„Doherty hafði ekkert fyrir því að hlaupa framhjá mönnum. Hann gat farið í gegnum tæklingar eins og að drekka vatn. Hann gat farið inn í gegnum vörnina og utan á hana líka. Var góður í stuttu spili (1, 2s)[...] Þú veist, í The Matrix, þegar allir hlutirnir eru að tengjast, og gerast mjög snöggt – en hægt og rólega í höfðinu á karakternum (Neo). Þetta var þannig hjá Doc.“
Svona lýsir goðsögnin Ryan Giggs, fyrrum félaga sínum hjá unglingaliði Manchester United, Adrian Doherty, sem oftast var kallaður Doc. Hann þótti stórkostlega efnilegur leikmaður, einn sá besti sem komið hefur fram hjá félaginu. Giggs var í skugganum af honum, og þótti ekki eins góður. „Hann var ekki frá þessum heimi (out of this World),“ segir Gary Neville, sem lék með Giggs og Doherty í gegnum unglingaliðin. Hann er einn af þeim sem aldrei er minnst á, þegar hinn frægi ´92 árgangur er til umræðu. Giggs, Scholes, Butt, Neville bræður, Beckham. En aldrei Doherty.
Sorgarsaga ljúflings
En hver er þessi náungi og hvað varð um hann? Hvers vegna er hans aldrei getið þegar gullaldarárgangar Manchester United, sem lögðu grunninn að ótrúlegri sigurgöngu undir handleiðslu Alex Ferguson, eru til umræðu?
Stutta svarið er það, að Doherty lést þegar hann var tæplega 27 ára, 9. júní árið 2000. Hann datt á göngu í Hollandi, algjörlega upp úr þurru, og var í dái á sjúkrahúsi í mánuð. Þar til hann lést. Nokkrum árum áður hafði fótboltaferillinn komist á endastöð.
Hann meiddist illa á hné þegar hann var að brjótast inn í aðalliðið, árið 1992, og náði sér aldrei almennilega. Fjölskylda Doherty hefur aldrei fyrirgefið Manchester United meðferðina sem hann fékk, því hann náði sér ekki af meiðslunum og missti samning. Hann var ekki af ríku fólki kominn og þurfti strax að leita sér að vinnu. Um tíma vann hann í súkkulaðiverksmiðju í Preston. Hann gerði tilraun til þess að ná sér af meiðslunum, en allt kom fyrir ekki. Hann færði sig svo til Hollands, nánar tiltekið til Haag, í apríl árið 2000, þar sem hann fór að vinna hjá húsgagnafyrirtæki á tímabundnum starfssamningi.
Ferillinn búinn
Ferillinn fór bara strax út um þúfur, eftir að læknalið Manchester United hafði greint honum frá því, að meiðslin væru mjög alvarleg og liðböndin varanlega sködduð. Röng meðhöndlun gerði alvarlega stöðu enn verri. Félagar hans héldu við hann sambandi, og voru Giggs og Gary Neville alla tíð nánir vinir hans. Þeir reyndu að hjálpa til, en læknisskoðanir sýndu að hann myndi ekki ná sér almennilega aftur. Á aldarfjórðungi hafa miklar framfarir orðið þegar kemur að meðhöndlun hnémeiðsla, og því má teljast ólíklegt að þetta gæti gerst í dag.
Hinn 19. maí næstkomandi kemur út bók um Doherty í Bretlandi eftir Oliver Kay sem ber heitið Forever Young. Þar er farið yfir feril Doherty, og tímann eftir að hann hætti í fótboltanum. Í Manchester hafa lengi verið sögur um að hann hefði verið óreglumaður og ekki haft agann til þess að ná langt, en raunveruleikinn er allt annar. Þetta staðfestir Alex Ferguson sjálfur í bókinni og segir Doherty hafa verið góðan dreng, í sem í minningunni hafi samið ljóð, sungið og spilað á gítar á milli þess sem hann spændi framhjá mótherjum sínum á vellinum. Ferguson segir Doherty hafa verið frábæran leikmann, og einn af þeim sem hann hefði teiknað liðið í kringum, áður en meiðsli gerðu honum lífið leitt.
Spilaði á gítar við verslunarmiðstöð
Doherty fylgdist lítið með fótbolta og var þekktur fyrir að gefa frá sér miða á leiki aðalliðsins og fara þess í stað að spila einn með gítarinn fyrir fram Arndale verslunarmiðstöðina í Manchester. Þá lék hann á gítar í bandi sem þótti um tíma efnilegt og hét Mad Hatters. „Hann lá yfir Bob Dylan textum þegar hann var sextán ára. Ég hafði ekki hugmynd um hver Bob Dylan var þegar ég var sextán,“ segir Giggs í bókinni, sem The Guardian fjallaði um gær.
Höfundur bókarinnar segir að fjölskylda Doherty sé sár og svekkt með það, hvernig Manchester United kom fram við Doherty eftir meiðslin. Þrátt fyrir að góð samskipti við þjálfarateymi og leikmenn, þá hafi starfsmenn og læknaliði ekki sýnt Doherty neinn áhuga. Faðir hans, Jimmy, fór margar ferðir til þess að ýta á félagið, og að aðstoða son sinn, því tiltrúin á hæfileika hans hafði verið mikil fyrir meiðslin. Nú, tæpum sextán árum eftir að hann lést, eru sárindin ennþá mikil. Fjölmiðlaumræða situr einnig í fjölskyldunni, því sögurnar sem gengu um að hann hefði ekki haft það sem þurfti til, voru nístandi sársaukafullar. Alveg sama hvað var reynt, þá vildi enginn heyra sannleikann.
Jimmy segir einnig, að Gary Neville, sem þá var varafyrirliði Manchester United, hefði sagt Doherty í símtali að það væri tilgangslaust að reyna að takast á við félagið um þetta. Leikmannasamtökin á Englandi og enska knattspyrnusambandið, hefðu einnig snúið baki við honum. Hann hefði ekki verið að sækjast eftir peningum heldur afsökunarbeiðni, vegna þess að læknalið Manchester United gerði mistök sem leiddu til þess, að liðböndin í hnénu urðu aldrei nægilega sterk fyrir fótboltaiðkuna á hæsta stigi.
Átti góð ár
Bróðir Doherty segir hann hafa átt bestu ár ævi sinnar, frá tvítugu og fram að því að hann lést. Þvert á það sem margir halda. Hann hafi ekki tekið sig alvarlega, og liðið best þegar hann var að semja ljóð, texta og spila lög. Hann hafði ekki verið sár eða í þunglyndi yfir örlögum sínum, og átt auðvelta með að gleðjast fyrir hönd gömlu félaga sinna, sem urðu að stórstjörnum og mynduðu eitt sigursælasta lið Evrópu, eftir að hann hætti. Þeir hafi hins vegar verið í öðrum veruleika.
Alveg fram á síðasta dag hefði hann verið dagdreyminn og í eigin heimi. Þrátt fyrir að hann hafi átt fyrirsagnirnar um tíma, og verið álitinn einn efnilegast leikmaður Bretlandseyja – sem naut mikillar virðingar félaga sinna – þá skipti það hann engu máli. Hann reyndi að hugsa ekki of mikið um örlög sín.
Höfundur bókarinnar segir að það sé um margt táknrænt, að hann hafi látið lífið með slysalegum hætti. Óheppnin hefur verið fylgifiskur hans, en lífsgleðin sömuleiðis.