Þegar minnst er á femínisma, hvað þá hugtök eins og feðraveldi, eiga sumir það til að bregðast reiðir við. Stundum heyrast jafnvel þau viðhorf að öfgafullir femínistar hafi komið óorði á kvenréttindabaráttuna sem sé í raun óþörf því konur njóti nú fulls jafnréttis á við karla.
Þarna gleymist kannski að það jafnrétti sem náðst hefur er árangur baráttu sem hefur verið löng og ströng og er alls ekki lokið. Það hefur einmitt einkennt hana að baráttumálin hafa gengið gegn því sem þykir tilhlýðilegt og til samræmis við ríkjandi venjur og gildi samfélagsins, en þykir nú sjálfsagt.
En hvers vegna er ennþá mikilvægt að gefa hlut kvenna í samfélaginu sérstakan gaum, ræða kynjakvóta, viðurkenna tilvist þess sem kallað hefur verið feðraveldi og leggja fram kynjuð fjárlög eða framkvæmdaáætlanir – eða að bjóða konum að setjast við sáttaborðið þegar reynt er að stilla til friðar í átökum og stríði?
Það gleymist gjarnan að heimurinn er stærri en Norður-Evrópa, þar sem jafnréttismál eru sennilega hvað lengst á veg komin. Staðreyndirnar tala líka sínu máli eins og nýlegar alþjóðlegar rannsóknir, sem m.a. eru kynntar í nýútkominni skýrslu Alþjóða-vinnumálastofnunarinnar sýna. Þar kemur fram að þrátt fyrir jákvæða þróun í átt að jafnrétti, sér í lagi á Vesturlöndum, eru konur enn að rekast á veggi og þök. Þrátt fyrir allt jafnréttið sem haldið er á lofti er konum enn haldið frá valdamiklum stöðum þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar.
Það ríkir því ennþá valdabarátta þar sem konum er haldið niðri. Það má m.a. rekja til aldagamals hugsunarháttar – sem við getum alveg eins kallað feðraveldi – staða konunnar er enn háð gamalgróinni valdauppbyggingu samfélagsins, einnig hér á Vesturlöndum. Þetta er m.a. ástæða þess fjárlög eru kynjuð, því mikilvægt er að viðkomandi framkvæmdir eða fjárveitingar styrki ekki og viðhaldi því valdakerfi misréttis sem ríkir heldur stuðli að auknu jafnrétti.
Mikilvægi framlags femínískra fræða til alþjóðamála
Femínísk umræða hefur haft mikil áhrif í hug- og félagsvísindagreinum frá því á sjöunda áratugnum þegar kvenréttindabylgjan reið yfir. Þar má nefna gagnrýni á hvernig hin karllægu gildi og hugsunarháttur eru innbyggð í meginstrauma alþjóðafræða sem kemur í veg fyrir að þau nýtist til fulls til að skilja, útskýra og leysa þau vandamál sem að steðja. Með því að taka konur og kyngervi inn í umræðuna megi hins vegar auka víðsýni manna, brjóta upp staðnað hugarfar og hreyfa við fyrirfram gefnum hugmyndum um hvað sé mikilvægt og eigi að vera í forgrunni.
Þetta á sérstaklega við um stríðshrjáð lönd eða þar sem ógnarstjórn ríkir en reynslan hefur sýnt að þeir sem fyrst finna fyrir afleiðingum átaka og stríðs eru konur og börn. Jafnframt er það þannig að þessi heimur stríðs og átaka er gjarnan skilgreindur út frá körlum og karllægum gildum. Í ljósi þessa er mikilvægt að konur geti komið að borðinu til að marka stefnu og taka ákvarðanir. Tilhneiging er þó að flokka málefni kvenna á þann hátt að þau ekki hafi neina raunverulega þýðingu þegar kemur að lausn hinna erfiðari og hörðu mála, stríða og milliríkjadeilna.
