fyrir, greinargerð um vinnuna, tímaáætlun, náms- og starfsferil umsækjanda sem og verðlaun og viðurkenningar.
7 - Listamannalaun eru skattskyld og flokkuð sem verktakagreiðslur sem listamenn fá greidd einu sinni í mánuði.
8 - Erla Þórarinsdóttir myndlistarkona er eini listamaðurinn 2016 sem fékk úthlutað launum í 24 mánuði, sem er lengsti tíminn.
9 - Meira en helmingur Íslendinga eru fylgjandi listamannalaunum, eða 53 prósenr, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR. Stuðningur hefur aukist frá árinu 2010, þegar 39 prósent voru fylgjandi.
10 - Mjög skiptar skoðanir eru varðandi listamannalaun þegar litið er til stuðnings stjórnmálaflokka. 77 prósent þeirra sem styðja Framsóknarflokk eru andvíg þeim og 68 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokk. Hins vegar eru um 80 prósent þeirra sem styðja Samfylkingu og Vinstri græn fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun.