Wintris Inc., félag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur sem skráð er á Bresku Jómfrúareyjunum, getur búist við því að fá rúmlega 120 milljónir króna þegar slitabú föllnu bankanna hafa greitt kröfuhöfum sínum. Alls á félagið kröfur upp á 523 milljónir króna og væntar endurheimtir kröfuhafa skila ofangreindri niðurstöðu. Ef stöðugleikaskattur hefði verið lagður á slitabúin hefði það fé sem runnið hefði til kröfuhafa verið um 300 milljörðum krónum lægri upphæð sem nú verður. Því hagnast Wintris umtalsvert á því að slitabúum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans var gert kleift að ljúka slitum sínum með greiðslu stöðugleikaframlags frekar en með álagningu stöðugleikaskatts.
Anna Sigurlaug er eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Keypti skuldabréf á íslensku bankana fyrir hrun
Félag eiginkonu forsætisráðherra á kröfur í slitabú föllnu bankanna vegna þess að það hafði keypt skuldabréf útgefin af þeim fyrir hrun. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem sér um upplýsingagjöf fyrir hönd Önnu Sigurlaugar vegna opinberunar á eign hennar á aflandsfélagi. Þegar neyðarlögin voru sett í október 2008 færðust kröfur vegna slíkra skuldabréfa aftur fyrir innstæður í kröfuhafaröð bankanna. Sigmundur Davíð sat ekki á þingi þegar neyðarlögin voru samþykkt og enn voru þá nokkrir mánuðir í að hann yrði kosinn formaður Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð kom því ekki að þeirri lagasetningu.
Wintris lýsti því almennri kröfu í bú Kaupþings, Landsbankans og Glitnis til að reyna að fá skuldabréf sín greidd að einhverju leyti. Alls á félagið kröfu upp á 174 milljónir króna í bú Landsbanka Íslands, þrjár kröfur upp á samtals 220 milljónir króna í bú Kaupþings og eina kröfu í bú Glitnis upp á eina milljón svissneskra franka, sem í dag er um 129 milljónir króna. Samtals nema kröfurnar því um 523 milljónum króna.
Lykilákvörðun í að styrkja stöðu íslenskra stjórnvalda í stöðubaráttu þeirra við erlenda kröfuhafa vegna slitabúa föllnu bankanna voru lög sem samþykkt voru 13. mars 2012. Í þeim voru slitabú bankanna færð undir höft og svokallað „sólarlagsákvæði“, sem gerði höftin tímabundin, afnumið. Sigmundur Davíð var þingmaður þegar þessi lög voru samþykkt en var fjarverandi þegar greitt var atkvæði um þau.
Haustið 2013 var skipaður ráðgjafahópur til að vinna við haftaafnám. Á meðal þeirra sem starfaði í þeim hópi var Benedikt Árnason, þá sérlegur efnahagsráðgjafi Sigmundar Davíðs. Á grundvelli vinnu þess hóps var settur á fót sérstakur framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta. Í upphafi árs 2015 var bætt við þann hóp. Á meðal þeirra sem komu þá inn í hann var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Kviku. Hann er vinur og einn nánasti ráðgjafi Sigmundar Davíðs og var meðal annars formaður sérfræðingahóps stjórnvalda um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Auk þess starfaði Lilja D. Alfreðsdóttir, sem var í láni hjá forsætisráðuneytinu frá Seðlabanka Íslands við verkefnastjórnun vegna losunar fjármagnshafta, náið með hópnum.
Sigmundur í aðalhlutverki í Hörpu
Þegar stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta í byrjun júní 2015 var blásið til mikils blaðamannafundar í Hörpu. Þar kynntu Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, helstu útlínur áætlunarinnar. Í aðdraganda fundarins setti Sigmundur Davíð eftirfarandi stöðuuppfærslu inn á Facebook-síðu sína:
Aætlunin sem kynnt var fólst í því að annað hvort myndu erlendir kröfuhafar slitabúanna samþykkja að greiða svokallað stöðugleikaframlag eða að það yrði lagður 39 prósent stöðugleikaskattur á eignir þeirra. Það stöðugleikaframlag þurfti að vera þess eðlis að það myndi ekki hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands og fjármálastöðugleika. Í greinargerð Seðlabanka Íslands um mat á uppgjöri föllnu fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaframlaga, sem birt var í lok október 2015, kom fram að stöðugleikaframlög myndu nema tæplega 379 milljörðum króna. Sú upphæð miðar við að hægt verði að selja Íslandsbanka á háu verði, og því gæti framlagið mögulega orðið umtalsvert lægra.
Í áætlun stjórnvalda sem kynnt var í júní 2015 kom fram að tekjur af 39 prósent stöðugleikaskatti myndi skila ríkissjóði 682 milljörðum króna. Það munar því að minnsta kosti 300 milljörðum krónum á stöðugleikaframlagsleiðinni og stöðugleikaskattsleiðinni.
