Útsýnið frá Staten Island, lítilli eyju sem er skammt undan Manhattan sem tilheyrir New York borg, er ekki sem verst. Samfélagið á eyjunni er merkilegt fyrir margra hluta sakir, þar sem það liggur milli New Jersey og Manhattan, og mannlífið ber þess merki. Staten Island er eitt af fimm lykilhverfum New York borgar ásamt Manhattan, Brooklyn, Queens og Bronx. Kjarninn hefur fjallað um þessi hverfi og innviði þeirra að undanförnu, og tók einnig sérstaklega fyrir hið sögufræga Harlem-hverfi, sem tilheyrir Manhattan.
Þetta hverfi New York-borgar er það sem kemst næst því að vera eins og Ísland, ef svo má að orði komast. Á eyjunni búa 473 þúsund manns, af 8,9 milljóna heildaríbúafjölda New York, og blandast hópurinn úr öllum stéttum. Meðaltekjur eru þó háar, á heildina litið, en það stafar meðal annars af því að ákveðin íbúahverfi á eyjunni eru að miklu leyti byggð af hátekjufólki, meðal annars bankastarfsmönnum og þekktu fólki úr afþreyingariðnaði. Á það ekki síst við um hverfi, þar sem eru stórar villur víða og aðgengi að strönd.
Dýrustu eignirnar sem eru í New York ríki eru á Long Island, nánar tiltekið í Hamptons byggðinni. Þarf hafa margir sterkefnaðir Bandaríkjamenn komið sér fyrir, eða eiga þar eignir sem nýttar eru í fríum.
Ferjuferðir
Á milli Manhattan og Staten Island eru stanslausar ferjuferðir, á um 30 mínútna fresti yfir daginn, og síðan með aðeins lengra bili um helgar. Ferðin tekur um 25 mínútur. Margir velja að búa í eyjunni, en vinna síðan á Manhattan. Sé horft á húsnæðisverð í Staten Island og svo á Manhattan, þá er sambærileg íbúð um það bil tvöfalt til þrefalt dýrari á Manhattan. Það getur því verið lífkjarabót í því fólgin að leggja ferðalagið á sig á hverjum degi.
Einbýlishúsin í Staten Island eru hins vegar þau dýrustu í New York borg, enda mörg hver glæsivillur, eins og áður sagði.
Ferðaþjónusta efld
Hverfið, sem er með sérstaka hverfisstjórn, sem síðan heyrir undir New York borgar, hefur unnið eftir opinberri stefnu frá því árið 2009 um að fjölga ferðamönnum. New York, sem er ein mesta ferðamannaborg heimsins með um 50 milljónir innlenda og erlenda ferðamenn á ári, hefur reynt að horfa til þess að ferðamenn geti heimsótt fleiri svæði en einungis Manhattan, og er átak í sérstökum hverfum borgarinnar, ekki síst á Staten Island, hluti af þeirri stefnu að dreifa álaginu innan borgarinnar og auka margfeldisáhrifin í hagkerfinu.
Staten Island er öðru fremur íbúahverfi, þó þar sé þjónustustig hátt og atvinnustarfsemi hefur farið vaxandi. Vinnumarkaðurinn telur um 160 þúsund störf. Til samanburðar eru 194 þúsund störf á íslenskum vinnumarkaði.
Hvítir Bandaríkjamenn
Sögulega hefur Staten Island lengi verið vígi hvítra Bandaríkjamanna, og það hefur ekki breyst mikið á undanförnum árum. Um 80 prósent af íbúum eru að uppruna bandarískir og þar af er stór hluti, eða um 90 prósent, hvítir. Um tíu prósent íbúa eru svartir og síðan hefur íbúum frá Asíu og Súður-Ameríku fjölgað nokkuð á síðustu árum, líkt og í flestum öðrum hverfum borgarinnar.
Staten Island er umtöluð sem mikil útvistarperla þar sem fjölmargir garðar glæða hana lífi og bjóða upp á mikla möguleika til útivistar, ekki síst fyrir hlaupa og hjólreiðafólk.