Stundum
er talað um að þetta eða hitt gangi á afturfótunum og allt fari úrskeiðis.
Þessi lýsing á sannarlega við smíði nýju brúarinnar í Kaupmannahöfn, yfir
kanalinn frá Nýhöfninni yfir á Kristjánshöfn. Þar hefur flest sem hugsast getur
farið úrskeiðis en nú hillir undir að hún verði tekin í notkun, meira en þremur
árum seinna en til stóð.
Fyrir tíu árum kom fyrst fram, að minnsta kosti opinberlega, hugmyndin um að byggja brú frá Nýhöfninni yfir á Kristjánshöfn. Skömmu áður hafði Óperan (eins og húsið heitir) verið tekin í notkun. Flestum þótti, og þykir, húsið sóma sér vel á bakkanum gegnt Amalíuborg, en hinsvegar nokkuð úr leið og einangrað frá miðborginni. Brú úr Nýhöfninni, ásamt tengbrúm, var ætlað að bæta úr þessu. Þegar hugmyndin um fyrirhugaða brú barst skipakónginum Mærsk MC-Kinney Møller til eyrna brást hann illa við. Hann hafði gefið dönsku þjóðinni Óperuna og við hönnun hússins hafði hann skipt sér af öllu, stóru og smáu. Fyrirhuguð brú myndi setja sterkan svip á nágrenni Óperunnar og hreint ekki sama hvernig hún liti út, var mat skipakóngsins. Hann bauðst því til að leggja stórfé í smíði brúarinnar og einnig annarra minni brúa á Kristjánshöfn. Borgin þáði boðið. Formleg ákvörðun um að brúarsmíðina var tekin í ársbyrjun 2008. Hún skyldi vera göngu-og hjólreiðabrú, ekki ætluð bílum.
Þekktur arkitekt teiknaði brúna
Breski arkitektinn Cezary Bednarski teiknaði brúna. Bednarski, sem er af pólskum ættum, hefur teiknað fjölmargar þekktar byggingar og mannvirki víða um heim. Hann hefur í viðtölum sagt að það sé mikill ábyrgðarhluti að teikna mannvirki sem verði jafn áberandi í umhverfinu og þessi nýja brú í Kaupmannahöfn. Hann og Ian Firth hjá bresku verkfræðistofunni Flint & Neill unnu saman að hönnuninni.
Brúin er 180 metra löng og 8 metra breið, frá upphafi lá fyrir að hún yrði opnanleg fyrir skip. Þeir Bednarski og Firth ákváðu að fara ekki hefðbundna leið. Í stað þess að brúin yrði svonefnd vindubrú þar sem hluti brúarinnar lyftist þegar skip fara um, skyldi miðhluti brúarinnar sem væri tvískiptur (samtals 50 metrar) dragast inn undir brúarsporðana. Þegar brúin lokast mætast svo þessir tveir færanlegu hlutar og brúin lokast. Kyssast segja Danir og þaðan kemur viðurnefnið „Kossabrúin”. Arkitektinn sagði í viðtali við Berlingske að sér hafi frá upphafi verið ljóst að verkefnið væri mjög flókið. Það reyndust orð að sönnu.
Phil & Søn bauð lægsta verðið
Í árslok 2009 var tilkynnt að verktakafyrirtækið Phil & Søn hefði átt lang hagstæðasta tilboðið og gengið var til samninga. Gert var ráð fyrir að kostnaðurinn næmi um það bil 200 milljónum króna (3,8 milljörðum íslenskum) og brúin skyldi tekin í notkun í febrúar 2013.
Tæknideild Kaupmannahafnarborgar skyldi hafa yfirumsjón með verkinu og samvinnu við fjölda undirverktaka Phil & Søn. Þetta fyrirkomulag reyndist þegar til kom afar tafsamt og olli margs konar árekstrum. Phil & Søn varð að bera alla skapaða hluti undir starfsfólk tæknideildar borgarinnar, sem iðulega varð svo að leita til kjörinna fulltrúa áður en hægt væri að taka endanlegar ákvarðanir.
Framkvæmdir hófust í október 2011, byrjað var á undirstöðum beggja vegna kanalsins, allt leit vel út.
