Nova er orðið það fjarskiptafyrirtæki sem er með mesta markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Alls eru 34 prósent allra áskrifta á farsímaneti hjá Nova en 33,8 prósent hjá Símanum. Vodafone er í þriðja sæti með 28,1 prósent og 365, sem boðið hefur upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti frá haustinu 2013, er með 3,4 prósent hlutdeild.
Staðan á þessum markaði hefur breyst hratt á undanförnum árum. Um mitt ár 2008 var Síminn með 56,6 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði og Vodafone með 36,4 prósent. Samanlögð markaðshlutdeild fyrirtækjanna tveggja var því 93 prósent. Nú er hún um 62 prósent. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn sem birt var á þriðjudag.
Síminn er enn með langflesta viðskiptavini í fastri áskrift, en þar er hlutdeild fyrirtækisins 42,5 prósent og nærri þrír af hverjum fjórum viðskiptavinum Símans eru í fastri áskrift. Vodafone er með 31,5 prósent af þeim markaði og Nova með 19 prósent. Þá er uppistaðan af þeim viðskiptavinum sem 365 er með í farsímaþjónustu með fasta áskrift.
68 prósent viðskiptavina Nova eru hins vegar með svokallað frelsi, eða fyrirframgreidda farsímaþjónustu.
4G-byltingin breytti öllu
Fjarskiptamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og snýst nú um svo miklu meira en bara símtöl. Aðaláherslan nú er á gagnamagn, sem sést vel á þeirri aukningu sem orðið hefur á gagnamagni á farsímanetinu á undanförnum árum. Á árinu 2013 notuðu Íslendinga 2,7 milljónir gígabæta á farsímanetinu. Í fyrra notuðu þeir 10,2 milljónir gígabæta, eða tæplega fjórum sinnum meira magn.
Ástæðan fyrir þessari miklu breytingu er sú að farsímatímabil fjarskiptageirans er að líða undir lok og gagnaflutningatímabilið að taka við. Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrsta háhraðakynslóð farsímanetskerfið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan.
Næsti fasi stendur nú yfir, skrefið yfir í 4G-kerfið. Skrefið sem verður tekið upp á við með henni er stærra en margir átta sig á. Hraðinn á 4G-tengingu er tíu sinnum hraðari en í 3G og um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
4G-væðingin á Íslandi hófst af alvöru á árinu 2014 þegar fjöldi 4G-korta í símum fimmfaldaðist.
Í fyrra urðu 4G-kort í fyrsta sinn fleiri en 3G-kort. Nú eru 43,3 prósent útgefinna farsímakorta 4G en 39,4 prósent þeirra 3G. Til samanburðar má nefna að í árslok 2013 voru sex prósent Íslendinga með 4G-kort í símanum sínum.
Viðskiptavinum 365 í interneti fjölgaði um 114
Nova er með langsterkustu stöðuna þegar kemur að notkun gagnamagns á farsímaneti. Markaðshlutdeild fyrirtækisins á þeim markaði er 64,6 prósent á meðan að Síminn er með 18,3 prósent og Vodafone með 12,8 prósent. Einungis 4,1 prósent af gagnamagnsnotkun á farsímaneti í fyrra var á meðal viðskiptavina 365.
Þessi notkun segir þó ekki alla söguna. Uppistaðan af gagnamagnsnotkun Íslendinga á sér stað á fastanetinu. Þ.e. Íslendingar reyna frekar að vera með snjalltækin sín tengd fastaneti heima hjá sér og á vinnustöðum frekar en að notast við 3G eða 4G kerfin til að ná sér í gögn. Á fastanetinu er Síminn með mjög sterka stöðu. Alls eru 48,8 prósent allra internettenginga á Íslandi hjá Símanum. Vodafone er með 29 prósent og eru þessir tveir aðilar með töluverða yfirburði á markaðnum. Þannig hefur staðan haldist undanfarin ár. 365 missti markaðshlutdeild á internetmarkaði í fyrra þegar hlutfall hennar fór úr 13 prósentum í 12,6 prósent. Viðskiptavinum fyrirtækisins í internetþjónustu fjölgaði úr 15.551 í 15.665, eða um 114 talsins. Hringdu bætti hins vegar vel við sig á síðasta ári og jók markaðshlutdeild sína úr 3,7 prósent í 5,4 prósent. Alls voru viðskiptavinir Hringdu í internetþjónustu 6.741 um síðustu áramót, eða 2.308 fleiri en þeir voru ári áður.
Nova hefur ekki selt internetþjónustu með öðrum hætti en í gegnum farsímakerfi á undanförnum árum. Á því varð breyting í síðasta mánuði þegar að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að hefja ljósleiðaraþjónustu. Því mun samkeppnin þar aukast til muna á næstunni.
Sex af hverjum tíu hjá Símanum
Í tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar er nú birt yfirlit yfir heildarfjölda áskrifenda með sjónvarp yfir IP-net. Þ.e. hvernig „sjónvarpsboxin“ skiptast á milli þeirra aðila sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á að vera með sjónvarp í gegnum nettengingar. Þeir aðilar eru tveir, Síminn og Vodafone og þeir virðast hafa skipt markaðnum nokkuð bróðurlega á milli sín á undanförnum árum. Síminn er með um 61 prósent markaðshlutdeild en Vodafone um 39 prósent. Og þannig hefur staðan verið árum saman.
Þar skiptir ugglaust miklu máli að ekki er hægt að tengjast sjónvarpi Símans í gegnum ljósleiðaranet, sem byggst hefur upp á undanförnum árum, heldur bara sjónvarpi Vodafone. Þess í stað býður Síminn upp á svokallað ljósnet, sem tengist inn í heimili í gegnum kopartaug.
Tekjur vegna fjarskipta vaxa milli ára
Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar er birt yfirlit yfir heildartekjur af fjarskiptastarfsemi. Tekjur af fjarskiptastarfsemi voru samtals 54.834 milljónir króna í fyrra og jukust um rúman 2,5 milljarða króna á milli ára. Þær voru tæplega sex milljörðum krónum hærri en þær voru árið 2012. Mestar tekjurnar koma vegna farsímarekstur (16,1 milljarðar króna) en tekjur vegna gagnaflutnings og internetþjónustu jukust úr 8,9 í 9,8 milljarða króna. Þá skilaði sjónvarpsþjónusta 3,3 milljörðum króna.