Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var ekki bundinn af innherjareglum sem staðfestar voru af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, 7. október 2014 og tóku gildi 1. nóvember 2014. Þetta staðfestir fjármála- og efnahagsráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Reglurnar voru settar vegna vinnu við losun hafta. Bjarni sjálfur, aðstoðarmenn hans, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skrifstofurstjórar þess og aðrir starfsmenn sem komu að vinnunni um losun hafta féllu hins vegar undir reglurnar. Þær náðu einnig til allra þeirra sérfræðinga sem unnu að áætlun um losun hafta, meðal annars í framkvæmdahópi stjórnvalda, sem undirrituðu trúnaðaryfirlýsingu vegna starfa sinna. Brot gegn viðkomandi reglum gat þýtt að sá sem framdi það brot ætti yfir höfði sér fangelsisvist.
Þær innherjaupplýsingar sem um var að ræða, og bannað var að miðla til annarra eða hagnýta sér, eru til dæmis efni fyrirhugaðra lagafrumvarpa og vitneskja um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum.
Því verður ekki til skoðunar hvort ákvörðun forsætisráðherra um að leyna því að eiginkona hans ætti aflandseignarhaldsfélags skráð á Bresku Jómfrúareyjunum og að það félag væri kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna sé í andstöðu við reglurnar, en reglurnar meina meðal innherjum að eiga gjaldeyrisviðskipti nema með leyfi regluvarðar.
Brot gat leitt til ákæru
Ástæða þess að umræddar innherjareglur voru settar var sú að þeir sem störfuðu að áætlanagerð um losun hafta bjuggu yfir mjög verðmætum upplýsingum sem gætu nýst á markaði til að hagnast verulega. Í trúnaðaryfirlýsingu sem allir sem unnu með haftahópnum voru látnir skrifa undir kom fram hversu viðkvæmar upplýsingarnar voru og hversu mikilvægt það var fyrir sérfræðinganna að halda trúnað um þær. Brot gegn þeim trúnaði, eða einhvers konar misnotkun á upplýsingunum gat talist saknæmt athæfi, og viðkomandi gat í kjölfarið verið ákærður.
Það voru ekki bara sérfræðingarnir sem þurftu að skrifa undir skjöl vegna haftalosunaráætlunar. Þeir þingmenn sem sátu í samráðsnefnd þingflokka um afnám fjármagnshafta undirrituðu allir þagnarheit sem í fólst að þeir gættu „þagmælsku um atriði sem ég kann að fá vitneskju um í starfi mínu fyrir hópinn sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan skal haldast þótt störfum hópsins sé lokið“. Þegar þingmennirnir skrifuðu undir þagnarheitið var þeim einnig gert ljóst að þeir kunni, í tengslum við störf hópsins, að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljist þar með innherjar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Samkvæmt trúnaðaryfirlýsingunni mátt enginn þeirra sem undir hana skrifuðu nota upplýsingarnar sem þeir fengu á annan hátt en til að leysa það verkefni sem fyrir þeim lág. Þar segir einnig að ráðgjafarnir sem skrifuðu undir megi deila upplýsingunum með öðrum sem tilheyrðu haftahópnum og öðrum einstaklingum sem tilnefndir höfðu verið af ráðherranefnd um efnahagsmál og undirnefndum hennar. Í þeirri ráðherranefnd sitja tveir ráðherrar: Sigmundur Davíð og Bjarni.
Vika án þess að forsætisráðherra svari spurningum
Í dag er vika liðin frá því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra, greindi frá því að hún ætti aflandsfélag sem héldi utan um miklar eignir hennar. Þær eignir nema um 1,2 milljarði króna og eru í stýringu hjá Credit Suisse bankanum. Skömmu síðar var einnig greint frá því að hún ætti kröfur í slitabú allra stóru bankanna sem féllu í október 2008. Þær kröfur eru til komnar vegna þess að Anna Sigurlaug keypti skuldabréf af bönkunum fyrir hrun. Heildarumfang þeirra er 523 milljónir króna og miðað við væntar endurheimtir úr búum bankanna má ætla að hún fái að minnsta kosti um 120 milljónir króna þegar kröfurnar verða að fullu greiddar út úr búunum.
Daginn eftir var upplýst að opinberun Önnu Sigurlaugar kom í kjölfar þess að Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem rekur fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf., spurðist fyrir um aflandseignir forsætisráðherrahjónanna. Hann vinnur nú að birtingu frétta um eignir Íslendinga í skattaskjólum ásamt alþjóðlegu rannsóknarblaðamannasamtökunum ICIJ og nokkrum erlendum dagblöðum. Heimildir Kjarnans herma að umfjöllun þeirra verði birt á allra næstu vikum.
Sigmundur Davíð skrifaði færslu á bloggsíðu sína síðastliðinn föstudag þar sem hann gagnrýndi gagnrýni á málið. Að öðru leyti hefur forsætisráðherra ekki viljað tjá sig um aflandseignir eiginkonu sinnar, kröfueign hennar og möguleg áhrif þess á hæfi hans til að koma að mótun og framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta, þar sem hann upplýsti ekki um hagsmunatengsl sín.
Kom að málinu á ýmsum stigum
Yfirstjórn haftalosunaráætlunarinnar var í höndum stýrinefndar um losun fjármagnshafta. Bjarni Benediktsson leiddi þá nefnd. Auk þess sátu í henni Már Guðmundsson seðlabankastjóri, ráðuneytisstjórar forsætis- og fjármála- og efnahagsráðuneyta og Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. Sigmundur Davíð sat því ekki í þeirri nefnd þótt að sérlegur ráðgjafi hans hafi gert það.
En hann situr hins vegar, líkt og áður sagði, í ráðherranefnd um efnahagsmál ásamt Bjarna Benediktssyni. Þegar Seðlabanki Íslands hafði komist að þeirri niðurstöðu að veita ætti slitabúum föllnu bankanna undanþágur frá fjármagnshöftum til að klára nauðasamninga sína, sem gerðist 28. október 2015, var fjallað um málið í ráðherranefndinni. Þá var einnig fjallað um málið í ríkisstjórn Íslands. Sigmundur Davíð sat báða þá fundi.
Sigmundur Davíð hefur einnig greitt atkvæði í þeim atkvæðagreiðslum sem farið hafa fram um lagasetningar og –breytingar vegna áætlunar um losun fjármagnshafta og framkvæmd hennar.
Segir Sigmund Davíð mögulega hafa verið vanhæfan
Í Fréttablaðinu í dag var rætt við Eirík Elís Þorláksson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um mögulegt vanhæfi Sigmundar Davíðs til að koma að losun fjármagnshafta vegna hagsmunatengsla sinna.
Eiríkur sagði þar að Sigmundur Davíð væri bundinn af hæfisreglur stjórnsýsluréttar þegar hann fer með framkvæmdarvald. Ef hann hafi tekið ákvarðanir um málið sem forsætisráðherra, til dæmis skipað í ráðgjafahóp og eftir atvikum fleiri nefndir sem áttu að vinna að undirbúningi lagasetningar um losun hafta, stöðugleikaskatt og fleira, þá kunni það að vera í andstöðu við stjórnsýslulög. Lykilatriði sé hins vegar að hagsmunirnir sem um ræði séu slíkir að það valdi vanhæfi til meðferðar málsins.
Í stjórnsýslulögum segir að starfsmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans (maki, skyldur eða mægður aðili) eða sjálfseignarstofnanir eða fyrirtæki sem hann er í fyrirsvari fyrir.