Flestir forsetaframbjóðendur eru skráðir í þjóðkirkjuna, að tveimur undanskildum. Ástþór Magnússon er skráður í Óháða söfnuðinn og Guðni Th. Jóhannesson stendur utan trúfélaga, en hann skráði sig úr kaþólsku kirkjunni, sem hann var alinn upp í, þegar fréttir bárust af kynferðisbrotum innan safnaðanna um allan heim. Báðir segjast þeir þó vera trúaðir.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í Kjarnanum í janúar að henni þætti óeðlilegt ef næsti forseti væri ekki skráður í þjóðkirkjuna og væri ekki kristinn.
Agnes sagðist ekki vita hvort það mundi beinlínis hafa áhrif á kirkjuna að hafa forseta utan þjóðkirkjunnar, en hefðir gætu breyst og nefndi hún þar vígslu forseta sem dæmi, sem fer fram við athöfn í Dómkirkjunni. „Ég mundi halda að forseti sem væri ekki í þjóðkirkjunni hefði lítinn áhuga á slíkri athöfn," sagði Agnes.
Langt frá því að vera trúlaus
Guðni undirstrikar að það verði engin vandræði fyrir hann að sinna skyldum sem lúti að kirkjunni. „Svo verður alls ekki í mínu tilfelli. Nái ég kjöri, verður mér bæði ljúft og skylt að ganga við hlið biskups við setningu Alþingis og hlýða á predikun míns góða vinar Sveins Valgeirssonar dómkirkjuprests,” segir Guðni í samtali við Kjarnann. „Ég er langt frá því að vera trúlaus og kristin gildi eru undirstaða okkar lýðræðis og velferðarsamfélags.“
Eins og áður segir skráði Guðni sig úr kaþólsku kirkjunni í kjölfar heimsfrétta af kynferðisbrotum klerka hennar gegn börnum.
„Ég kunni ekki við slægleg viðbrögð kirkjunnar við þeim afbrotum sem upp komust og ákvað, í kyrrþey, að mér liði betur utan kaþólsku kirkjunnar,” segir hann og bætir við að hann hafi íhugað að ganga í Fríkirkjuna, en hafi ákveðið að haga hlutum svona, að minnsta kosti um stundarsakir. „Ég sæki kirkju eins og hver annar, öll okkar börn eru skírð og við lesum Faðir vorið á kvöldin eins og margir í landinu,” segir Guðni. „Því trúlaus er ég ekki þó, að ég standi utan trúfélaga.“
Ég kunni ekki við slægleg viðbrögð kirkjunnar við þeim afbrotum sem upp komust og ákvað, í kyrrþey, að mér liði betur utan kaþólsku kirkjunnar
Sama kristna trúin, bara annað hús og prestur
Ástþór skipti um trúfélag þegar hann giftist Nataíu eiginkonu sinni, en hún var skráð í Óháða söfnuðinn. „Þetta er í raun nákvæmlega sama kristna trúin og þjóðkirkjan, bara annað hús og annar prestur,” segir Ástþór.
„Ég var alltaf í þjóðkirkjunni, er skírður og fermdur, ólst upp við að fara í sunnudagaskóla hjá KFUM og fór hvern einasta sunnudag í kirkju sem barn og unglingur.“ Ástþór er ánægður í Óháða söfnuðinum og segir prestinn skemmtilegan og messurnar vel sóttar.
Ég var alltaf í þjóðkirkjunni, er skírður og fermdur, ólst upp við að fara í sunnudagaskóla hjá KFUM og fór hvern einasta sunnudag í kirkju sem barn og unglingur
Aðrir frambjóðendur eru skráðir
Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson eru öll skráð í þjóðkirkjuna. Guðrún Margrét Pálsdóttir er mjög trúuð og hefur talað mikið um mátt bænarinnar í kosningabaráttunni. Guðrún skrifaði síðast grein í Morgunblaðið í gær sem fjallaði um Guð.
Biskup vill ekki breyta ákvæði í stjórnarskrá
Biskup við Kjarnann í janúar að hún teldi óeðlilegt ef næsti forseti væri ekki kristinnar trúar og ekki skráður í þjóðkirkjuna. Hún byggði skoðun sína á ákvæðum í stjórnarskrá um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna og litið sé á forsetann sem verndara hennar.
„Það er óeðlilegt að hann verði utan þjóðkirkjunnar á meðan við búum við þetta sama skipulag," sagði Agnes í janúar. „Ef það er vilji þjóðarinnar að breyta ákvæðinu, þá virði ég það. Þó að ég mundi vilja halda þessu óbreyttu."
Agnes var sömu skoðunar í aðdraganda forsetakosninganna árið 2012.