Brooklyn er stærsta hverfi New York, með 2,6 milljónir íbúa af um 8,4 milljóna heildaríbúafjölda borgarinnar, eða fjölda sem nemur um hálfri milljón meira en stór-Kaupmannahafnarsvæðið.
Næst á eftir Brooklyn er Queens með 2,3 milljónir, en hin þrjú hverfin eru Manhattan (1,6 milljónir íbúa), The Bronx (1,5 milljónir íbúa) og Staten Island (480 þúsund íbúar). Hverfið hefur breyst mikið á undanförnum árum vegna vaxandi áhuga ungs fólks á því að koma sér fyrir innan þess. Því hefur fylgt mikil uppbygging þjónstu og verslunar, en einnig hafa tæknifyrirtæki verið í vaxandi mæli að koma sér í hverfinu og freista þess að byggja upp fyrirtækið í grennd við hverfi þar sem ungt fólk velur að koma sér fyrir.
Um 55 prósent íbúa Brooklyn eru hvítir og 38 prósent svartir. Ítalskar rætur eru nokkrar í hverfinu, enn þann dag í dag, og eru Ítalir meira en 160 þúsund talsins í hverfinu, eða um sex prósent af heildarfjölda.
Í norður- og austurhluta Brooklyn, þar sem stærstu svæðin eru Brownsville, Canarsie, East Flatbush, Prospect Lefferts Gardens, East New York, Coney Island og Fort Greene, er eitt stærsta samfélag svartra í Bandaríkjunum, en heildaríbúafjöldi þessara hverfa er tæplega ein milljón og er 84 prósent íbúa svartir.
Táknmyndin
Ein helsta táknmynd þess, Brooklyn brúin sem byggð var 1883, gefur fólki kost á góðum samgöngum við stærsta vinnusvæðið í New York á Manhattan. Hröð og mikil uppbygging hefur átt sér stað nærri staðnum þar sem Brooklyn brúin liggur inn í hverfið og sér ekki fyrir endann á henni. Glæsihýsi rísa nú meðal annars við hinn fagra og vel hannaða garð, Brooklyn Bridge Park, sem liggur meðfram flóanum með útsýni yfir á Manhattan.
Verslun, þjónusta og nýsköpun
Brooklyn-hagkerfið byggir öðru fremur á verslunar og þjónustustörfum, en það sem hefur fært hverfinu mikinn styrk undanfarin ár er mikil uppbygging á þekkingariðnaði ýmis konar. Eru þar lista- og hönnunarstörf meðtalin. Meðalstór fyrirtæki, á bandarískan mælikvarða, eins og Kickstarter, Amplify og Vice Media, hafa komið sér fyrir í Brooklyn og vaxið þar hratt á undanförnum árum.
Borgaryfirvöld í New York hafa lagt mikla áherslu á að byggja upp innviði hverfisins þannig að þar blómstri fjölbreytni og sköpun, sem í sögulegu tilliti eru helstu eiginleikar þess. Þá hafa opinberir skólar í hverfinu sífellt verið að batna, sé litið til mælinga New York borgar og umsagna á vef borgarinnar.
Svarta hagkerfið
Þrátt fyrir að hverfið hafi verið að byggjast upp í jákvæðum hætti, sé litil til heildarmyndarinnar, þá eru ýmsir hlutar hverfisins sem ennþá glíma við töluverða félagslega erfiðleika. Glæpatíðni er víða hærri í Brooklyn en í öðrum borgarhlutum, og þá hefur atvinnuleysi haldist yfir landsmeðaltali og einnig yfir meðaltali hverfanna í New York. Það mælist nú sex prósent en árið 2010, þegar áhrifin af fjármálakreppunni voru djúpstæð vítt og breitt um Bandaríkin, fór atvinnuleysi í 11,1 prósent. Á landsvísu er atvinnuleysi í Bandaríkjunum 4,9 prósent.
Í sögulegu tilliti hefur svarta hagkerfið í Brooklyn ávallt verið stórt, og var skipulögð glæpastarfsemi í hverfinu umfangsmikil, einkum og sér í lagi framan af 20. öld. Margar kvikmyndir hafa verið gerðar um áhrif glæpasamtaka sem störfuðu í Brooklyn, meðal annars Goodfellas frá 1990, sem Martin Scorsese leikstýrði. Hún rekur sanna sögu ítalsk-ættaðra Bandaríkjamanna sem stýrðu glæpastarfsemi sinni með harðri hendi frá Brooklyn.
Glæpatíðni í New York hefur farið lækkandi á undanförnum árum, og sé litið til síðustu 25 ára þá hefur borgin farið frá því að vera ein hættulegasta borg Bandaríkjanna í að vera ein sú öruggasta. Árið 1990 voru 2.245 morð framin í borginni en 352 í fyrra.
Sterkar rætur íþrótta og lista
Brooklyn, einkum og sér í lagi svæði þar sem svart lágstéttarfólk er í meirihluta íbúa, er þekkt fyrir metnaðarfullt íþróttastarf. Í gegnum tíðina hafa margir heimsfrægir íþróttamenn komið frá Brooklyn og tekið fyrstu skrefin í íþróttunum á uppvaxtarárum. Má þar nefna körfuboltamanninn Carmelo Anthony, sem leikur með New York Knicks, spretthlauparann Justin Gatlin og síðan sjálfan kónginn í heimi körfuboltans, Michael Jordan.
Annað þekkt fólk sem fætt er í Brooklyn er t.d. mafíuforinginn Al Capone, sem var umsvifamikill á bannárunum í undirheimum Chicago en hann lést árið 1947. Stjórnmálamaðurinn Bernie Sanders, sem vill verða forsetaefni Demókrata í kosningunum í nóvember, er einnig fæddur í hverfinu, líkt og leikkonurnar Joan Rivers og Ann Hathaway.
Mikil umbreyting
Samkvæmt áætlunum New York borgar er gert ráð fyrir því að
Brooklyn muni vaxa hraðar en önnur hverfi borgarinnar, á næstu árum.
Fasteignaverð á svæðinu hefur hækkað um meira 30 prósent á tveimur árum, sé
horft til meðaltala, en algengt leiguverð á tveggja herbergja íbúð í hverfinu
er um þrjú þúsund Bandaríkjadalir, eða sem nemur um 380 þúsund krónum á mánuði.
Eins og með önnur hverfi New York borgar eru leiguverð afar mismunandi eftir
gæðum íbúða og þjónustu sem oft fylgir leigu í stórum húsum.
Sjá einnig: Harlem-hagkefið.