Stólparnir of háir
Í maí 2012 þegar vinnuflokkur var að setja upp vinnupalla (stillansa) við stólpana öðru megin kanalsins tóku menn eftir því að vinnupallarnir virtust ekki vera nógu háir. Þegar farið var að rýna í teikningarnar kom í ljós að stólparnir, sem eru steyptir, reyndust meira en hálfum metra of háir. Þeir sem byggðu stólpana höfðu fengið rangar teikningar til að vinna eftir, Phil & Søn sagði embættismenn borgarinnar ábyrga fyrir því. Það tók fjóra mánuði að stytta stólpana. Þá var ljóst að brúin yrði ekki tekin í notkun á tilsettum tíma, í febrúar 2013.
Í mars 2013 komu í ljós alvarlegir gallar á miðjuhlutunum tveimur (þeim opnanlegu) sem gerðir eru úr stáli. Þessir miðjuhlutar eru engin smásmíði, hvor um sig vegur 250 tonn. Í apríl og maí sama ár komu ennfremur í ljós gallar í steypunni í brúargólfinu.
Phil & Søn verður gjaldþrota
Í ágúst 2013 varð verktakafyrirtækið Phil & Søn gjaldþrota, ástæðan var þó ekki brúarsmíðin. Kaupmannahafnarborg varð þá að fara á stúfana og finna nýjan verktaka. Á meðan sú leit stóð yfir gerðist það, í desember 2013, að stormurinn Bodil gekk yfir Danmörku og olli víða miklum skemmdum. Þar á meðal á öðru vélarrúmi nýju brúarinnar, þar eyðilögðust tvær vélar ásamt öðrum búnaði.
Nýr verktaki kemur til sögunnar: Valmont SM
Í ársbyrjun 2014 tilkynnti borgin að fyrirtækið Valmont SM væri nýr yfirverktaki brúarinnar. Jafnframt var tilkynnt að A.P. Møller sjóðurinn ætlaði að leggja fram aukna fjármuni til verksins, sem þá var komið um það bil 100 milljónum (dönskum) fram úr áætlun. Hvenær hægt yrði að opna brúna vissi enginn á þessum tíma. Í september þetta sama ár, 2014, tilkynnti Valmont SM að hluti burðarvirkisins í opnanlegu hlutunum, sem reyndust gallaðir 2013 og þurfti að skipta út, yrðu ekki tilbúnir á tilsettum tíma. Þetta vakti ekki sérstaka athygli, flestir voru orðnir vanir slíkum fréttum.
Í ágúst 2015 voru miðjuhlutarnir tveir komnir á sinn stað og brúnni var lokað, ef svo má að orði komast, í fyrsta sinn. Í ljós kom að búnaðurinn til að draga miðjuhlutana inn undir brúarsporðana reyndust ekki nægilega sterkbyggðir. Í mars á þessu ári var nýr búnaður kominn á sinn stað og er sagður virka eins og til er ætlast.
Í tilkynningu frá tæknideild borgarinnar fyrir nokkrum dögum kom fram að verktakinn myndi afhenda brúna fullgerða og tilbúna til notkunar um miðjan júní, meira en þremur árum seinna en til stóð í upphafi.
Mikil samgöngubót
Nýja brúin verður án efa mikil samgöngubót. Tæknideild borgarinnar telur að sjö til átta þúsund hjólreiðamenn muni daglega fara um brúna og mikill fjöldi gangandi fólks. Fyrir Íslendinga sem erindi eiga í íslenska sendiráðið kemur brúin sér vel, Kristjánshafnarendi hennar er nánast við dyr sendiráðsins við Strandgötu.
Margra ára málaferli framundan
Í ítarlegri umfjöllun dagblaðsins Berlingske um þessa miklu framkvæmd kemur fram að þótt brúin komist í gagnið sé ekki öll sagan sögð. Nú hefjist mörg og flókin málaferli sem taki mörg ár. Setningin „ekki benda á mig” úr þekktu lagi Bubba Morthens á þarna sannarlega við. Hönnunarfyrirtækið og arkitektinn telja tæknideild borgarinnar bera höfuðábyrgð á klúðrinu, borgin telur sig hafa staðið rétt að öllum málum. Fjölmargir undirverktakar telja sig hafa orðið fyrir miklu tjóni sem þeir vilja fá bætt. En hvað sem því líður er óhætt að fullyrða að íbúar Kaupmannahafnar og þeir sem sækja borgina heim munu njóta þess að fara um brúna, gangandi og hjólandi.