Endurheimtir almennra kröfuhafa föllnu bankanna urðu á endanum betri en þeir höfðu reiknað með. Ljóst er á samtölum við þá sem fyrir kröfuhafanna hafa starfað að þeir voru afar ánægðir með málalyktir. Ljóst er að endurheimtir í bú Glitnis verða á bilinu 30-35 prósent, hjá Kaupþingi rúmlega 26 prósent og hjá Landsbankanum um 15 prósent.
Eiginkona forsætisráðherra fær tugi milljóna króna
Miðað við ofangreindar endurheimtir má ætla að félag eiginkonu forsætisráðherra fái um 26 milljónir króna vegna kröfu sinnar í bú Landsbanka Íslands, um 57 milljónir króna vegna kröfu sinnar í bú Kaupþings og 39 til 45 milljónir króna vegna kröfu sinnar í bú Glitnis. Samtals má því ætla að hún fái 122 til 128 milljónir króna vegna krafna sinna.
Ef stöðugleikaskattur hefði verið lagður á slitabúin hefðu endurheimtir félags eiginkonu forsætisráðherra orðið mun lægri, enda allt að 300 milljörðum króna minna til skiptanna fyrir almenna kröfuhafa þeirra. Því er það staðreynd að félag Önnu Sigurlaugar hagnaðist fjárhagslega á því að ákveðið var að semja við kröfuhafa um greiðslu stöðugleikaframlag í stað þess að leggja á búin stöðugleikaskatt.
Stór hluti af pólitískum persónuleika Sigmundar Davíðs
Losun hafta og málefni slitabúa föllnu bankanna hafa verið stór hluti af pólitískum persónuleika Sigmundar Davíðs á undanförnum árum. Í stefnuskrá Framsóknarflokksinsfyrir síðustu kosningar kom fram að flokkurinn vildi nýta það svigrúm sem mundi skapast við uppgjör þrotabúa bankanna til að fjármagna almennar skuldaniðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum. Í viðtali við Fréttablaðið sem Sigmundur Davíð fór í þann 9. mars 2013, skömmu fyrir síðustu kosningar, sagði hann eftirfarandi um uppgjör slitabúa föllnu bankanna: „Í slíkum viðræðum þurfa menn bæði að hafa gulrót og kylfu. Það þarf að skapa hvata en menn þurfa líka að standa frammi fyrir því að ef þeir séu ekki tilbúnir til að spila með verði það þeim ekki til hagsbóta.“
Í viðtali við Kjarnann þann 22. ágúst 2013 sagði Sigmundur að það væri „sameiginlegir hagsmunir kröfuhafa og íslenskra stjórnvalda að leysa þetta mál þannig að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin.“ Það er því ljóst, og raunar hægt að telja mýmörg fleiri dæmi til, að Sigmundur Davíð hefur komið ítrekað að pólitískri umræðu um losun hafta og málefnum slitabúa föllnu bankanna án þess að fyrir hafi legið að eiginkona hans ætti kröfur upp á hundruð milljóna króna í þau bú.
Situr í ráðherranefnd um efnahagsmál
Sigmundur Davíð kom einnig með beinum hætti að því ferli sem áætlun um losun hafta var. Hann er enda forsætisráðherra Íslands og málið eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar hans segir m.a.: „Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar verður að vinna að afnámi fjármagnshafta en gjaldeyrishöftin bjaga eignaverð og draga úr samkeppnishæfi þjóðarinnar.“
Líkt og áður sagði var Sigmundur Davíð einn þeirra sem var í aðalhlutverki á kynningu á áætluninni í Hörpu í júní í fyrra. Hann var eitt andlita haftalosunaráætlunarinnar og fór meira að segja í ýmis viðtöl á erlendum vettvangi til að kynna niðurstöðuna.
Yfirstjórn haftalosunaráætlunarinnar var í höndum stýrinefndar um losun fjármagnshafta. Bjarni Benediktsson leiddi þá nefnd. Auk þess sátu í henni Már Guðmundsson seðlabankastjóri, ráðuneytisstjórar forsætis- og fjármála- og efnahagsráðuneyta og Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. Sigmundur Davíð sat því ekki í þeirri nefnd þótt að sérlegur ráðgjafi hans hafi gert það.
En hann situr hins vegar í ráðherranefnd um efnahagsmál ásamt Bjarna Benediktssyni. Þegar Seðlabanki Íslands hafði komist að þeirri niðurstöðu að veita ætti slitabúum föllnu bankanna undanþágur frá fjármagnshöftum til að klára nauðasamninga sína, sem gerðist 28. október 2015, var fjallað um málið í ráðherranefndinni. Þá var einnig fjallað um málið í ríkissstjórn Íslands. Sigmundur Davíð sat báða þá fundi.
Sigmundur Davíð hefur einnig greitt atkvæði í þeim atkvæðagreiðslum sem farið hafa fram um lagasetningar og –breytingar vegna áætlunar um losun fjármagnshafta og framkvæmd hennar.