Nýr drifkraftur á miðjunni hjá Englandi

Tvítugur miðjumaður hjá Tottenham Hotspur hefur komið eins og stormsveipur inn í ensku úrvaldsdeildina og enska landsliðið. Hann gæti reynst íslenska landsliðinu erfiður, þegar Ísland og England mætast í 16 liða úrslitum á EM í Frakklandi á morgun.

Dele Alli
Auglýsing

Bamidele Jermaine „Dele“ Alli kom til Totten­ham í febr­ú­ar 2015 frá Milton Key­nes Dons, en hann er fæddur og upp­al­inn´i Milton Key­nes. Frami hans hefur verið skjót­ur, en á fyrsta heila keppn­is­tíma­bili sínu með­ ­Totten­ham, þar sem liðið var í topp­bar­áttu alla leik­tíð­ina en lauk með dramat­ískum sigri Leicester City, lék hann mik­il­vægt hlut­verk og var val­inn efn­is­leg­asti leik­maður deild­ar­inn­ar. Í 46 leikjum á tíma­bil­inu í öllum keppn­um, skor­aði hann 10 mörk og vann sér fast sæti í byrj­un­ar­lið­inu og einnig í enska lands­lið­inu.

Til­bú­inn í bar­áttu við þá bestu

Alli, sem fæddur er 11. apríl 1996, sýndi sínar bestu hliðar í lands­leik gegn Þýska­land­i, 26. mars síð­ast­lið­inn, þar sem hann var maður leiks­ins í fræki­legum 3-2 sigri Eng­lands á Ólymp­íu­leik­vang­inum í Berlín. Í leiknum sjást greini­lega, að hann var ekki aðeins til­bú­inn í bar­áttu við bestu mið­vall­ar­leik­menn heims, held­ur lík­legur til að vera kom­inn í þann hóp innan skamms tíma. Roy Hodg­son, land­liðs­þjálf­ari Eng­lands, hefur hrósað Alli í hástert og sagt hann vera einn mik­il­vægasta ­leik­mann Eng­lands, horft til langrar fram­tíð­ar. Í fyrsta leik hans í byrj­un­ar­lið­inu með Englandi, í vin­áttu­leik gegn Frökkum á Wembley í nóv­em­ber í fyrra, skor­aði hann glæsi­legt mark með lang­skoti, og átti ófáar kröft­ugar tæk­lingar sem stöðv­uðu Frakka.

Auglýsing


Þurfa að vera til­búnir í átök

Alli minnir um margt á það, þegar Steven Gerr­ard kom fram á sjón­ar­svið­ið. Hann er gríð­ar­lega kraft­mik­ill en á sama tíma með hæfi­leika til að ­stjórna hrað­anum í leikn­um, og algjör­lega laus við hræðslu. Ótta­leysið er oft erfitt viður­eign­ar, því sá sem ótt­ast ekk­ert, verður ekki svo auð­veld­lega ­stöðv­að­ur.

Alli lék allan leik­inn gegn Wales, þegar Eng­land vann 2-1, en kom inn á sem vara­maður gegn Slóvak­íu, í 0-0 jafn­tefli, á 60. mín­útu. Þá var hann í byrj­un­ar­lið­inu gegn Rússum, í 1-1 jafn­tefl­is­leik. Hann á ennþá eftir að ­setja með afger­andi hætti mark sitt á EM í Frakk­landi, en hefur þótt leika á­gæt­lega. Þetta er hans fyrsta stór­mót, og því ekki óvenju­legt að ein­hvern tíma taki að ná áttum og fram sínu besta.

Aron Einar Gunn­ars­son og Gylfi Sig­urðs­son, hinir mögn­uð­u miðju­menn íslenska liðs­ins, munu þurfa að vinna vel með væng­mönn­un­um, Birki ­Bjarna­syni og Jóhanni Berg Guð­munds­syni, til að loka á Alli og aðra miðju­menn Eng­lands. Þeir þurfa að vera til­búnir í átök, og vafa­lítið átta þeir sig vel á því. Alli er góður skot­maður og er – líkt og Gylfi – dug­legur að hlaupa fram og aft­ur, og leið­ist ekki að fá bolt­ann í svæðum þar sem hann getur sótt hratt og ­stungið sér inn í teig­inn. Hjá Englandi hefur hann leikið á miðj­unni hægra ­meg­in, í leikk­erf­inu 4-3-3, en hefur einnig leyst stöðu væng­manns þegar lið­ið brýtur upp skipu­lag sitt með fjög­urra manna miðju.

Gæti orðið of ákafur

Þó erfitt sé að taka leik­menn sér­stak­lega út, í enska lið­inu, þá verður íslenska liðið að hafa góðar gætur á Alli. Hann refsar hratt ­fyrir öll mis­tök, hendir sér í tæk­lingar þegar mögu­leiki er á og getur lagt upp­ ­mörk með úrslita­send­ing­um. En hann gæti líka orðið of ákaf­ur, í ljósi þess að ­spennustigið er hátt og pressan mik­il. Með skyn­sömum og sam­hentum leik, eins og hefur verið aðals­merki Íslands til þessa, þá  ætti að vera hægt að halda Alli niðri. En það hefur eng­inn efni á því að van­meta þennan nýja drif­kraft á miðju Eng­lend­inga.

Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None