Samstæðuársreikningur VÍS fyrir árið 2015 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í dag, en meðal þess sem var ákveðið, var að gera kröfu um fimm milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins í fyrra. Hagnaður félagsins nam rúmlega tveimur milljörðum króna, samanborið við 1,2 milljarða árið 2014.
Arðgreiðslutillaga stjórnar á árinu 2016 tekur mið af markmiði um gjaldþolshlutfall og nemur kr. 2,17 á hlut, sem er eins og áður segir um fimm milljarðar króna.
Stjórn VÍS hefur sett félaginu markmið um áhættuvilja með vikmörkum sem auðveldar stýringu á heildaráhættu félagsins, að því er segir í tilkynningu til kauphallar. Markmið um gjaldþolshlutfall er 1,50 með neðri mörkum 1.35. Gjaldþolshlutfall eftir arðgreiðslu er 1,55.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segist í tilkynningu til kauphallar vera ánægð með reksturinn á síðasta ári. „Rekstur félagsins á árinu 2015 gekk vel og var hagnaður af rekstri tæpir 2,1 milljarðar króna. Ánægjulegt er að sjá að ágætur vöxtur var í innlendum iðgjöldum og hækkuðu bókfærð iðgjöld um 5,8 prósent á árinu. Þrátt fyrir iðgjaldavöxt er vöxtur í tjónatíðni áhyggjuefni og það verður áfram áskorun að ná ásættanlegri afkomu af mörgum greinaflokkum vátrygginga. Samsett hlutfall á árinu 2015 var 101,5 prósent en markmið félagsins er að vera með samsett hlutfall undir 100 prósent,“ segir Sigrún Ragna. Góð afkoma á árinu skýrist öðru fremur af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna. Fjárfestingastarfsemin gekk vel á árinu og er jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum. Ávöxtun skuldabréfa var góð og eins skilaði innlenda hlutabréfasafn félagsins góðri afkomu,“ segir Sigrún Ragna.
Í tilkynningunni kemur enn fremur fram á að ávöxtun erlendra eigna hafi valdið vonbrigðum.
Arðsemi eigin fjár fyrirtækisins nam 11,3 prósentum en hún hefði verið nokkru hærri, eða 17,5 prósent, ef ekki hefði komið til niðurfærslu á óefnislegum eignum.
Heildareignir VÍS námu 44,8 milljörðum króna í lok árs og skuldir voru um 27,3 milljarðar. Hlutfall auðseljanlegra eigna í eignasafni félagsins var 73,7% um áramótin, þar af eru 29,1 prósent í ríkisskuldabréfum og handbæru fé.
Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund þann 16. mars 2016 til staðfestingar.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi VÍS með 9,27 prósent hlut.