Félag í eigu Björns Inga Hrafnssonar hefur tekið yfir eignarhluti Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns og félagsins Tryggva Geirs ehf., í eigu Þorsteins Guðnasonar, í Pressunni ehf., aðaleiganda DV og fleiri miðla. Félagið, sem heitir Kringueignir ehf., er nú skráð fyrir 31,85 prósent hlut í Pressunni. Önnur félög sem eru í eigu Björns Inga og Arnars Ægissonar, framkvæmdastjóra Pressunnar, eiga 39,15 prósent í fyrirtækinu. Því eiga félög í eigu Björns Inga nú 71 prósent hlut í Pressunni, sem á 84,23 prósent hlut í DV.
Breytingarnar voru skráðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar um helgina.
Sagðist ekki eiga hlut sem hann var skráður fyrir
Áður en að breytingarnar voru tilkynntar voru Sigurður og félag Þorsteins skráð fyrir samtals 28 prósent hlut í Pressunni. Auk þess var ekki gerð grein fyrir eigendum að 3,85 prósent hlut. Þær eigendaupplýsingar voru, samkvæmt heimasíðu Fjölmiðlanefndar, uppfærðar 12. janúar 2016.
Sigurður sagði í Facebook-samtali þann 8. maí að hann ætti alls ekki þennan hlut sem hann hefði verið skráður fyrir. Óskað hefði verið eftir aðstoð hans við að innheimta skuld sem Reynir Traustason, fyrrum aðaleigandi og ritstjóri DV, og félög á hans vegum hefðu stofnað til við aðila og sett hlutabréf sín að veði. „Það tókst og ég afhenti umbjóðanda mínum hlutina. Hvað hann gerði við þá eftir það hef ég bara ekki hugmynd,“ sagði Sigurður.
Í lögum um fjölmiðla frá árinu 2011 er m.a ákvæði þar sem segir að „skylt er að veita Fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur Fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar.“
Í 22. grein laganna er fjallað um tilkynningarskyldu um eigendaskipti að fjölmiðlaveitu. Þar segir: „Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send Fjölmiðlanefnd. Tilkynning um söluna skal hafa borist Fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“. Í lögunum segir einnig að Fjölmiðlanefnd skuli leggja stjórnvaldssekt á bæði seljanda og kaupanda komi í ljós að þeir hafi vanrækt að tilkynna um eigendaskipti á hlut í fjölmiðli.
Fjölmiðlanefnd hefur ekki beitt viðurlögum við lögbrotum
Kjarninn beindi fyrirspurn til Fjölmiðlanefndar um hvort að yfirlýsingar Sigurðar og sú staða hann væri enn skráður eigandi að hlut í Pressunni sem hann kannaðist sjálfur ekki við að eiga, stæðist ofangreind ákvæði laganna.
Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður Fjölmiðlanefndar, segir að nefndin hafi óskað skýringa á þessu hjá Birni Inga, fyrirsvarsmanna útgáfufélagsins Pressunnar, bréfleiðis þann 9. maí og að sú beiðni hafi verið ítrekuð símleiðis skömmu síðar. Upplýsingar um breytingar á eignarhaldi hafi síðan borist að morgni 20. maí og var heimasíða nefndarinnar uppfærð eftir hádegi sama dag. Hún segir að frumkvæðisskylda til að tilkynna um breytingar á eignarhaldi hvíli á fjölmiðlunum sjálfum. „Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send Fjölmiðlanefnd og skal hún hafa borist nefndinni innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings.“
Aðspurð hvort það hafi engar afleiðingar ef breytingar á eignarhaldi eru tilkynntar utan þess tveggja daga ramma sem lögin heimila til að veita nefndinni réttar upplýsingar segir Heiðdís Lilja að Fjölmiðlanefnd hafi til þessa ekki beitt stjórnvaldssektum. Hún geti ekki sagt til um það hversu mikið þyrfti til að koma svo þeirri heimild yrði beitt. „Þá yrði jafnt yfir alla að ganga en gildissvið laga um fjölmiðla tekur jafnt til smárra einyrkja úti á landi sem stærri fjölmiðla.“ Heiðdís Lilja gerði ráð fyrir að málið yrði rætt á næsta fundi Fjölmiðlanefndar.
Kröfum var breytt í hlutafé
Haustið 2014 áttu sér stað mikil átök um yfirráð yfir DV. Feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ásamt samstarfsmönnum sínum, höfðu þá átt og stýrt DV um nokkurt skeið en fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu víða til að standa undir þeim rekstri, meðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Kaupverðið hefur ekki verið gert opinbert en Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að skuldir félagsins hefðu hækkað umtalsvert á árinu 2014. Langtímaskuldir sem voru engar í árslok 2013 voru orðnar 148 milljónir króna í lok árs 2014. Auk þess tvöfölduðust skammtímaskuldir Pressunnar og voru orðnar 124 milljónir króna í lok árs. Því skuldaði félagið samtals 272 milljónir króna í lok árs 2014, sem er fjórum sinnum meira en þær 68 milljónir króna sem félagið skuldaði í lok árs árið áður.
Engar opinberar upplýsingar eru til um hvaðan umrædd lán komu að öðru leyti en það að Björn Ingi Hrafnsson hefur upplýst um að hluti af kaupverðinu á DV hafi verið greitt með seljendaláni frá þeim sem breyttu kröfum sínum í hlutafé í miðlinum þegar hann var tekinn yfir haustið 2014.
Fannst kaup í Pressunni „spennandi tækifæri“
Skömmu eftir að yfirtakan á DV gekk í gegn var greint frá nokkrum nýjum hluthöfum. Þann 29. desember 2014 var til að mynda birt frétt á vefmiðlinum Pressunni. Þar var greint frá því að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði „keypt nýtt hlutafé í Pressunni sem var gefið út af tilefni af kaupum félagsins á stærstum hluta hlutafjár í DV. Eftir kaupin á Sigurður G. um tíu prósent hlut í Pressunni“. Í fréttinni var eftirfarandi haft eftir Sigurði: „Mér fannst þetta spennandi tækifæri og ákvað að vera með[... ]Ég þekki fjölmiðlarekstur á Íslandi mjög vel, var einn stofnenda Blaðsins á sínum tíma og tel tækifæri felast í því að setja saman mismunandi fjölmiðla, nýta möguleika í samlegð og halda um leið sérkennum hvers um sig“.
Sú yfirlýsing Sigurðar um aðkomu sína að rekstri fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar er af öðrum toga en sú skýring sem hann gaf fyrir því að vera skráður fyrir tíu prósent hlut í félaginu 8. maí síðastliðinn. Þá sagði hann, líkt og áður segir, að hann hefði ekki átt viðkomandi eignarhlut heldur hafi verið „óskað eftir aðstoð minni við að innheimta skuld sem Reynir Traustason og félög á hans vegum höfðu stofnað til við aðila og sett hlutabréf sín að veði. Það tókst og ég afhenti umbjóðanda mínum hlutina. Hvað hann gerði við þá eftir það hef ég bara ekki hugmynd."