Þær eignir sem íslenska ríkið mun fá afhent sem stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu bankanna, utan Íslandsbanka, munu ekki renna til félags í eigu Seðlabanka Íslands. Þess í stað munu þær fara til félags sem mun heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar við breytingartillögu á frumvarpi um stöðugleikaframlag. Ein af ástæðunum fyrir því að þrýst var á um þessar breytingar var hið svokallaða Borgunarmál, þar sem hlutur ríkissbankans Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun var seldur á bakvið luktar dyr til hóps stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra. Síðar kom í ljós að virði hlutarins var margfalt meira en það var áætlað við söluna.
Félagið sem stofnað verður mun fá til sín eignir sem metnar eru á bilinu 60 til 80 milljarða króna. Það á síðan að koma þeim eignum í verð og skila afrakstrinum til ríkissjóðs. Það var því mat nefndarmanna að tryggja þyrfti gagnsæi og jafnræði þegar eignirnar yrðu seldar, og eru breytingarnar sem boðaðar eru í nefndarálitinu meðal annars til þess ætlaðar. Allir nefndarmenn utan við einn skrifa undir álitið, en fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni gerði það með fyrirvara.
Borgunarmálið hafði klár áhrif
Í nefndarálitinu, sem birt var í dag, segir að „veigamikil rök“ hafi komið fram fyrir því að félagið ætti ekki að vera á forræði Seðlabanka Íslands heldur að heyra beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Aðspurður um hvaða rök þetta séu segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að þau séu margskonar. „Það komu til að mynda ábendingar frá Seðlabankanum um að þetta félli ekki vel að starfsemi hans. Þá hefðu verið gerðar kröfur um fullt skaðleysi stjórnenda og töluvert mikil leynd myndi hvíla yfir fullnustu eignanna. Okkur þingmönnunum þótt ekki gott að það myndi myndast ábyrgðartómarúm.“
Frosti segir einnig að Borgunarmálið hafi haft klár áhrif á meðferð málsins. Það hafi sýnt fram á nauðsyn þess að vita hvar ábyrgð lægi, að það yrði alveg á hreinu að útboðsskylda yrði á öllum eignum sem seldar yrðu og að hæfi stjórnarmanna sem skipaðir yrðu yfir félagið myndi metast eftir skýrum skilyrðum. Hann segir einnig að félagið sem stofnað verður um umsýslu eignanna muni falla undir upplýsingalög. Því eiga fjölmiðlar og almenningur að geta kallað eftir upplýsingum um starfsemi þess ef vilji er til.
Verður risastórt félag
Um verður að ræða risastórt félag. Virði eignanna sem munu renna inn í það, sem afhentar voru ríkinu í stöðugleikaframlögum slitabúa föllnu bankanna, verður á bilinu 60 til 80 milljarðar króna, að sögn Frosta. Félagið sjálft mun ekki eiga eignirnar heldur ríkið. Það mun fullnusta þær og þegar búið verður að umbreyta þeim í laust fé mun það undantekningarlaust renna inn á lokaðan reikning í Seðlabankanum.
Allt hlutafé í Íslandsbanka, sem er stærsta einstaka stöðugleikaframlag föllnu bankanna, mun renna til Bankasýslu ríkisins,ekki inn í hið fyrirhugaða eignarumsýslufélag. Aðrar eignir sem ríkinu verða afhentar munu hins vegar rata þangað.
Frosti segir að góð eining hafi verið um þessa leið innan nefndarinnar. „Eftir að hafa skoðað alla valkosti, að hafa þetta inni í ráðuneytinu, að setja þetta mögulega í systurfélag Bankasýslunnar, nokkurs konar eignasýslu, eða hafa þetta áfram inni í Seðlabankanum var ákveðið að þetta væri besta leiðin. Að hafa eignaumsýsluna í sérstöku félagi undir fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þá verður ábyrgðarkeðjan skýrari. Það verður líka til armslengd með því að ráðherrann skipar stjórn félagsins sem síðan ræður starfsfólk.“
Gert er ráð fyrir því að 150 milljónum króna verði varið í að stofna félagið, meðal annars vegna ráðgjafar í tengslum við mat, auglýsingar, lögfræðiþjónustu „og þar fram eftir götunum“.
Kúvending á tveimur og hálfum mánuði
Þetta er umtalsverð breyting frá upprunalegri áætlun stjórnvalda um hvernig ætti að fullnusta stöðugleikaframlögin. Þann 11. desember síðastliðinn lagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Sú breyting sem átti að gera var í raun ekki flókin. Með henni átti Seðlabanka Íslands að verða gert kleift að stofna félag sem tæki við stöðugleikaframlögum föllnu bankanna. Um yrði að ræða viðbótarbreytingu á lögum við breytingar sem gerðar voru sumarið 2015, í kjölfar þess að stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta.
Nokkrum dögum áður en þingi var slitið í desember síðastliðnum, þegar slitabúin voru hvert af öðru að gera sig tilbúin til að greiða stöðugleikaframlögin, var lagt fram frumvarp sem hafði þann tilgang að skýra með ítarlegri hætti heimildir og skyldur þeirra sem að ferlinu koma frá því að stöðugleikaframlögin eru mótttekin og þar til að þau eru seld eða þeim ráðstafað með öðrum hætti.
Samkvæmt því átti félag í eigu Seðlabankans að verða falið að „annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, í stað þess að ráðherra sé heimilt að fela „sérhæfðum aðila sem starfar í umboði bankans“ verkefnin.“
Samkvæmt breytingartillögunni hefur verið fallið algjörlega frá þessari áætlun, sem lögð var fram fyrir rúmum tveimur og hálfum mánuði síðan.