Eins og lesendur hafa séð í umfjöllunum um Harlem-hagkerfið og Brooklyn-hagkefið, þá eru hverfi New York-borgar um margt ólík innbyrðis og hver með sína sérstöðu. Suðupottur fjölbreytileikans er einna augljósastur á Manhattan, þar sem búa 1,6 milljónir manna. Svæðið heimsækja um 50 milljónir manna á ári, bæði innlendir og erlendir ferðamenn.
Stórt og mikið hverfi
Queens er ekki jafn ofarlega í huga ferðamanna og Manhattan, en líkt og með önnur hverfi borgarinnar er þar sjálfstætt efnahagslíf, saga og menning sem teygir sig meira en 300 ár aftur í tímann, sé horft til þess tíma þegar það var orðið rótgróið sjálfstætt hverfi. Queens er næst stærsta hverfi New York borgar á eftir Brooklyn, með 2,3 milljónir íbúa. Borgin í heild telur um 8,4 milljónir íbúa.
Í hverfinu hefur menningarstarf New York borgar verið í öndvegi frá því á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar borgin markaði sér stefnu um að Queens yrði það hverfi í borginni, sem legði mesta áherslu á menningu af öllum hverfum borgarinnar. Það má deila um, hvaða hverfi er mest einkennandi fyrir fjölbreytt menningarlíf í New York – þar sem þau iða öll af menningarlegum einkennum – en Queens er sannarlega í fararbroddi. Söfn, stór og smá, einkenna hverfalífið og útimarkaðir eru víða, þar sem matarmenning og tíska, með áberandi litadýrð, setja mark sitt á umhverfið.
Stórkostlegt safn
Hið stórkostlega Queens Museum, þar sem kraftar New York borgar skella saman í frábærlega útfærðum sýningum um samtíð og fortíð, er eitt helsta djásn borgarinnar. Það heimsækja meira en fjórar milljónir manna árlega. Það er til marks um fjölbreytileikann í safninu, að það speglar mannréttindabaráttu Bandaríkjanna og New York borgar, og er síðan reglulega með smærri sýningar þar sem stefnur og straumar í hönnun og afþreyingu fá mikið rými. Í apríl er til að mynda sýning um áhrif rokkara í The Ramones á tísku- og tónlistarheiminn, og upphafsstef pönksins.
Tilefnið er 40 ára afmæli fyrstu plötu sveitarinnar. Sýningin nefnist Hey! Ho! Lets Go og fjallar ekki síst um plötuumslögin og myndir sem hafa fylgt þeim, en þær þykja áhrifamiklar í listfræðilegu tilliti.
Samgönguæð
Það sem helst einkennir Queens-hagkerfið eru meðal annars stórir og miklir vinnustaðir sem tengjast samgöngum, smásölu, menningu og listum. Bæði JFK flugvöllurinn og La Guardia flugvöllurinn eru í Queens, og því má segja að samgönguæðin til New York liggi um Queens. Þar lendir fólk, og tekur svo oftar en ekki stöðuna niður til Manhattan. Þjónustustörf eru uppistaðan í hverfinu, en líkt og með Brooklyn, þá hefur hverfið mikið reynt að fá til sín frumkvöðla og fjárfesta. Ekki síst þá sem flýja ört hækkandi húsnæðisverð á Manhattan. Þá eru líka rótgrónar listastofnanir í Queens, meðal annars Astoria Studios kvikmyndaverið.
Einkageirinn ber uppi atvinnulífið, en ekkert hverfi í New York er með hærra hlutfall starfa úr einkageiranum en Queens. Samtals eru þau um 440 þúsund, sé mið tekið af stöðu mála eins og hún var í lok árs 2014. Til samanburðar eru störf á vinnumarkaði á Íslandi um 190 þúsund.
Atvinnuleysi var lengi vel böl í hverfinu, en það hefur breyst á undanförnum árum. Það mælist nú innan við sex prósent, en á landsvísu er atvinnuleysið tæplega 5 prósent.
Ekki bara hvítir lengur
Eitt sinn var Queens frægt fyrir að vera heimavöllur hvítra í New York. Árið 1950 voru 96,5 prósent íbúa hverfisins hvítir, og svartir áttu þar erfitt uppdráttar, svo ekki sé meira sagt. Þeir mættu miklu mótlæti og órétti, ekki síst á vinnumarkaði. Óhætt er að segja þetta hafi breyst mikið. Árið 2013 var fyrsta árið þar sem hvítir voru ekki í meirihluta í hverfinu. Þá töldur 49,7 prósent til hvítra. Næst stærsti hópurinn var síðan fólk frá Asíu, 28 prósent, en af þeim eru Indverjar fjölmennastir.
Kynþættir í Queens |
2013 |
1990 |
1970 |
1950 |
Hvítir |
49.7% |
57.9% |
85.3% |
96.5% |
—Ekki spænskumælandi |
26.7% |
48.0% |
- |
- |
Svartir |
20.9% |
21.7% |
13.0% |
3.3% |
Spænskumælandi/Suður-Ameríka |
28.0% |
19.5% |
7.7% |
- |
Fólk frá Asíu |
25.2% |
12.2% |
1.1% | - |