Nýjasta kvikmynd Woody Allen, Café Society, var opnunarmynd á
Cannes-hátíðarinnar sem hófst á miðvikudaginn síðastliðinn. Hún hefur fengið
fína gagnrýni; hinn áttræði kvikmyndaleikstjóri virðist aftur vera kominn á
sporið með sprellfjöruga og margslungna mynd sem gerist í Bandaríkjunum á
fjórða áratug síðustu aldar og fjallar um glamúrlífið í Hollywood. Það sem
hefur hins vegar skyggt á þessa forsýningu og heimsókn Woody Allens til Cannes
eru ásakanir um kynferðislega misnotkun hans á hendur dóttur sinni, Dylan
Farrow.
Sonur ritar bréf
Rétt áður en Allen mætti til Cannes birti sonur hans Ronan Farrow (sem vill, eins og Dylan, ekki kenna sig við föður sinn) opinskátt bréf í The Hollywood Reporter þar sem hann lýsir því hvernig faðir hans hafi misnotað systur sína; hann gagnrýnir fjölmiðla harðlega fyrir að halda uppi málstað Woody Allen, enn fremur beinir hann spjótum sínum að leikurum, framleiðendum og öðru fólki sem starfar með Allen. Ekkert nýtt kemur fram í bréfinu um málið, allt sem þar stendur hefur svo sem komið fram áður. En það virðist vera erfitt fyrir Woody Allen að reyna að sópa þessu máli undir teppið.
Það var því afar sérkennilegt andrúmsloft á opnunarhátíðinni þar sem Woody Allen var sjálfur heiðursgesturinn. Veislustjórinn og grínistinn, Laurent Lafitte, skaut föstum skotum á gamla spéfuglinn þegar hann sagði: „Þú ert stöðugt að gera myndir hér í Evrópu, en samt ekki eftirlýstur í Bandaríkjunum …fyrir nauðgun.“ Þar vísaði hann í mál Roman Polanski, sem flúði til Evrópu eftir að hafa verið dæmdur fyrir að nauðga þrettán ára gömlu stúlkubarni, árið 1977.
Veislustjórinn hélt svo áfram og sagði: „En takk fyrir að koma hingað til okkar í kvöld, það var nú það minnsta sem þú gast gert.“ Sumir hlógu – aðrir ekki. Heiðursgesturinn sat stjarfur undir lestrinum. Daginn eftir var hann spurður um þessar ásakanir og bréf Ronan Farrow í viðtölum. Hvort fólk gæti virkilega horft á myndir hans með þetta mál enn hangandi yfir honum. „Ég hugsa ekki um það. Ég kom með mína yfirlýsingu í New York Times fyrir löngu síðan. Mér finnst þetta bjánalegt. Allt þetta mál. Það snertir mig ekki. Ég hugsa ekki um það, held bara áfram að vinna. Næsta myndin mín verður tekin upp í New York.“
Café Society
Kristen Stewart, sem leikur í Café Society, segir þetta bréf Ronan Farrow vera algjört áfall og átti erfitt með að tjá sig um málið í blaðaviðtölum. Leikkonan Blake Lively tók hins vegar upp hanskann fyrir Woody Allen og varaði fólk við að fjasa um mál sem það vissi ekkert um. Þetta hefði á engan hátt truflað samstarf hennar við leikstjórann. Reynsla hennar væri sú að hann hefði gert margt mikilvægt fyrir konur sem mætti alveg fjalla meira um. Skrifað meiriháttar og flott kvenhlutverk. Sem er meira en margur annar hefur gert.
Þetta er ekkert nýtt sem kemur fram í bréfi Ronan Farrow. Þessar áskakanir hafa verið í gangi í mörg ár og bréfið virðist ekki hafa komið Allen úr jafnvægi. Á fréttafundum og blaðaviðtölum sat hann jafnan spakur, svaraði spurningum og reytti af sér brandarana.
