Niðurstaða dómstóla í Bretlandi, eftir lengstu málsmeðferð í sögu breska réttarkerfisins, er sú að lögregla í Bretlandi hafi brugðist í öllum meginatriðum, og gripið til ólöglegra aðgerða sem leiddu til aðstæðna sem drógu 96 áhorfendur Liverpool til dauða á Hillsborough vellinum í Sheffield, 15. apríl 1989. Þá áttust Liverpool og Nottingham Forrest við í undanúrslitum FA bikarkeppninnar.
Með tárin í augunum
Eftir 27 ára baráttu aðstandenda þeirra sem létust, er skýr niðurstaða komin í þennan hrikalega atburð, sem er þrykktur í minni íbúa Liverpool. „Réttlætið sigraði,“ sagði Margaret Aspinall, talsmaður aðstandenda, fyrir utan dómshúsið, með tárin í augunum. Hún hefur sjálf leitt baráttu aðstandenda, og meðal annars hafa Liverpool borg og knattspyrnufélögin Liverpool og Everton stutt dyggilega við baráttu þeirra, með ýmsum hætti.
Stefnubreyting
Árið 2014 varð stefnubreyting í málinu, þegar dómstólar felldu úr gildi fyrri niðurstöðu í málinu, þess efnis að stuðningsmennirnir hefðu farist af slysförum. Dánardómstjóri hóf þá rannsókn á málinu á nýjan leik. Eftir vitnaleiðslur og efnismikil réttarhöld, lýsti kviðdómur í málinu afstöðu sinni til fjórtán spurninga sem dánardómstjórinn hafði lagt fyrir hann að svara. Meginniðurstaðan var sú, að lögreglan í Sheffield var sek um vanrækslu sem leiddi til dauða fólksins, og var það enn fremur staðfest að ekki hefði verið hægt að kenna stuðningsmönnum Liverpool um hvernig fór.
Yfirmaður ber ábyrgð
Sérstaklega beindust spjótin að yfirmanni lögregluaðgerða á vettvangi, David Duckenfield hjá lögreglunni í Suður-Yorkshire, en í niðurstöðu kviðdómsins var komist að því, að hann bæri ábyrgð á dauða stuðningsmannanna með ábyrgðarlausum ákvörðunum, meðal annars um að fyrirskipa opnun á hliði inn á völlinn, sem leiddi til mikils þrýstings meðal áhorfenda. Þeir köfnuðu margir hverjir við girðingu á vallarsvæðinu, eða urðu undir hópi fólks.
Talsmenn lögreglu létu hafa eftir sér skömmu eftir slysið, að stuðningsmennirnir hefðu sjálfir komið sér í þessar aðstæður, með því að fara ólöglega inn á völlinn. Voru meðal annars margir fjölmiðlar sem fluttu af þessu fréttir, þar á meðal The Sun, sem gekk lengra en allir aðrir miðlar, og birti frásagnir af drykkjulátum stuðningsmanna Liverpool, þvert ofan í hörmungarnar, og að dauði fólksins hefði verið vegna hegðunar stuðningsmanna. Blaðið hefur opinberlega beðist afsökunar á blaðamennskunni.
Sjúkraflutningamenn of seinir til
Kviðdómur komst einnig af því, að sjúkrabílar hefðu verið alltof seinir á vettvang þar sem lögregla hefði verið of sein að greina aðstæður og fyrirskipa tafarlaust allsherjarútkall. Þetta hefði leitt til verri aðstæðna en annars hefðu skapast, og gert bráðaaðgerðir erfiðari.
Margir hafa fagnað niðurstöðunni í dag, og bent á hið augljósa og mikilvæga, að réttlætið hefði sigrað að lokum. Á meðal þeirra sem fylgst hefur grannt með málinu í 27 ár, og stutt dyggilega við bakið á aðstandendum, fyrrverandi knattspyrnustjórinn og leikmaðurinn Kenny Dalglish, lét hafa eftir sér í dag, að sannleikurinn hefði verið leiddur fram, þökk sé hugrekki aðstandenda þeirra sem létu lífið.
Steven Gerrard, fyrrverandi leikmaður og fyrirliði Liverpool, birti á Instagram síðunni sinni mynd til heiðurs fjölskyldum fórnarlambanna. Frændi hans, Jon-Paul Gilhooley, var yngsta fórnarlambið, en hann var tíu ára. Sjálfur var Gerrard níu ára gamall þegar atburðurinn átti sér stað.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði niðurstöðunni og sagði hana mikilvæga fyrir fjölskyldur þeirra sem létu lífið, eftirlifendur úr harmleiknum en einnig breskt samfélagið. Lokapunkturinn í þessu skelfilega máli hefði verið langsóttur, en náðst fram að lokum.