Skrifstofurými sem fólk deilir með öðrum hafa sprottið upp í borgarsamfélögum á undanförnum árum, og njóta mikilla vinsælda. Sérstaklega eru það frumkvöðlar og lítil fyrirtæki sem sækja í þessa aðstöðu.
Það fyrirtæki sem hefur leitt mikla sókn þessa tegundar skrifstofuaðstöðu er WeWork. Það er með rætur í New York og Kaliforníu, þar sem umfangsmesta aðstaða fyrirtækisins er.
Í gær greindi Wall Street Journal frá því að WeWork væri nú metið á sextán milljarða Bandaríkjadala, eða um tvö þúsund milljarða króna. Sóknaráætlun fyrir Asíu-markað er á teikniborðinu, og hafa þegar verið tryggðar 450 milljónir Bandaríkjadala í það verkefni.
Góð aðstaða á góðum stað
Grundvallarhugsunin að baki WeWork er einföld. Hún er sú að útvega fjölda fólks aðstöðu til að vinna á góðum stað í borgum. Viðskiptaáætlanir í upphafi gerðu ráð fyrir því að reyna að ná til ungs fólks, sem hefði ekki mikla getu til að greiða háa leigu fyrir skrifstofu. En með því að fá fólk til þess að deila rými, væri hægt að ná því fram að bjóða leigu á góðum stað á hagstæðu verði, en um leið fá rekstraraðilarnir hagstætt fermetraverð, þar sem margir notendur nýta rýmið vel með því að deila skrifborðum, fundaraðstöðu og kaffistofum.
Þekking flæðir á milli fólks
Það sem hefur verið lykillinn að velgengninni er svo það sem ekki var augljóst, áður en farið var að stað. Fólk úr ýmsum áttum virðist tengja vel saman í gegnum deili-hugsunina sem er að baki skrifstofurýminu. Skapandi andrúmsloft verður til sem hjálpar ekki síst þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref með viðskiptahugmyndir, eða þeim sem eru að reyna að efla tengsl í ákveðnum geirum.
Lagt er upp með að hafa aðstöðuna með fallegri hönnun og húsgögnum sem eru aðlaðandi.
Dæmigert skrifstofurými, sem fólk leigir, kostar að meðaltali um 600 Bandaríkjadali á mánuði, eða sem samsvarar um 78 þúsund krónum. Það þykir afar hagstætt verð í stórborgum, en verðin eru þó misjöfn eftir staðsetningum. Vel staðsett rými í Soho í New York kosta 750 Bandaríkjadali, eða sem nemur um 100 þúsund krónum á mánuði.
Samfélag leigjenda
Til viðbótar fá notendur þjónustunnar síðan að tengjast samfélagi notenda þjónustunnar, sem fá boð á reglulega fundi, fyrirlestra og ráðstefnur, svo eitthvað sé nefnt. Þá geta þeir sem nýta sér aðstöðuna einnig nýtt sér aðstöðu WeWork í öðrum borgum og löndum.
Þessi nálgun hefur reynst höfða vel til þeirra sem vilja fá sveigjanleika í sitt vinnuumhverfi.
WeWork aðstaða á 26 stöðum í New York
Á einu ári hefur WeWork vaxið hratt, og er New York dæmi um stað þar sem nýir staðir hafa sprottið upp. Á einu ári hafa tíu ný rými bæst við í eignasafni WeWork, og eru staðirnir nú samtals 26 talsins. Næstu rými munu opna í Mexíkó borg, og síðan í fimm öðrum löndum þar sem staðsetningar hafa ekki verið nákvæmlega tilgreindar ennþá. Það eru Indland, Kína, Ástralía, Suður-Kórea og Hong Kong. Gefið hefur verið út að rými verði í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, og í Sidney, stærstu borg Ástralíu, en nákvæmari staðsetningar hafa ekki verið gefnar út.
Framtíðarvinnustaðir blandaðir?
Þessi mikla velgengni hefur vakið upp umræðu um hvort þetta deili-rýmisfyrirkomu sé vísir að framtíðarvinnustaðamenningu, ekki síst á sviðum þar sem sérfræðingar vinna oft hver í sínu horni eða þar sem innblástur úr óvæntum áttum hjálpar fólki að leita lausn á vandamálunum sem glímt er við. Stofnendurnir þrír, Jesse Middleton, Adam Neumann og Miguel McKelvey, trúa því að svo sé og stofnuðu til fyrsta rýmisins í New York árið 2010, með það sem leiðarljós að búa til hinn fullkomna vinnustað. Þar sem ólíkt fólk kæmi saman, deildi þekkingu sinni og gæti unnið í notelegu og „svölu“ umhverfi.
Þeir áttuðu sig ekki á því að verkefnið yrði jafn risavaxið og raunin er orðin, en frá árinu 2010 hefur fyrirtækið sjö sinnum sótt fjármagn til tíu fjárfesta og fjárfestingarsjóða, samtals ríflega 1,4 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 180 milljörðum króna. Nú þegar WeWork er að stíga fyrstu stóru skrefin út fyrir Bandaríkjamarkað, með innreiðinni í Asíu, gæti þessum „fullkomnu“ vinnustöðum átt eftir að fjölga hratt á næstu árum.