„Þegar þú er orðinn áttræður ferðu að velta ýmsu fyrir þér; þú ert að breytast í gamalmenni, sem ég hlakka vissulega til að verða. Og svo er það auðvitað dauðinn. Ég ætla mér að deyja í svefni. Ég er búinn að plana þetta allt saman. Ég er hins vegar afar rólegur; pabbi varð 100 ára, ég á mörg ár framundan“
Eftirsjá og brostnar vonir
Margir eiga erfitt með að taka afstöðu í þessum fjölskylduharmleik. Hver er að segja satt? Allen hefur ítrekað neitað því að hafa beitt dóttur sína kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sjö ára gömul. Hann hefur sagt þessar ásakanir tengjast forræðisdeilu hans og Miu Farrow. Eftir að þau skildi tók Allen upp samband við Soon-Yi Previn, ættleidda stjúpdóttur sína, þegar hún var 19 ára gömul. Þau giftu sig í kjölfarið. Hún sat hjá honum í kvikmyndahöllinni í Cannes þegar Café Society var forsýnd á miðvikudaginn.
Í myndinni er lítill brandari um hversu flókin ástasambönd (þ.e. innan fjölskyldu) geta verið. Margir velta nú vöngum yfir þessu í ljósi nýjustu upplýsinga og svo auðvitað í tengslum við samband hans við Soon-Yo Previn. Allen segir um þetta: „Mér fannst þetta bara fyndið. Ef áhorfendur hlæja, þá er það gott. Ég er alsæll ef þeir eru ánægðir.“
Þetta er í senn bæði fyndin og alvarleg kvikmynd sem fjallar um ástina og lífið, minningar, brostnar vonir. Eins og svo mörg önnur verk Woody Allen er hún um fólk sem hefur það í raun gott, en vill samt eitthvað annað. Fólk sem heldur að grasið sé grænna hinum megin, kemst svo að öðru, en getur ekki snúið til baka.
„Allir taka einhvern tímann rangar ákvarðanir í lífinu, sem þeir sjá eftir,“ – segir Woody Allen. Ein persónan í myndinni segir sömuleiðis: „Fólk verður að fíflum þegar hjartað ræður för.“
„Þetta er ekki bara grínmynd,“ segir Allen. „Ég hefði örugglega sprellað meira - hefði ég gert hana fyrr á ferlinum. Nú þegar ég er eldri og bráðum að fara deyja er mér sama um allt. Þess vegna þori ég að taka meiri áhættu en áður. Ég þarf ekki alltaf að vera fyndinn. Sorgin og harmurinn eru mikilvægir þættir í mannlífinu. Mig langar að fjalla meira um það.“
Café Society er því óvenjuleg kvikmynd. Hún er undarlega uppbyggð; byrjar varla né endar. Woody Allen leikur ekki í myndinni en er sögumaður. Hann hefur sjálfur sagt að myndin eigi meira skylt við skáldsögur í frásagnarstíl. Þetta er samt klisja, saga um ástarþríhyrning, en samtölin, persónurnar, leikararnir – allt saman frumlegt og framúrskarandi.
„Eins og í Midnight In Paris þá langaði mig að leika aðalhlutverkið, en ég er bara orðinn of gamall, sem betur fer. Þessir gaurar sem eru að leika mig eru bara miklu betri en ég! Jesse Eisenberg gerir þetta margfalt betur. Ég er bara grínisti. Hann er alvöru leikari með margar víddir, býr til mun dýpri og flóknari persónur en ég er nokkurn tímann fær um að gera“
Segir Allen og bætir við að myndin sé líka öðrum þræði um Hollywood og bransann. „Þeir skilja ekki kvikmyndir og ég skil ekki viðskipti. Ég er búinn að fara í milljón viðtöl í dag, milljón á morgun. Ég get ekki séð að það skipti neinu máli en framleiðendurnir heimta þetta. Svo ég geri það. Ég les ekki gagnrýni, mér er sama um hana, ég yrði bara geðveikur að velta mér upp úr henni. Held bara áfram að vinna. Vinnan gerir manni gott.“