Flestir, sem kaupa vöru og þjónustu, kannast líklega við þessa spurningu og hafa kannski margoft verið spurðir. Spurningin er ekki borin upp til að spara pappír og af umhyggju fyrir umhverfinu og náttúrunni. Spurningin felur í sér að sá sem spurður er, og svarar að ekki þurfi nótu, sleppi við að borga söluskatt sem hækkar reikningsupphæðina um fjórðung. Þarna er því iðulega um verulega fjármuni að ræða og það freistar margra. En það er ekki endilega umhyggja fyrir buddu viðskiptavinarsins sem er efst í huga seljandans. Ef viðskiptin sem um er að ræða eru ekki skráð og fara ekki í gegnum sjóðvél (sem flestir kalla peningakassa) eru þau nefnilega hvergi til. Það þýðir að sú umbun sem seljandinn fær kemur ekki fram og það þýðir aftur að þegar kemur að skattframtalinu eru þessar tekjur seljandans einfaldlega ekki til og því enginn skattur sem greiða þarf, ekkert gefið upp. Þetta fyrirkomulag gengur undir nafninu „svört vinna” og þekkist í mörgum löndum.
Reglurnar
Verk sem kostar meira en tíu þúsund (tæpar 190 þúsund íslenskar) skal greiða með rafrænum hætti, þessi regla var tekin upp í árslok 2010. Fyrirtækjum eða einstaklingum er skylt að gefa tekjur upp til skatts. Vinargreiðar (hjálpa kunningja að skipta um krana í eldhúsinu) eru ekki framtals- og skattskyldir. En, ef kunninginn flytur (í stóra bílnum sínum) þvottavél í staðinn fyrir viðvikið með kranann kallast það skiptivinna og hún er skattskyld. Allir sjá í hendi sér að þótt reglurnar séu skýrar er þó allt annað en auðvelt að fylgjast með að þeim sé framfylgt, nánast útilokað.
Fjórir af hverjum tíu Dönum kaupa svarta vinnu
Danski Rockwool rannsókna- og vísindasjóðurinn gerði árið 2010, og aftur árið 2014 athugun á afstöðu Dana til svartrar vinnu. Tæplega fjögur þúsund manns voru spurðir í hvort skipti. Helmingurinn hvort þeir hefðu keypt svarta vinnu, hinn helmingurinn hvort þeir hefðu unnið svart. Líka var spurt hvort þeim þætti allt í lagi að kaupa eða selja svart burðséð frá því hvort viðkomandi hefði sjálfur gert slíkt. Árið 2010 sagðist rúmur helmingur aðspurðra hafa keypt svarta vinnu en fjórum árum síðar, 2014, hafði hlutfallið lækkað í fjörutíu prósent. Fjöldi þeirra sem hafði unnið svart var nokkurn veginn sá sami í báðum könnunum, rúmlega tuttugu og tvö prósent, tekjurnar vegna svörtu vinnunnar höfðu hinsvegar lækkað í könnuninni 2014 frá fyrri könnuninni.
Sérfræðingur Rockwool sjóðsins segir að reglurnar um rafræna greiðslu og rýmri heimildir skattsins til bókhaldsrannsókna hafi líklega orðið til að draga úr áhuga fólks fyrir að vinna, og kaupa, svart. Sérfræðingurinn benti líka á að almenningur líti ekki á það sem skattsvik að ættingjar og vinir geri hverjir öðrum greiða. Slíkt hafi tíðkast um aldaraðir og þyki sjálfsagt.
Þeir betur settu vilja helst kaupa svart
Það vakti athygli sérfræðinganna sem gerðu könnunina að efnameira fólk vill frekar borga svart en hinir efnaminni. Skýringin, að mati sérfræðinganna, kann að vera sú að hinir efnameiri kaupi margs konar þjónustu umfram þá efnaminni. Könnunin segi ekkert um hugarfar. Sérfræðingarnir nefndu ennfremur að sú heimild sem skatturinn fékk árið 2010 til að fara inn á einkalóðir og sjá hvort, og þá hvaða, framkvæmdir væru þar í gangi hefði nú verið felld niður. Fróðlegt yrði að sjá hvort þetta myndi einhverju breyta. Þeir sem vilja gjarna vinna svart eru langflestir úr hópi hinna efnaminni, tilbúnir að vinna á kvöldin og um helgar til að hleypa laununum upp.
Það svarta er borgað með seðlum, jafnvel svörtum seðlum
Þegar spurt var um greiðslumáta fyrir svörtu vinnuna kom fram að í langflestum tilvikum væri greitt í beinhörðum peningum. Skýringin liggur í augum uppi, seðlar sem fara úr einu veski í annað skilja ekki eftir sig neina slóð. Og ekki er víst, segja skýrsluhöfundar, að seðlarnir sem rakarinn fær frá smiðnum hafi daginn áður verið teknir út úr bankanum, gætu þess vegna verið komnir frá bifvélavirkjanum og jafnvel verið búnir að fara um enn fleiri veski.
Rakarinn, rafvirkinn, bifvélavirkinn og smiðurinn
Í könnunum Rockwool sjóðsins 2014 og 2010 tróndi hárskerinn á toppnum þegar spurt var hvað það væri sem svarendur gætu helst hugsað sér að kaupa svart. Í könnuninni 2014 nefndu flestir, eða sjö prósent, hárskerann en 2010 voru það tíu prósent sem nefndu hann. Næstflestir, sex prósent, nefndu rafvirkjann en átta prósent nefndu hann árið 2010. Bifvélavirkjann nefndu tæp fimm prósent 2014 en rétt tæp tíu prósent árið 2010. Þetta kann að skýrast af því að æ fleiri bílaumboð bjóða margra ára ábyrgð, sem er bundin við að þjónusta fari fram hjá verkstæði umboðsins, þar sem ekki er unnið nótulaust. Sjö prósent nefndu smiðinn 2010, nær helmingi færri í seinni könnuninni. Að gæta gæludýra og hreingerningar voru líka á listanum.
Flestir þeirra sem á annað borð lýstu sig fúsa til að kaupa svarta vinnu sögðust helst gera það þegar þeir þekktu þann sem fengi greiðsluna.
Erfitt að meta tekjutap ríkisins
Sérfræðingar Rockwool sjóðsins telja að árleg velta í svarta hagkerfinu sé um það bil 40 milljarðar króna (760 milljarðar íslenskir). Erfitt sé hins vegar að meta hve miklum skatttekjum danska ríkið verði af. Þeir sem fái borgað svart leyfi sér líklega meira, kaupi til dæmis dýrari vörur, skipti oftar um bíl, endurnýi heimilistækin oftar o.s.frv. Aukin neysla þýði auknar skatttekjur. Þeir sem kaupa svarta vinnu, til dæmis við húsaviðgerðir, láti líka gera meira (t.d.skipta um þrjá glugga en ekki tvo). Það þýði meiri tekjur í formi söluskatts og hærri opinber gjöld þeirra fyrirtækja sem selja byggingavörur.