Ekki er tilgreint nákvæmlega í lögum og reglum hvernig innherjareglur eigi við um stjórnvöld. Samkvæmt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti ber stjórnvöldum sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni þó að fylgja reglum um meðferð innherjaupplýsingar eftir því sem við á. Stjórnvöld bera hins vegar sjálf ábyrgð á því að meta hvort eðli og umfang starfsemi þeirra gefi tilefni til þess að reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti skuli fylgt. Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um hæfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra til að koma að ákvörðunum sem tengjast slitum föllnu bankanna í ljósi þess að eiginkona hans er kröfuhafi í bú þeirra.
Samkvæmt svarinu ráða ráðamenn því sjálfir hvort tilefni sé til þess að láta reglur um meðferð innherjaupplýsingar og viðskipti innherja gilda um þá.
Stjórnvöld bera sjálf ábyrgð á því að setja reglur
Fjármálaeftirlitið hélt fræðslufund í apríl 2013 fyrir stjórnvöld. Þar voru reglur eftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherja til umfjöllunar ásamt leiðbeinandi tilmælum um framkvæmd reglnanna. Í kjölfarið, nánar tiltekið 20. júní 2013, sendi eftirlitið dreifibréf til stjórnvalda þar sem tekið var á helstu atriðum viðvíkjandi stjórnvöld og reglurnar. Bréfið var því sent eftir að sitjandi ríkisstjórn tók við völdum.
Í bréfinu segir meðal annars að „stjórnvöld beri ábyrgð á því að meta hvort eðli og umfang starfsemi þeirra gefi tilefni til þess að reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja skuli fylgt. Ef stjórnvald fær afhentar eða meðhöndlar innherjaupplýsingar reglulega í starfsemi sinni ber því að tilefna regluvörð sem hefur umsjón með að fyrrgreindum reglum sé framfylgt.”
Í tilvikum þar sem innherjaupplýsingar verða reglulega til í starfsemi stjórnvalda hefur regluvörður mikilvægu hlutverki að gegna. Hann þarf þá, að mati Fjármálaeftirlitsins, fyrst og fremst að hafa yfirsýn yfir varfærna meðferð innherjaupplýsinga þegar þær eru til staðar. „Fjármálaeftirlitið gerir ekki kröfu um að stjórnvöld haldi lista yfir innherja í slíkum tilvikum, en bent er á að slíkt verklag stuðlar að góðri yfirsýn yfir meðferð innherjaupplýsinga.”
Bjarni setti innherjareglur
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, taldi greinilega að tilefni væri til þess setja sérstakar innherjareglur vegna aðgerða sem stjórnvöld réðust í vegna slita búa föllnu bankanna og losun hafta. Hann staðfesti sérstakar innherjareglur fyrir marga þá sem að vinnunni komu 7. október 2014 og þær tóku gildi 1. nóvember 2014. Bjarni sjálfur, aðstoðarmenn hans, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skrifstofustjórar þess og aðrir starfsmenn sem komu að vinnunni um losun hafta féllu undir reglurnar.
Þær náðu einnig til allra þeirra sérfræðinga sem unnu að áætlun um losun hafta, meðal annars í framkvæmdahópi stjórnvalda, sem undirrituðu trúnaðaryfirlýsingu vegna starfa sinna. Brot gegn viðkomandi reglum gat þýtt að sá sem framdi það brot ætti yfir höfði sér fangelsisvist.
Þeir þingmenn sem sátu í samráðsnefnd þingflokka um afnám fjármagnshafta undirrituðu einnig allir þagnarheit sem í fólst að þeir gættu „þagmælsku um atriði sem ég kann að fá vitneskju um í starfi mínu fyrir hópinn sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan skal haldast þótt störfum hópsins sé lokið“. Þegar þingmennirnir skrifuðu undir þagnarheitið var þeim einnig gert ljóst að þeir kunni, í tengslum við störf hópsins, að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljist þar með innherjar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Samkvæmt trúnaðaryfirlýsingunni mátt enginn þeirra sem undir hana skrifuðu nota upplýsingarnar sem þeir fengu á annan hátt en til að leysa það verkefni sem fyrir þeim lág. Þar segir einnig að ráðgjafarnir sem skrifuðu undir megi deila upplýsingunum með öðrum sem tilheyrðu haftahópnum og öðrum einstaklingum sem tilnefndir höfðu verið af ráðherranefnd um efnahagsmál og undirnefndum hennar. Í þeirri ráðherranefnd sitja tveir ráðherrar: Sigmundur Davíð og Bjarni.
Þær innherjaupplýsingar sem um var að ræða, og bannað var að miðla til annarra eða hagnýta sér, eru til dæmis efni fyrirhugaðra lagafrumvarpa og vitneskja um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum.
Sigmundur Davíð ekki bundinn af innherjareglum
Kjarninn greindi frá því 23. mars að Sigmundur Davíð var hefði ekki bundinn af þessum reglum. Það staðfesti fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ekki hafa fengist skýringar á því af hverju forsætisráðherra var ekki bundinn af reglunum.
Því verður ekki til skoðunar hvort ákvörðun forsætisráðherra um að leyna því að eiginkona hans ætti aflandseignarhaldsfélags skráð á Bresku Jómfrúareyjunum og að það félag væri kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna sé í andstöðu við reglurnar, en reglurnar meina meðal innherjum að eiga gjaldeyrisviðskipti nema með leyfi regluvarðar.