Portúgalinn José Mourinho hefur á sextán ára ferli sínum sem knattspyrnustjóri náð mögnuðum árangri í öllum þeim löndum þar sem hann hefur starfað. Portúgal, Englandi, Ítalíu og Spáni. Hann verður formlega kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Manchester United í næstu viku, eftir að Hollendingurinn Louis Van Gaal var látinn taka pokann sinn, skömmu eftir að hafa lyft FA bikarnum að loknum 2-1 sigri Manchester United á Crystal Palace á Wembley. Titillinn bjargaði honum ekki. Örlögin voru ráðin. Helsta ástæðan fyrir því að hann var látinn fara? Deyfð, leiðindi og óásættanlegur árangur.
Leikmenn ósáttir
Sé mið tekið af umfjöllun helstu fótboltamiðla í Bretlandi, The Guardian og BBC þar á meðal, þá virðist Van Gaal ekki hafa náð trúnaði leikmanna og leikskipulagið sem hann lagði upp með var umdeilt meðal þeirra. Hjá aðdáendum var leikskipulagið gagnrýnt harðlega nær linnulaust allt tímabilið sem lauk nýverið.
Í upphafi byrjaði liðið með 3-5-2 taktík, en féll frá henni fljótlega þegar stigin létu á sér standa. Margir leikmanna voru að spila í stöðum sem þeir höfðu ekki leikið mikið áður, sem virtist engan veginn skila sér í góðu gengi eða sannfærandi spilamennsku. Hinn dínamíski og ástríðukenndi hraði sem Alex Ferguson var frægur fyrir að ná fram í liði Manchester United, í sinni stjóratíð, var eins fjarri og hugsast gat.
Daniel Taylor, pistlahöfundur The Guardian, sagði í pistli í gær að tveggja ára dvöl Louis Van Gaal hefði einkennst af leiðinlegum fótbolta, sem sýni sig í fáum skoruðum mörkum og hægum fótbolta, og síðan einnig lélegum móral hjá leikmönnum. Þetta sé eitthvað sem Manchest United geti ekki sætt sig við. Á liðnu tímabili skoraði liðið 49 mörk en meðaltalið í úrvalsdeildinni hjá liðinu er 76,4 mörk á tímabili. Þetta segir sína sögu.
Til viðbótar má nefna að samkvæmt Opta stats tölfræðigagnagrunninum þá voru aðeins þrjú lið í deildinni sem sköpuðu sér færri færi. Hið hrikalega slaka Aston Villa að sjálfsögðu, og síðan West Brom og Watford. Þetta er staða sem Manchester United á ekki að venjast, svo ekki sé nú dýpra í árina tekið.
Nýtt upphaf er framundan, hjá þessu sigursælasta félagi í sögu enskrar knattspyrnu. Knattspyrnustjóri númer fjögur (David Moyes, Ryan Giggs, Louis Van Gaal) frá því Alex Ferguson hætti, er að fara taka við stjórnartaumunum.
Hræðileg endalok hjá Chelsea
Hinn 53 ára gamli Mourinho kemur ekki til Manchester á hápunkti ferils síns, svo mikið er víst. Hann var rekinn frá Chelsea 17. desember í fyrra, þegar tímabilið var ekki hálfnað. Chelsea, sem hann gerði að enskum meistara tímabilið á undan, byrjaði leiktíðina hræðilega og var í 16. sæti, eftir að hafa tapað níu af sextán leikjum tímabilsins, þegar hann var rekinn.
Mourinho var í guðatölu hjá stuðningsmönnum liðsins, og er það eflaust enn. En þessi árangur var ekki boðlegur og ekkert annað var í stöðunni en að Mourinho hætti, því ekki gátu leikmennirnir hætt.
Litríkt upphaf
Ferill Mourinho er með nokkrum ólíkindum. Árið 2000 var hann, þá aðeins 37 ára gamall, ráðinn knattspyrnustjóri Benfica, en hætti eftir níu leiki við stjórnvölinn. Allt hafði gengið vel, en innanhúspólitík réð því að hann hætti.