Staðreyndin er samt sú að þessi svokölluðu kvennamálefni eru mál sem varða stöðugleika, jafnrétti og öryggi. Bæði rannsóknir og reynslan sýna ótvírætt að þar sem konur sæta kúgun og eru beittar misrétti, þar þrífst óstöðugleiki sem nærir öfgafullt hugarfar – og þar með ófrið og átök. Samfara því að afleiðingar stríðs og átaka virðast bitna mest á þeim er síst skyldi, konum og börnum, hefur orðið mannréttindabylting í heiminum. Og þegar konur hafa náð að gera sig gildandi í samfélaginu hefur fólk líka áttað sig á gildi þekkingar þeirra og viðhorfa í alþjóðamálum.
Ályktun öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna nr. 1325
Því hefur alþjóðasamfélagið reynt að bregðast við með því að auka þátttöku kvenna þegar kemur að því að leiða deilur og átök til lykta. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf út ályktun 1325, árið 2000 þar sem eitt af lykilatriðunum í þessari umræðu er áréttað, að konur og sjónarmið þeirra eigi ekki aðeins erindi inn í umræðuna vegna þess að átök hafi sérstakar afleiðingar fyrir þær heldur einnig að þær geti haft áhrif sem máli skipti. Í ályktuninni segir orðrétt,
„Útgangspunktur ályktunarinnar er sá að konur geta bæði haft áhrif í vopnuðum
átökum og að átök hafa sérstakar afleiðingar fyrir þær. Ályktunin undirstrikar mikilvægt
hlutverk kvenna í friðsamlegri lausn vopnaðra átaka og friðaruppbyggingu, og leggur
áherslu á þátttöku þeirra og aðild að öllum aðgerðum sem viðhalda og stuðla að friði og
öryggi til jafns við karla. Ályktunin brýnir fyrir aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að
grípa til margvíslegra aðgerða til að flétta sjónarmið og reynslu kvenna inn í aðgerðir í
þágu friðar.‘‘
Í ályktuninni er komið inn á málefni er varða stríðshrjáð svæði þar sem konur og börn verða oft fyrir barðinu á stríðandi fylkingum þar sem þau verða oft og tíðum fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar og kynbundins ofbeldis. Með því að fjölga konum sem friðargæsluliðum á átakasvæðum má draga úr þessu ofbeldi. Hlutverk kvenna í forvörnum og vinna að lausn á átökum er nauðsynlegur þáttur í friðarferli og til að koma í veg fyrir stríð.
Ísland hefur verið með framkvæmdaáætlun í tengslum við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325. Í liðinni viku var haldin tveggja daga alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík um ályktunina og innleiðingu hennar á átakasvæðum. Tilgangur ráðstefnunnar var að meta árangurinn af ályktun 1325 og ræða þær hindranir sem enn standa í vegi fyrir framkvæmd hennar, rúmum fimmtán árum eftir að hún var samþykkt í öryggisráði SÞ.
Ljóst er að þótt unnið hafi verið ötullega að þessum málum er enn langt í land með að hlutur kvenna sé nógu stór þegar kemur að friðarumleitunum. T.d. má nefna að konur eru nú einungis um 10 prósent þeirra sem vinna við friðargæslu og eiga sæti í samninganefndum þar sem unnið er að því að koma á friði.
Jafnréttis- og friðarmál eru sá málaflokkur sem Ísland hefur beint kröftum sínum að í alþjóðasamstarfi, m.a. á vegum S.Þ. og NATO. Lilja Alfreðsdóttir, sem nýlega tók við stöðu utanríkisráðherra, sagði á ráðstefnunni frá áformum um að stefnt væri að því að kynna nýja metnaðarfulla landsáætlun 2017-2020 um framkvæmd ályktunar Sameinuðu þjóðanna 1325 um konur, frið og öryggi, á næstu mánuðum.
Utanríkisráðherra sagði einnig að jafnréttisbaráttan væri jafn mikilvæg og fyrr, tölurnar töluðu sínu máli; eftir því sem konum fjölgaði í friðarumleitunum og í áhrifastöðum á opinberum vettvangi drægi úr líkunum á átökum og ofbeldi. En með sama áframhaldi yrði jafnrétti þó ekki náð fyrr en árið 2095. Það hlýtur að teljast óásættanlegt og ljóst að framundan eru verkefni sem þarf að vinna til að svo verði ekki.
Nánar verður fjallað um niðurstöður ráðstefnunnar síðar á þessum vettvangi.