Óðum styttist í kosningar, ári fyrr en áætlað var. Þó að engin dagsetning sé komin enn, þá búast flestir við því að kosið verið til Alþingis í október eða nóvember. Flestir stjórnmálaflokkar ætluðu að nýta árið 2016 til þess að greiða niður skuldir og safna pening fyrir kosningabaráttuna 2017, en eftir Panamaskjölin og afleiðingar þeirra þurftu flokkarnir að spýta í lófana og flýta öllu ferli, hvort sem um er að ræða mönnun lista, fjármögnun eða skipulagningu kosningabaráttu. Og ljóst er að ekki gafst eins mikill tími og upphaflega var áætlað til þess að safna fé.
Kjarninn kannaði núverandi fjárhagsstöðu allra flokka sem hyggjast bjóða fram til Alþingis í haust. Ekki fengust svör frá Samfylkingu eða Framsóknarflokki. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð vildu ekki gefa upp nákvæma stöðu. Notast er við nýjustu ársreikninga sem birtir eru á vefsíðu Ríkisendurskoðunar, en þeir eru frá árinu 2014.
Spurt var um núverandi fjárhagsstöðu flokkanna og hvað standi til að eyða miklu fé í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningar í haust.
Ætla að reka mun dýrari kosningabaráttu en síðast
Píratar eiga tæpar 17,3 milljónir króna og skulda ekkert, samkvæmt Elínu Ýr Hafdísardóttur, formanni framkvæmdaráðs Pírata. „Ekki hefur verið gerð fjárhagsáætlun fyrir komandi kosningabaráttu, en gróflega áætlum við að í hana fari á milli fimm til sjö milljónir,“ segir Elín í skriflegu svari til Kjarnans. Kosningabarátta Pírata fyrir síðustu Alþingiskosningar hafi kostað 1,2 milljónir. „Núna höfum við hug á að vera með kosningaskrifstofur á fleiri stöðum en á höfuðborgarsvæðinu til að geta boðið fólki að heilsa upp á okkur og kynna sér Pírata og hvað við stöndum fyrir.“
410 milljóna skuld árið 2014
Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, vísar í heimasíðu Ríkisendurskoðunar þar sem útdráttur úr ársreikningum flokka eru birtir. Nýjustu tölur þar eru frá árinu 2014 og í þeim ársreikningi kemur fram að flokkurinn skuldi tæpar 410 milljónir króna og eignir nema tæpum 770 milljónum. Eigið fé í árslok 2014 var tæpar 360 milljónir. Samkvæmt Þórði er markmiðið að halda kostnaði við kosningabaráttuna í lágmarki, en endanleg áætlun liggur ekki fyrir.
Áætla tugi milljóna í kosningabaráttu
Daníel Haukur Arnarson, starfsmaður Vinstri grænna, segir núverandi fjárhagsstöðu flokksins góða. Gert sé ráð fyrir að skila um 10 milljónum króna í afgang á árinu 2016 samkvæmt fjárhagsáætlun. „Árið 2013 var 42 milljóna króna
halli, en strax árið 2014 skiluðum við rúmlega 18 milljóna króna afgangi,“ segir Daníel. Flokkurinn skuldar 3,2 milljónir og á rúmar 20. Skuldin er vegna fasteignar á Akureyri. „Við leigjum í Reykjavík og því koma þau gjöld fram á rekstrarreikningi en ekki sem langtímaskuld,“ segir Daníel. Búist er við því að eyða að minnsta kosti 15 til 20 milljónir í komandi kosningabaráttu.
Fátækur flokkur árið 2014
Flokkurinn er skuldlaus og rekinn með lágmarkskostnaði, samkvæmt Valgerði Pálsdóttur, framkvæmdastjóra Bjartrar framtíðar. Hingað til hafi húsnæði ekki verið leigt, en til standi að bæta úr því í sumar. Ekki fengust þó nákvæmari tölur frá flokknum, en Valgerður segir í svari sínu að ársreikningur verði lagður fyrir stjórn í ágúst eða september og þá verði tekin ákvörðun um fjárútlát í kosningabaráttunni. „Það er allavega ljóst að við munum halda því innan skynsamlegra marka og halda áfram að standa undir okkar skuldbindingum,“ segir hún.
Í nýjasta ársreikningi flokksins hjá Ríkisendurskoðun, frá árinu 2014, segir að flokkurinn átti 613 þúsund krónur og skuldaði tæpar 5,9 milljónir. Eigið fé var því neikvætt um tæpar 5,3 milljónir.
Fjársöfnun á netinu gengið ágætlega
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir núverandi fjárhagsstöðu hins nýstofnaða flokks vera nokkur hundruð þúsund krónur. Safnanir á netinu hafi gengið ágætlega undanfarið, en flokkurinn var formlega stofnaður 24. maí. „Við erum ekki komin með áætlunina fyrir kosningabaráttuna. Ég í raun átta mig ekki alveg á umfanginu,“ segir Benedikt. „En það á eftir að skýrast bráðlega.“
„Eigum alls ekki mikla peninga“
Aðalfundur Íslensku þjóðfylkingarinnar var haldinn í síðustu viku. Helgi Helgason formaður segir allt unnið eftir hendinni og mikið til sjálfboðastarf. „Eins og þeir kannast við sem standa í rekstri stjórnmálaflokka, þá er þetta mjög mikill peningur sem fer í þetta og mörg smámál sem á endanum taka sig saman,“ segir hann. „Vegna þess að fólk hefur verið að styrkja okkur höfum við náð að leigja sali og prenta kjörseðla í kosningu varaformanns. En þetta byggist aðallega á sjálfboðavinnu, við eigum alls ekki mikla peninga.“
Engin svör frá Samfylkingu eða Framsókn
Ekki fengust svör frá Samfylkingu eða Framsóknarflokki. Samkvæmt ársreikningum flokkanna frá 2014 á heimasíðu Ríkisendurskoðunar átti Samfylkingin um 166 milljónir í árslok 2014 og skuldaði 121 milljón. Eigið fé var 44 milljónir. Framsóknarflokkurinn skuldaði rúmar 250 milljónir í árslok 2014 og átti tæpar 200 milljónir í eignum. Eigið fé var neikvætt um tæpar 60 milljónir.