1. Hinn 1. janúar síðastliðinn voru Íslendingar 332.529, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands. Þeim fjölgaði um 3.429 á einu ári, eða um sem nemur eitt prósent. Á áratug, eða frá árinu 2006, hefur landsmönnum fjölgað um tæplega 33 þúsund manns, en 1. janúar 2006 voru landsmenn tæplega 300 þúsund
2. Kynjahlutföll landsmanna eru næstum jöfn. Í byrjun þessa árs voru karlar 2.011 fleiri en konur. Af landsmönnum eru 51 prósent karlar, og 49 prósent konur.
3. Fólksfjölgunin undanfarin ár hefur að mestu leyti verið á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar þar voru 2.333 fleiri í byrjun þessa árs, en árið 2015. Það er um 1,1 prósent fjölgun milli ára, en hlutfallslega varð mesta fjölgunin á Suðurnesjum en þar fjölgaði fólki um 2,2 prósent eða 483 frá því í fyrra. Á Suðurlandi fjölgaði fólki um 1,8 prósent, eða 445 einstaklinga.
4. Fólksfækkun varð á þremur svæðum á landinu. Á Vestfjörðum fækkaði íbúum um 87 einstaklinga, eða 1,2 prósent, og á Austurlandi fækkaði íbúum um 44. Á Norðurlandi vestra varð einnig lítilsháttar fækkun, eða um 0,1 prósent. Á Norðurlandi eystra, þar sem Akureyri er stærsti staðurinn, fjölgaði fólki lítið eitt, eða um 0,3 prósent.
5. Fjöldi sveitarfélaga á landinu breyttist ekkert. Þau eru 74 og eru misstór. Sex sveitarfélög eru með færri en 100 íbúa, en 41 sveitarfélag er með meira en þúsund íbúa. Einungis níu sveitarfélög – nær öll á höfuðborgarsvæðinu – er með fleiri íbúa en fimm þúsund.
6. Hinn 1. janúar 2016 voru 61 þéttbýlisstaður með 200 íbúa eða fleiri á landinu og hafði þeim fjölgað um einn frá fyrra ári. Auk þeirra voru 35 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fækkun um tvo frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 311.850 manns 1. janúar 2016 og hafði þá fjölgað um 3.335 á árinu. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 20.679 manns.
7. Kjarnafjölskyldur voru 79.870 í byrjun ársins en 79.356 í byrjun árs 2015. Skiptingu heildaríbúafjölda eftir fjölskyldumynstri má sjá hér á meðfylgjandi mynd.
8. Til kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn hjá þeim 17 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 17 ára og yngri.
9. Framfærsluhlutfall var 68,1% í ársbyrjun 2016 en 68,4% ári áður. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Hækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fækkar.
10. Stærsta sveitarfélagið á Íslandi er Reykjvík, vitaskuld, en íbúar þar voru 122.460 1. janúar 2016. Stærsta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins er Akureyrarbær, en þar voru íbúar 18.294.