1 - Íslensku viðskiptabankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki voru búnir til haustið 2008 eftir hrun bankakerfisins. Inn í þá voru settar eignir úr slitabúum fallina forvera þeirra og innlendar innstæður. Enn þann dag í dag, sjö og hálfu ári eftir stofnun þeirra, eru innstæður almennings uppistaðan í fjármögnun þeirra. Samanlagt nema innstæður frá viðskiptavinum þeirra allra 1.622 milljörðum króna, eða rúmlega 65 prósent af samanlögðum skuldum bankanna. Þegar innstæður Seðlabanka Íslands, sem er hluti af ríkinu, og annarra fjármálastofnanna, sem eru að mestu í ríkiseigu, er bætt við hækkar þetta hlutfall enn frekar.
2 - Bankarnir þrír hafa samtals hagnast um 477,7 milljarðar króna frá árslokum 2008. Mestur var samanlagður hagnaður þeirra í fyrra, þegar þeir högnuðust samtals um tæpa 107 milljarða króna. Frá því að þeir voru endurreistir á nýrri kennitölu hafa bankarnir þrír greitt 129,4 milljarða króna í arð til eigenda sinna. Þorri þeirrar upphæðar hefur runnið til íslenska ríkisins þar sem Landsbankinn, sem er í eigu þess, hefur greitt út 82,6 milljarða króna í arð á síðustu árum. Ríkið hefur auk þess átt hluti í Arion banka og Íslandsbanka og fengið hluta af arðgreiðslum þeirra.
3 - Um síðustu áramót voru eignir bankanna þriggja metnar á 3.176 milljarða króna. Þær eru nú 840 milljörðum krónum meiri en þær voru í árslok 2008 og þegar arðgreiðslum sem greiddar hafa verið út úr bankanum er bætt við er ljóst að eignir þeirra hafa aukist að verðgildi um tæplega eitt þúsund milljarða króna á tímabilinu.
4 - Eigið fé Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka er samanlagt 669 milljarðar króna. Það var 302,5 milljarðar króna í lok árs 2008 og hefur því rúmlega tvöfaldast síðan þá, þrátt fyrir arðgreiðslur til eigenda.
5 - Bankarnir þrír eru allsráðandi á íslenskum markaði. Samkvæmt mælingum Gallup er Landsbankinn með mesta markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði, eða 36,1 prósent. Íslandsbanki er með 31 prósent en Arion banki er með um 30 prósent markaðshlutdeild. Samanlagt ráða þeir því yfir rúmlega 97 prósent af viðskiptabankamarkaðnum.
6 - Laun hafa hækkað hraðar hjá fjármálafyrirtækjum en öðrum geirum á Íslandi eftir hrun. Meðalheildarlaun fullvinnandi starfsmanna í geiranum hækkuðu um 44,2 prósent á árunum 2010 til 2014 á meðan að heildarlaun allra stétta hækkuðu um 28,8 prósent á sama tímabili. Auk þess voru starfsmenn fjármálafyrirtækja með hærri laun til að byrja með og því er krónutöluhækkun þeirra mun meiri. Meðallaun þeirra hækkuðu um 234 þúsund krónur á tímabilinu á meðan að laun allra stétta hækkuðu að meðaltali um 124 þúsund krónur.
Æðstu stjórnendur bankanna eru líka afar vel launaðir. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, var með tæpar 4,7 milljónir á mánuði í fyrra í laun. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var með tæpar 3,7 milljónir króna á mánuði. Laun hennar munu þó lækka á þessu ári vegna eignarhalds ríkisins á bankanum, en kjör Birnu falla þá undir ákvörðun Kjararáðs. Þar hittir hún fyrir Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, sem var með 1,6 milljónir króna að meðaltali í laun í fyrra. Laun hans voru þó hækkuð í desember 2015 í 1.950 þúsund krónur á mánuði. Kjör stjórnarformanna bankanna þriggja eru heldur ekkert slor. Tryggvi Pálsson (formaður bankaráðs Landsbankans) fékk 767 þúsund krónur á mánuði í fyrra, Friðrik Sophusson, formaður stjórnar Íslandsbanka, 750 þúsund krónur, og Monica Caneman, formaður stjórnar Arion banka, heilar, 1,7 milljónir króna á mánuði. Stjórnarfundir eru að jafnaði einu sinni í mánuði.
7 - Í Arion banka og Íslandsbanka hafa einnig verið innleidd svokölluð kaupaukakerfi, sem gera bönkunum kleift að greiða starfsfólki sínu bónusa. Samanlagðar bónusgreiðslur sem Arion banki og Íslandsbanki skuldbundu sig til að greiða vegna kaupaukakerfa sinna í fyrra nema 977 milljónum króna. Bankarnir tveir hafa samanlagt gjaldfært tæpan tvo og hálfan milljarð króna vegna bónusgreiðslna á þremur árum. Landsbankinn, sem er að mestu í eigu ríkisins, er ekki með árangurstengdar greiðslur. Um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fengu hins vegar hlut í bankanum gefins árið 2013 og fá greiddan arð vegna hans. Gjörningurinn var liður í samkomulagi frá árinu 2009, um fjárhagsuppgjör milli gamla og nýja Landsbankans. Skattalegt verðmæti hlutabréfanna nam 4,7 milljörðum króna þegar hann var afhentur.
8 - Bankarnir borga allir háa skatta. Þeir greiða tekjuskatt, sérstakan fjársýsluskatt á hagnað, sérstakan fjársýsluskatt á fjármálafyrirtæki (svokallaðan bankaskatt) og sérstakan skatt á laun starfsmanna. Auk þess greiða þeir í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fyrir rekstur Umboðsmanns skuldara og Fjármálaeftirlitsins. Í fyrra námu greiðslur bankanna vegna þessara gjalda yfir 30 milljörðum króna.
9 - Í dag á ríkið Landsbankann nánast að öllu leyti, allt hlutafé í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka. Ríkið er eigandi að um 80 prósent af allri grunn fjármálaþjónustu landsins. Bankakerfið er líka rekið á ábyrgð skattborgaranna í ljós yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands um að allar innstæður í íslenskum bönkum séu tryggðar frá því október 2008. Yfirlýsingin hefur ekkert lagalegt gildi en stjórnvöld hafa sýnt það í verki að þau muni tryggja innstæður reyni á það. Því er kerfið, sem er að langmestu leyti fjármagnað af innstæðum, rekið á ábyrgð skattgreiðenda.
10 - Allir bankarnir á Íslandi eru bestir á Íslandi. Þ.e. þeir hafa allir hlotið alþjóðlegar viðurkenningar hjá erlendum timaritum sem bestu bankar á Íslandi. Arion Banki er bestur samkvæmt tímaritinu The Banker, Íslandsbanki bestur samkvæmt tímaritinu Euromoney og Landsbankinn bestur samkvæmt tímaritinu Global Finance Magazine. Vert er að taka fram að sækja þarf um að taka þátt í öllum þessum verðlaunum.