Í júlí 2001 tók hann við União de Leiria, sem telst lítið félag í Portúgal. Undir hans stjórn var það í þriðja sæti í Portúgal. Stóra tækifærið kom svo í janúar 2002 þegar Porto réð hann sem knattspyrnustjórna. Liðið var í fimmta sæti þegar hann tók við, og ekki inn í bikarkeppni.
Porto endaði í þriðja sæti. Í lok tímabilsins lofaði hann stuðningsmönnum að vinna deildina að ári. Þarna sást glitta í kokhraustan ungan mann á uppleið, sem átti eftir að setja mark sitt á Evrópuboltann.
Á tímabilinu 2002 til 2003 var Porto óstöðvandi. Liðið sigraði í deildinni, með ellefu stiga forskoti á Benfica, varð bikarmeistari og sigraði í UEFA Cup. Tímabilið 2003 til 2004 var síðan ævintýri líkast. Þá sigraði Porto allt sem það gat unnið, og líka Meistaradeild Evrópu. Sterkur kjarni leikmanna myndaði agað og öflugt lið, sem enginn fann leið til að sigra eða slá út úr Evrópukeppni. Mikilvægustu leikmenn liðsins á þessu tímabili voru Deco, Ricardo Carvalho og Maniche, sem Mourinho náði í samningslausan eftir að honum var leyft að fara frá Benfica.
Sannarlega ótrúlegur árangur, sem opnaði dyrnar að stærstu félögum Evrópu.
Chelsea ævintýrið
Hjá Chelsea var nú kominn ungur Rússi, Roman Abramovich, í eigandasætið, en hann var með fulla vasa fjár sem rekja mátti til olíuauðlinda í Síberíu. Hann sætti sig ekki við að Claudio Ranieri, sem kom sá og sigraði með Leicester á nýafstöðnu tímabili, hafi aðeins náð öðru sæti árið 2004, og vildi gera Chelsea að meistara. Þá var Mourinho ráðinn, og fékk hann metgreiðslu fyrir samninginn, 4,2 milljónir punda, eða um 750 milljónir króna.
Mourinho sýndi strax að hann væri kominn til að setja mark sig á fótboltaheiminn. Á fyrsta blaðamannafundinum sagði hann þessi fleygu orð: „Ég vil ekki hljóma hrokafullur, en ég kem hingað sem Evrópumeistari og tel að ég sé sá sérstaki, fyrir þetta verkefni.“ Viðurnefnið, sá sérstaki, festist strax við hann.
Til þess að gera langa sögu stutta þá varð Chelsea að stórkostlegu liði undir stjórn Mourinho. Eiður Smári Guðjohnsen, sem enn er í íslenska landsliðinu 20 árum eftir að hann spilaði fyrsta leikinn með því, átti frábær ár undir stjórn Mourinho. Leikmannahópurinn var ógnarsterkur, með Frank Lampard og John Terry fremsta meðal jafningja, og skilaði Mourinho titli strax á fyrsta tímabili, vorið 2005. Það var fyrsti deildarmeistaratitill Chelsea í 50 ár.
Aftur vann Chelsea deildina árið eftir, og virtist Mourinho á góðri leið með að búa til magnað sigursælt lið til langrar framtíðar, þrátt fyrir mikla samkeppni frá Manchester United, Arsenal og Liverpool.
En þegar enginn deildarmeistaratitill skilaði sér vorið 2007 virtist samstarf Mourinho við eigandann og helstu starfsmenn félagsins vera orðið slæmt. Þegar Ísraelinn Avram Grant var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála, í óþökk Mourinho, var mælirinn fullur. Hann hætti hjá Chelsea 20. september 2007, nokkuð óvænt.
Inter-tíminn ógleymanlegur
Þegar Mourinho tók við Inter, í júní 2008 eftir nærri ársfrí frá þjálfun, var mikil pressa á honum. Nýtt lið var í mótun, en leikmannahópurinn var góður. Ungir og reynslumiklir leikmenn í bland, og góð samsetning varnar-, miðju-, og sóknarmanna. Undir stjórn Mourinho varð Inter besta félagslið Evrópu, sigraði allt sem það gat unnið heima fyrir, bæði deild og bikar, og varð Evrópumeistari vorið 2009.
