Gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum er enn einu sinni
orðið að þrætuepli hjá hagsmunaaðilum á Íslandi. Þeir hafa áhyggjur af því
hvert gengi krónunnar verður gagnvart erlendum myntum, þegar höft verða losuð.
Á rúmlega ári hefur tónninn í áhyggjuröddunum gjörbreyst. Á fyrra hluti árs í
fyrra höfðu margir áhyggjur af því að krónan myndi veikjast mikið við losun
fjármagnshafta, eftir að áætlunin um losun hafta var kynnt, en nú hafa þau viðhorf að mestu
snúist við. Nú óttast margir að krónan muni styrkjast of mikið, með tilheyrandi
erfiðleikum fyrir útflutningsfyrirtæki og þjónustu á Íslandi sem reiða sig á
erlendar tekjur. Evran kostar nú 140 krónur og hefur gengi krónunnar gagnvart
henni styrkst nokkuð að undanförnu.
Hvað gerist ef evran fer í 120 krónur, eða jafnvel 100 krónur? Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör. Ólíkir hagsmunir vegast á í þessu. Sumir hagnast á því að krónan haldist á svipuðum slóðum og hún er nú, á meðan styrking krónunnar getur skilað sér í aukinni neyslu innanlands, þar sem innfluttar vörur verða ódýrari.
Þarf að fylgjast með
Í janúar í fyrra kostaði evran 155 krónur, svo dæmi sé tekið. Um 60 prósent af útflutningi Íslands er inn á evrusvæðið, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Einn af þeim sem hefur áhyggjur af því, að mikið innflæði gjaldeyris muni styrkja krónuna enn meira á þessu ári, er Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og stærsti eigandi Bláa lónsins, þar sem hann er jafnframt forstjóri. Sagði hann á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar að „yfirvofandi styrkingu íslensku krónunnar við afnám gjaldeyrishafta vera ógn en „geysimikið innflæði gjaldeyris vegna uppgangs ferðaþjónustunnar“ hafi gerbreytt forsendum um afnám haftanna.
Hvatti hann stjórnvöld til að standa vaktina í þessum efnum og „tryggja með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum, að krónan styrkist ekki frekar en nú er staðreynd.“
Lokahnykkurinn
Í dag er ársfundur Seðlabanka Íslands, og hefur Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, boðað að tíðindi verði flutt af losun fjármagnshafta, og er fastlega búist við því að þar sé um að ræða tímasetningu á útboðum til að losa um hengju aflandskróna. Um er að ræða lokahnykkinn í áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta, en nú þegar hafa slitabú Glitni, Landsbankans og Kaupþing greitt stöðugleikaframlag, sem er nærri 400 milljörðum króna. Liður í því er meðal annars að ríkið hefur eignast Íslandsbanka að öllu leyti, og á nú stóran hluta fjármálakerfisins. Landsbankinn, Íslandsbanki, Íbúðalánasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) og Byggðastofnun eru nú í rekstri ríkisins, og er ríkið nú með um 75 til 80 prósent markaðshlutdeild á markaði fjármálaþjónustu. Arion banki er 87 prósent í eigu kröfuhafa Kaupþings og 13 prósent í eigu ríkisins.
Þurfa að vera á tánum
Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og doktor í hagfræði, segir að Seðlabanki Íslands þurfi að fá „öflug“ stýritæki til að stýra fjármagnsflæði, til að koma í veg fyrir ójafnvægi í hagkerfinu. „Það er auðvitað ekkert eitt gengi sem skilur á milli feigs og ófeigs. Raungengið hefur styrkst mjög mikið frá því það var lægst 2009-2010 og er nú orðið svipað og það var að jafnaði síðasta áratuginn fyrir bólu, þ.e. frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar til u.þ.b. 2004. Hækkunin mun fyrirsjáanlega eyða þeim afgangi sem við höfum búið við á viðskiptajöfnuði allt frá hruni fyrr eða síðar. Æskilegra væri líklega að raungengið væri ívíð veikara en núna og áfram væri smáafgangur á viðskiptajöfnuði. Það er vissulega hætta á því að hingað streymi fé þegar höftin verða afnumin og það hækki nafngengið í ljósi þess að vextir eru háir hérlendis en nánast núll í öllum nágrannalöndunum. Seðlabankinn verður að vera - og verður örugglega - á tánum vegna þess. Hann þarf þó að fá öflugri tæki til að stýra fjármagnsflæðinu til og frá landinu en hann hafði fyrir hrun. Frjálsir fjármagnsflutningar eins og tíðkuðust fyrir hrun koma vonandi aldrei aftur þótt höftin sem hafa verið frá 2008 verði afnumin sem slík,“ segir Gylfi.Mikil breyting á skömmum tíma
Það sem helst hefur bætt í gjaldeyrisflæði til landsins er ferðaþjónustan. Því er spáð að erlendir ferðamenn verði 1,6 milljónir á þessu ári, en fyrir aðeins fimm árum voru þeir innan við 500 þúsund. Gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustunnar verður yfir 400 milljarðar á þessu ári samkvæmt nýlegri spá Íslandsbanka, meira en hjá nokkurri annarri atvinnugrein, og er vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslunni komið í 32 prósent. Þessi hraða breyting hefur breytt miklu, og gera flestar hagspár ráð fyrir því að vöxturinn í ferðaþjónustu verði á bilinu 20 til 30 prósent á ári, næstu árin.
Hvað mun krónan kosta?
Árið 2007 kostaði Bandaríkjadalur 58 krónur, þegar krónan var sterkust, en núna kostar hann 128 krónur. Svipað gildir um evruna, sem nú er á 140 krónur, en var á bilinu 75 til 80, þegar gengi krónunnar var sem sterkast fyrir hrunið. Það sem erfitt er að segja til um núna, er hversu mikil inngrip Seðlabanka Íslands verða á gjaldeyrismarkaði, með það að leiðarljósi að veranda samkeppnishæfni hagkerfisins, og tryggja stöðugleika. Það er ekki víst að seðlabankinn geti leyft sér að halda gengi krónunnar á svipuðum stað og það er núna, ef gjaldeyrisinnstreymi verður jafn mikið og spár segja til um.
En gengið er áhrifamikill þáttur þegar kemur að verðbólguhorfum. Seðlabankinn getur því ekki annað, í ljósi verðbólgumarkmiðs upp á 2,5 prósent, en horft til þess hvernig gengi krónunnar er að þróast. Um þessar mundir mælist verðbólga 2,2 prósent, og metur Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, stöðu mála þannig að verðbólga muni fara hækkandi. „Verðbólga mældist 2,2% í febrúar og hefur aukist um ríflega 1 prósentu frá því sem hún var fyrir ári. Sem fyrr vegast þar á innlendur verðbólguþrýstingur og innflutt verðhjöðnun á alþjóðlegum vörumörkuðum. Áfram er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram eftir ári en horfur eru óvissar, m.a. varðandi innflutningsverðlag[...]Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar, fyrir ákvörðun um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75 prósentum.
Sem fyrr mun gengi krónunnar hafa mikil á það, hvernig hagkerfið mótast á næstu árum, og þrátt fyrir að öll merki séu um að gjaldeyrisinnstreymi um aukast verulega, og uppgangur verða í efnahagslífinu, þá má krónan ekki styrkjast of mikið. Því ef það gerist, þá þrengir að útflutningi og ferðaþjónustu, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir heildarmyndina.