1 - Búvörusamningarnir eru samningar ríkisins við bændur. Þeir snúa bæði að landbúnaðarlögum og starfsskilyrðum við framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða. Nýjustu samningarnir eiga að gilda í tíu ár, til 2026, en möguleiki er gefinn fyrir endurskoðun á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Fulltrúar ríkis og bænda undirrituðu samningana í síðustu viku, 19. febrúar.
2 - Um er að ræða fjóra samninga: Rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju.
3 - Samningarnir eiga eftir að fara fyrir Alþingi til samþykktar, þó að gert sé ráð fyrir fyrstu fjárhæðinni í fjárlögum þessa árs, um 900 milljóna króna útgjaldaaukningu til greinarinnar. Samkvæmt atvinnuvegaráðuneytinu er helsta ástæða aukningarinnar framlag vegna innleiðingar á reglugerðum um velferð dýra, innflutningur á nýju erfðaefni af holdnautastofni, aukinn stuðningur við lífræna ræktun og aukin fjölbreytni í landbúnaði. Í samningunum er ákvæði sem segir að þeir séu gerðir með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem leiða af ákvörðun Alþingis.
4 - Með samningunum er stefnt að því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt verði lagt niður. Hins vegar hefur verið ákveðið að halda núverandi stöðu óbreyttri um einhvern tíma og setja ákvörðun um afnám kvótakerfisins í atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019.
5 - Greiðslur samkvæmt samningunum nema um 13,8 milljarða króna árið 2017 en enda í 12,7 milljörðum króna árið 2026 við lok samnings. Þetta gera um 132 milljarða alls á samningstímanum.
6 - Búvörusamningarnir eru verðtryggðir. Árleg framlög miðast við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016, en taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður hins vegar önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu skal leiðrétta mismuninn í fjárlögum næsta árs. Hér er því um eins konar tvöfalda verðtryggingu að ræða, samkvæmt Hagsjá Landsbankans.
7 - Gagnrýni hefur komið fram varðandi samningana að hagsmunir neytenda séu hundsaðir. Íslenskir neytendur borguðu átta milljörðum krónum meira fyrir mjólkina sem þeir neyttu árin 2011 til 2013, ef mjólkin hefði verið flutt inn. Framleiðslukostnaður mjólkur á þessum árum var metinn 15,5 milljarða, en innflutningur á samskonar mjólk hefði kostað 7,5 milljarða.
8 - Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Bjarnason þingmaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, hafa gagnrýnt samningana harðlega. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur svarað fyrir gagnrýnina og segir „málið frá”.
9 - Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna samningana harðlega. Óljóst sé hvernig almenningur muni njóta góðs af þeim og með þeim sé verið að viðhalda einokun á mjólkurmarkaði. Félag kúabænda fagnar þeim og segir þá styrkja stöðu bænda.
10 - Beingreiðslur til garðyrkjubænda skiptast á milli þriggja framleiðslutegunda; tómata (49%), gúrkna (37%) og paprika (14%). Beingreiðslur verða greiddar til framleiðenda á eigin framleiðslu á afurðunum til að jafna samkeppnisskilyrði gagnvart innflutningi. Upphæðin miðast við selt magn afurða af fyrsta gæðaflokki innan ársins.