Borgun hefur greitt eigendum sínum þrjá milljarða í arð fyrir rekstrarárin 2014 og 2015. Á aðalfundi Borgun í gær var ákveðið að greiða 2,2 milljarða í arð til hluthafa, vegna ársins 2015. Frá þessu var greint á vef Vísis í dag. Áður en kom til arðgreiðslunnar í fyrra, hafði ekki verið greiddur arður úr félaginu frá árinu 2007.
Hagnaður af reglulegri starfsemi Borgunar var 1,5 milljarðar árið 2015. Þá var bókfærður hagnaður vegna fyrirhugaðra kaupa Visa International á Visa Europe upp á 5,4 milljarða en stefnt er að ganga frá viðskiptunum á fyrri hluta ársins.
Seldi fyrir 2,2 milljarða
Eins og kunnugt er seldi Landsbankinn, sem ríkið á ríflega 98 prósent hlut í, 31,2, prósent hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna í nóvember 2014. Þetta var gert bak við luktar dyr í lokuðu söluferli, og voru þeir einu sem fengu að bjóða í hlutinn.
Arðgreiðslur til hópsins sem keypti hlut Landsbankans í Borgun nema 932 milljónum króna á tveimur árum.
Stærsti hluthafi í Borgun er Íslandsbanki, sem ríkið á 100 prósent, en hann á 63,4 prósenta hlut. Þá á Eignarhaldsfélagið Borgun slf. á 29,38 prósenta hlut og félagið BPS ehf., sem er í eigu starfsmanna Borgunar, á 5 prósenta hlut.
Málsókn og athugasemdir FME
Landsbankinn ætlar að fara í mál vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun en bankinn hefur falið lögmönnum að undirbúa málsókn „til þess að endurheimta þá fjármuni sem bankinn fór á mis við í viðskiptunum.“
Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að verklag Landsbankans við söluna á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun í nóvember 2014 hafi verið „áfátt og það heilt á litið ekki hafa verið til þess fallið að skila bestri niðurstöðu fyrir bankann. Með vísan til þess er það mat Fjármálaeftirlitsins að verklag bankans við sölu á eignarhlut hans í Borgun hafi ekki að öllu leyti samræmst eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði". Stofnunin telur þó ekki tilefni til að grípa til frekari aðgerða að svö stöddu þar sem Landsbankinn hafi þegar tilkynnt, að eigin frumkvæði, að hann ætli að grípa til aðgerða vegna málsins. Þetta kemur fram íniðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlitsins á viðskiptaháttum Landsbankans vegna sölunnar á Borgun sem birt var 31. mars.
Skiptist í þrjá flokka
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar, sem nú á 29,43 prósent hlut, nam 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð.
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Stofnfundur í október 2014
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október 2014, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.
Bankaráðið hætt
Mikill titringur hefur verið vegna sölu Landsbankans á fyrrnefndum hlut í Borgun, og gagnrýndi Bankasýsla ríkisins bankaráðið og bankastjórann, Steinþór Pálsson, harkalega. Lárus Blöndal, formaður Bankasýslunnar, kom þeim til skilaboðum til Tryggva Pálssonar, formanns bankaráðsins, að það ætti allt að víkja og Steinþór sömuleiðis. Tryggvi hefur sjálfur sagt, að það hafi verið mistök að auglýsa hlutinn ekki til sölu, hins vegar hafi aðeins góður hugur verið að baki, og hagsmunir bankans látnir ráða för. Ferlum við sölu á eignum hefur nú verið breytt, þannig að aukið gagnsæli er í allri eignaumsýslu bankans.
Kosið verður formlega nýtt bankaráð á morgun, eftir að kosningu um það var frestað. Aðalmenn í bankaráði eru samkvæmt tillögu Helga Björk Eiríksdóttir, formaður, Berglind Svavarsdóttir, Danielle Pamela Neben, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson, Magnús Pétursson og Einar Þór Bjarnason.