Enn einu sinni sannaði Mourinho hæfileika sína, með því að byggja upp nýtt lið á skömmum tíma, og finna sigurblönduna sem svo erfitt er að hrista fram. Tvö sigursæl tímabil í röð hjá Inter, leiddu til þess að Real Madrid réð hann til starfa. Þar tók við gamalkunnug barátta stórveldanna, Real Madrid og Barcelona. Real Madrid var iðulega í fremstu röð, undir stjórn Mourinho, en þurfti að sætta sig við að vera skrefi á eftir Barcelona, nokkuð oft. Þó ekki vorið 2012, þegar Real Madrid sigraði deildina með nokkrum yfirburðum.
Ári síðar var annað upp á teningnum. Real náði ekki að sigra deildina, og tapaði fyrir erkifjendunum Atletico Madrid í úrslitum bikarkeppninnar.
Mourinho hætti með liðið eftir tímabilið. Mánuði eftir það, var hann búinn að skrifa undir hjá Chelsea, og hóf þá feril númer tvö í London. Á tímabilinu 2013 til 2014 varð Chelsea í þriðja sæti, en sigraði svo deildina tímabilið 2014 til 2015. Gulltrygging sigursins kom þegar þrír leikir voru eftir.
Byrjunin skelfilega á tímabilinu sem nú er að ljúka, er fátítt hliðarspor á stórkostlegum sextán ára ferli Mourinho.
Stjórnunarhæfileikar
Mourinho þótti strax sína afburðahæfileika sem stjórnandi. Sjálfsöryggið uppmálað, og með skýra áherslun á smáatriðin í liðsstjórnun. Hann hefur verið sagður snillingur í sálfræðistríðinu, þó brottrekstur hans hjá Chelsea sé ákveðið hliðarspor á þeim ferli. Nánast allan sinn feril hefur það verið einn af hans stærstu kostum, að halda leikmönnum sínum við efnið og taka sjálfur á sig hitann sem fylgir fjölmiðlaumfjöllun og pressunni sem hún skapar.
En hvernig mun Mourinho halda um taumana hjá Manchester United? Það er erfitt að segja. Einn af þeim sem hefur fylgst með Mourinho í gegnum tíðina, og haldið með Manchester United lengi, er Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA í Pepsi-deild karla. Hann segir að Mourinho þurfi að finna „drápseðlið“ sem einkenndi tímann þegar Alex Ferguson réði ríkjum á Old Trafford. „Sem Man. Utd. aðdáandi hefur maður verið á báðum áttum hvaða skref félagið ætti að fara. Hlutirnir voru ekki í réttum farvegi með Van Gaal, liðið var óspennandi, spilaði hægt og það vantaði í það drápseðlið sem sir Alex var búinn að búa til hjá liðinu. Kosturinn við að fá Mourinho á þessum tímapunkti er að hann kemur til leiks til að sanna sig eftir bullið hjá Chelsea. Hann er meðvitaður um kröfurnar sem eru í Leikhúsi Draumanna og hvað hefur farið úrskeiðis hjá Moyes og Van Gaal. Ég hef ekki áhyggjur að hann geti ekki búið til massíva liðsheild, það hefur hann gert svo vel hjá Chelsea, Inter Milan og Porto. Ég ætla því að vona að þetta sé hárrétt skref hjá félaginu og ég held að þessi bikartitill sem liðið vann um helgina hafi helling að segja fyrir leikmannahópinn og nú er Móra að fylgja því eftir. Það er allavega ljóst að þetta er ekki auðveldasta starfið í bransanum og reynsla Mourinho kemur honum til góða þar,“ segir Gunnlaugur.
Mourinho hefur alltaf náð árangri fljótlega eftir að hann hefur tekið við nýju liði. Aldrei hefur liðið meira en eitt ár þar til deildarmeistaratitill hefur komið í hús. Mourinho hefur sjálfur þakkað Bobby Robson heitnum fyrir sinn grunn í þjálfun, en Mourinho var einn af aðstoðarmönnum hans hjá Barcelona þegar Robson þjálfaði Katalóníustórveldið, tímabilið 1996 til 1997. Hvernig til mun takast hjá Manchester United mun framtíðin leiða í ljós, en með grunninn frá Robson, mikla reynslu og persónutöfra gæti hann byggt upp sigurhefðina sem Alex Ferguson tókst að skapa.