Bamidele Jermaine „Dele“ Alli kom til Tottenham í febrúar
2015 frá Milton Keynes Dons, en hann er fæddur og uppalinn´i Milton Keynes.
Frami hans hefur verið skjótur, en á fyrsta heila keppnistímabili sínu með
Tottenham, þar sem liðið var í toppbaráttu alla leiktíðina en lauk með dramatískum sigri Leicester City, lék hann mikilvægt
hlutverk og var valinn efnislegasti leikmaður deildarinnar. Í 46 leikjum á
tímabilinu í öllum keppnum, skoraði hann 10 mörk og vann sér fast sæti í
byrjunarliðinu og einnig í enska landsliðinu.
Tilbúinn í baráttu við þá bestu
Alli, sem fæddur er 11. apríl 1996, sýndi sínar bestu hliðar í landsleik gegn Þýskalandi, 26. mars síðastliðinn, þar sem hann var maður leiksins í frækilegum 3-2 sigri Englands á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Í leiknum sjást greinilega, að hann var ekki aðeins tilbúinn í baráttu við bestu miðvallarleikmenn heims, heldur líklegur til að vera kominn í þann hóp innan skamms tíma. Roy Hodgson, landliðsþjálfari Englands, hefur hrósað Alli í hástert og sagt hann vera einn mikilvægasta leikmann Englands, horft til langrar framtíðar. Í fyrsta leik hans í byrjunarliðinu með Englandi, í vináttuleik gegn Frökkum á Wembley í nóvember í fyrra, skoraði hann glæsilegt mark með langskoti, og átti ófáar kröftugar tæklingar sem stöðvuðu Frakka.
Þurfa að vera tilbúnir í átök
Alli minnir um margt á það, þegar Steven Gerrard kom fram á sjónarsviðið. Hann er gríðarlega kraftmikill en á sama tíma með hæfileika til að stjórna hraðanum í leiknum, og algjörlega laus við hræðslu. Óttaleysið er oft erfitt viðureignar, því sá sem óttast ekkert, verður ekki svo auðveldlega stöðvaður.
Alli lék allan leikinn gegn Wales, þegar England vann 2-1, en kom inn á sem varamaður gegn Slóvakíu, í 0-0 jafntefli, á 60. mínútu. Þá var hann í byrjunarliðinu gegn Rússum, í 1-1 jafnteflisleik. Hann á ennþá eftir að setja með afgerandi hætti mark sitt á EM í Frakklandi, en hefur þótt leika ágætlega. Þetta er hans fyrsta stórmót, og því ekki óvenjulegt að einhvern tíma taki að ná áttum og fram sínu besta.
Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Sigurðsson, hinir mögnuðu miðjumenn íslenska liðsins, munu þurfa að vinna vel með vængmönnunum, Birki Bjarnasyni og Jóhanni Berg Guðmundssyni, til að loka á Alli og aðra miðjumenn Englands. Þeir þurfa að vera tilbúnir í átök, og vafalítið átta þeir sig vel á því. Alli er góður skotmaður og er – líkt og Gylfi – duglegur að hlaupa fram og aftur, og leiðist ekki að fá boltann í svæðum þar sem hann getur sótt hratt og stungið sér inn í teiginn. Hjá Englandi hefur hann leikið á miðjunni hægra megin, í leikkerfinu 4-3-3, en hefur einnig leyst stöðu vængmanns þegar liðið brýtur upp skipulag sitt með fjögurra manna miðju.
Gæti orðið of ákafur
Þó erfitt sé að taka leikmenn sérstaklega út, í enska liðinu, þá verður íslenska liðið að hafa góðar gætur á Alli. Hann refsar hratt fyrir öll mistök, hendir sér í tæklingar þegar möguleiki er á og getur lagt upp mörk með úrslitasendingum. En hann gæti líka orðið of ákafur, í ljósi þess að spennustigið er hátt og pressan mikil. Með skynsömum og samhentum leik, eins og hefur verið aðalsmerki Íslands til þessa, þá ætti að vera hægt að halda Alli niðri. En það hefur enginn efni á því að vanmeta þennan nýja drifkraft á miðju Englendinga.